08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (2850)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Gísli Guðmundsson:

Upphaf þessa máls er það, að á þingi í fyrra voru flutt af einstökum þm. mörg frv. um nýja tekjustofna fyrir einstök bæjarfélög og kauptún og ennfremur um að leggja gjald á síldarverksmiðjur ríkisins. Það er ekki rétt, að þetta mál standi í beinu sambandi við hækkun tekju- og eignarskattsins, því að áður en sú hækkun fór fram, hafði t. d. verið lögfest vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað. Þessi frv. um tekjustofna handa einstökum stöðum náðu ekki fram að ganga. Hinsvegar varð samkomulag um það meðal þm. úr öllum flokkum, að flytja þáltill. um skipun mþn., til þess að gera till. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. N. þessi var síðan skipuð 3 mönnum, sínum úr hverjum aðalþingflokkanna. Þessi n. lagði síðan fyrir þingið í vetur nál., sem nm. voru að vísu ekki alveg sammála um. Verði ekkert úr framkvæmdum þessa máls, eins og það var undirbúið, finnst mér þau úrslit bera fremur ömurlegt vitni um þann árangur, sem vænta megi af samstarfi allra flokka. Ég vil heldur ekki trúa því, fyrr en ég tek á, að svo fari. Ég álít að þinginu eigi ekki að ljúka svo, að þetta mál verði ekki afgr. á viðunandi hátt.

Ég læt þetta nægja um málið í heild. En ég vildi gera nokkrar aths. við ummæli hv. 1. landsk. um gjaldið á síldarverksmiðjum ríkisins. Ég flutti frv. í fyrra um að leggja á slíkt gjald, en það náði þá ekki fram að ganga. Nú hefir mþn. tekið þetta upp í till. sínar. N. lagði til, að gjaldið yrði 1%, en ekki 0,5%, eins og hv. 1. landsk. minnti. Ed. lækkaði þetta fyrst niður í 0,5%, en hækkaði það síðan aftur í 0,8%. virðist hafa orðið samkomulag um það gjald sem millileið. Vera má, að lækkunartill. hv. 1. landsk. byggist einmitt á því, að hann hefir misminnt um þetta. Hv. 1. landsk. sagði, að þetta gjald kæmi þungt niður á útgerðarmönnum og sjómönnum. En í áliti mþn. er gert ráð fyrir, að þetta gjald nemi alls 30 þús. kr., og getur það ekki talizt mjög há upphæð. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að meðan síldarverksmiðjan á Raufarhöfn var í norskri eign, bar hún þrisvar sinnum hærra útsvar en verksmiðjan ætti nú að greiða samkv. frv. Vera má, að þetta útsvar hafi verið nokkuð hátt, en þó eigi svo, að verksmiðjustj. teldi ástæðu til þess að kæra það. Hitt er rétt, að þeir staðir, þar sem verksmiðjurnar eru, vilja gjarnan vera rekstrar þeirra aðnjótandi, og að jafnvel hafa orðið nokkur átök um það milli staða að fá til sín slíkar verksmiðjur. En yfirleitt er það svo, að kaupstaðir, kauptún og héruð óska eftir sem blómlegustum atvinnurekstri hjá sér í hvaða mynd sem er, svo að þetta eru engin veruleg rök fyrir því, að gróði þeirra staða, þar sem síldarverksmiðjur eru, sé svo mikill af þeim óbeinlínis, að ekki sé rétt að verksmiðjurnar greiði bein gjöld í bæjar- og sveitarsjóði. Hv. 1. landsk. benti á það, að sumstaðar, eins og á Sólbakka, yrði þetta gjald af sérstökum ástæðum óeðlilega hátt, þar sem búast mætti við allmikilli karfavinnslu utan síldveiðitímans. Kvaðst hann hafa útreikninga um það frá manni, sem nákominn væri síldarverksmiðjum ríkisins, að þetta gjald gæti orðið eins hátt frá Sólbakkaverksmiðjunni einni og öll önnur útsvör í Flateyrarhreppi. Þótt svo væri, þá held ég, að þess séu dæmi, þar sem öflug fyrirtæki hafa verið í hreppum, að þau bæru mestalla gjaldabyrðina, vegna síns mikla rekstrar og hagnaðar, og get ég í rauninni ekkert séð athugavert við það. Það væri því ekkert einsdæmi, þótt þessi hreppur fengi mestan hl. útsvara sinna á einum stað. Hinsvegar finnst mér, að vel geti komið til mála, ef menn óttast það svo mjög, að menn í Flateyrarhreppi verði útsvarsfrjálsir vegna þessarar löggjafar, að gera brtt. við frv. við 3. umr., — brtt. sem yrði miðuð við karfavinnslu og kæmi í veg fyrir, að gjaldið yrði miklu hærra heldur en ef eingöngu væri um síldarvinnslu að ræða. Ég ætla ekki að koma með þessa brtt. nú, en aðeins segja, að vel gæti komið til mála að gera einhverja slíka breyt. Hv. 1. landsk. minntist á, að hann hefði talið fullt svo rétt, að í staðinn fyrir þetta framleiðslugjald, sem hér er talað um að leggja á verksmiðjurnar, hefði komið fasteignaskattur á húseignir verksmiðjanna, hliðstæður þeim, sem lagður er á húseignir samvinnufélaganna. En hann benti sjálfur réttilega á þau rök, sem eru á móti þessu. Rökin eru m. a. þau, að þetta mundi koma ákaflega misjafnt niður. Sumar verksmiðjurnar eru reknar í nýjum og mjög dýrum húsakynnum, og fasteignamat þeirra þar af leiðandi mjög hátt. Aftur á móti eru aðrar reknar í ódýrum húsakynnum, sem lágt eru metin, svo að fasteignamatið, sem skatturinn ætti að miðast við. yrði enganveginn í samræmi við framleiðslu verksmiðjanna né í samræmi við þá greiðslugetu, sem segja má, að hver verksmiðja hafi. Ég vil benda á þetta og undirstrika það, sem hv. 1. landsk. tók fram, að þessi aðferð til þess að koma útsvarsálagningu á síldarverksmiðjurnar væri mjög óréttlát og þar af leiðandi mjög óheppileg. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meira, en vil segja að endingu, að ég vil vænta þess, að árangurinn af starfi mþn., sem skipuð var í þetta mál í fyrra, verði sá, að þetta frv. verði afgr. frá þinginu í einhverri mynd og að þinginu verði ekki slitið fyrr.