08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (2848)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Vegna þess hve áliðið er þings, er það fyrirsjáanlegt, að máli þessu er ekki hægt að koma fram, nema nokkurt samkomulag náist um form þess. Sé það ekki hægt, munu þeir óánægðu beita sér fyrir að neita um afbrigði. Málið er ekki flutt samkv. ósk stj., og því er ekki hægt að koma við afbrigðum samkv. hinum nýju þingsköpum. Nú hefi ég reynt að grennslast eftir samkomulagsmöguleikum fyrir málið hér í hv. deild, en ekki komizt að verulegri niðurstöðu. Þó er eitt, sem ég sé fyrir víst, að III. kafli frv. er svo óvinsæll hjá sumum þdm., að varla mun afbrigða von fyrir málið eins og þarf, ef hann er í frv. En þegar um það er að velja, hvort frv. eigi að daga uppi á þinginu, ef hinsvegar er möguleiki á, að það gangi fram, eftir að búið er að taka III. kafla út, þá lít ég svo á, að síðari kosturinn sé skárri. Þá er fengin heimild fyrir sum kauptúnin, sem ekki hafa hana nú, til að leggja á fasteignaskatt hjá sér. Og þá er stofnaður samkv. frv. jöfnunarsjóður kaupstaða; og ég álít, að sá sjóður ætti og að vera fyrir sveitarfélög, og mun flytja brtt. við 3. umr. um það. Það munu þá með þessu móti fást fram tvö nýmæli, auk þess sem einn kaupstaður og ég hygg tvö kauptún myndu hafa gagn af ákvæðinu um útsvarsgreiðslu síldarbræðslu ríkisins. Með þessu þrennu finnst mér skárra fyrir hlutaðeigendur að fá frv. fram heldur en ekki neitt. Og með þessum forsendum eingöngu mun ég verða með því að fella niður III. kafla, og legg til, að aðrir hv. þdm. geri það sama, jafnvel þó að þeir í sjálfu sér fylgi því, að þessi kafli yrði að l., ef á því væri kostur tímans vegna. Að vísu má segja, og ég get fallizt á það að sumu leyti, að þessi kafli sé einhvers virði, en hin ákvæðin eru líka nokkurs virði fyrir þá staði, sem þurfa tekjuöflunar með.