08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2852)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Hannes Jónsson:

Ég skal gera þá játningu strax, að ég hefi ekki upp á síðkastið hugsað verulega um þetta mál, af því að mér sýndist það þannig í pottinn búið, að engar líkur væru til, að það fengi afgreiðslu. Svo sýnist mér raunar ennþá, þó að málið sé nú til 2. umr. Ég vil þó ekki láta það fara svo framhjá, að ég segi ekki um það nokkur orð, m. a. af því, að á tveimur undanförnum þingum hefi ég flutt frv. ásamt hv. 10. landsk. um tekjustofna fyrir sýslufélög. Ég hefði haldið, þegar á sínum tíma var ákveðið að leggja fyrir þetta þing till. um tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, að þá ætti einnig að taka tillit til þeirra raka, sem fólust í frv. okkar hv. 10 landsk. og grg., sem því fylgdi, og umr. á þingi, ásamt öðrum ástæðum, sem fram komu um þörf bæjar- og sveitarfélaga fyrir auknum tekjustofnum. En nú segir hv. þm. N.- Þ., að upphaf þessa frv. hafi verið það, að á undanförnum þingum hafi komið fram frv. um tekjuöflun handa nokkrum kaupstöðum og útsvör á síldarverksmiðjur. Þetta á að vera ástæðan fyrir því, að þetta frv. er fram komið, og eftir því, sem hæstv. fjmrh. talaði, get ég ekki annað en viðurkennt að það sýnist allt benda til þess, að þetta sé höfuðástæðan fyrir því, að þetta frv. er komið fram, en ekki það, að nokkur ástæða hafi þótt til þess að létta undir með sveitarfélögunum, heldur er það eingöngu miðað við þörf kaupstaðanna í landinu. Þetta skal ég rökstyðja með því að benda á, að í I. kafla frv. er ekki á nokkurn hátt létt undir með sveitarfélögnnum. Það er ekki lagt til, að sveitirnar geti aflað sér fjár á nokkurn annan veg heldur en þær hafa fullan rétt til nú. II. kafli frv. er um vegaskatt í kaupstöðum og kemur sveitunum ekkert við. III. kaflann vill hæstv. fjmrh. láta nema í burtu til samkomulags við aðra, sem algerlega hafa lokað augunum fyrir þörf sveitarfélaganna á auknum tekjustofnum. Þá er IV. kaflinn, um skatt á ríkisstofnanir, og er eingöngu ætlaður kaupstöðum. Ekkert er þar gert fyrir sveitarfélögin, og er frv. þar með búið. — Til þess nú að koma frv. í það horf, sem mér skilst, að hv. þm. N.-Þ. og hæstv. fjmrh. vilji vera láta, þá á að nema burtu þann kaflann, sem helzt tekur tillit til sveitanna, sem er þó ekki mikið, og á vafasaman hátt. En það er þó eina tilraunin, sem sýnd er til þess að gæta hagsmuna sveitanna. Í frv. okkar hv. 10. landsk., sem við höfum flutt á undanförnum þingum, var gert ráð fyrir því, að fasteignaskatturinn, sem nú fer í ríkissjóð, félli til sýslufélaganna. Hefði það numið talsverðri upphæð, a. m. k. orðið til þess að létta á hreppunum sýslusjóðsgjaldinu um 1/3 til ½. Að þessu var svo fundið aðallega það af núv. stjórnarflokkum, að ríkissjóður mætti ekki við svona miklum tekjumissi í þessu augnamiði. En hæstv. ráðh. hafði ekkert við það að athuga, þó að í IV. kafla þessa frv. sé einmitt gengið á tekjur ríkissjóðs til þess að létta undir með kaupstöðunum. Þá er ekkert orðið athugavert við það, ef féð á að renna til kaupstaðanna. Þá er sjálfsagt að rétta höndina og ausa úr ríkissjóði, en ef sveitirnar biðja um eitthvað svipað, þá er það ómögulegt. En einmitt af því, eins og ég gat um í upphafi, að ég gerði alls ekki ráð fyrir, eftir þeim undirtektum, sem þetta frv. hefir fengið, að það fengi afgreiðslu, þá hefi ég ekki borið fram brtt. við frv., sem sjálfsagt hefði verið að bera fram. Það er óhjákvæmilegt að breyta þannig til, að ríkissjóður afhendi eitthvað af sínum tekjustofnum til sveitarfélaganna, því að illmögulegt er að bæta á þær miklu skattbyrðar, sem á einstaklingunum hvíla. Þess vegna ætti að fara þá leið, að láta sveitar- og bæjarfélögin fá vissa tekjustofna út af fyrir sig, en ríkissjóður héldi svo hinum óskertum út af fyrir sig, en vera ekki að deila þeim á milli ríkissjóðs og sveitar- og bæjarfélaganna, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., sumum gr. þess.

Viðvíkjandi þeim umr. og ákvæðum þessa frv., sem snerta síldarverksmiðjurnar, vil ég segja, að mér finnst það ákaflega einkennilegt, að þetta mál skuli vera flutt af eins miklu kappi hér á þingi eins og sýnist vera, því að það er öllum kunnugt, að samkv. lögum frá 1924, um útsvarsskyldu ríkisstofnana, var alls ekki hægt að búast við því, að þessar bræðslustöðvar stæðu undir nokkurri útsvarsskyldu til þeirra kauptúna, sem þær eru i, og þó var hin mesta keppni um það, að ríkisverksmiðjurnar yrðu byggðar á þessum eða hinum staðnum. Og þegar síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði var byggð seinast, bauð Siglufjörður að leggja fram 200 þús. kr., sem hann hafði lagt fram sem stofnfé í fyrri verksmiðjuna, og leggur það fram sem óendurkræft framlag, til þess að verksmiðjan yrði byggð þar. Svo nauðsynlegt taldi bærinn það að fá verksmiðjuna vegna atvinnuaukningar. En ofan á þetta allt á Siglufjarðarbær að fá, eftir því sem hv. 3. landsk. upplýsti, milli 30 og 40 þús. kr. árlega. Þær yrðu þá fljótar að borga sig þessar 200 þús. kr., sem bærinn lagði fram í því augnamiði að fá verksmiðjuna. Mér sýnist þetta svo fjarri öllu lagi, að ekki komi til mála að ganga inn á þá braut, sem lögð er með ákvæðum frv., og það á alls ekki að samþ. jafna greiðslu, eins og felst í brtt. hv. 1. landsk., þó að hún sé í sjálfu sér mikil endurbót frá því, sem ákveðið er í frv. sjálfu.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég hefi áður minnzt á ákvæði IV. kafla, þar sem beint er gengið inn á þá braut að taka fé úr ríkissjóði og leggja til kaupstaðanna. Hér hefir þótt fært að ganga inn á þá braut, sem ég og fleiri hafa bent á áður, að skipta tekjustofnunum milli ríkissjóðs og sveitar- og bæjarfélaganna. Sú leið er með þessu ákvæði dæmd fær, og fyrst svo er, þá sé ég ekki, hvaða rök liggja á bak við það, sem flutt hefir verið fram, að ríkissjóður mætti ekki missa af fasteignaskattinum. Ég sé ekki, að fasteignaskatturinn sé meira virði fyrir ríkissjóð heldur en tekjur af ríkisstofnununum. Mér þykir vænt um að fá það staðfest, að inn á þessa braut megi ganga, og eigi að ganga, en hitt er annað mál, hvort ákvæði IV. kafla eru rétt eða ekki. Þennan jöfnunarsjóð og ákvæðin um það, hvernig honum skuli varið milli hinna einstöku kaupstaða, tel ég mjög vafasaman, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Það er gengið út frá því, að honum eigi að verja til þess að borga upp að einhverju leyti óhagstæð lán, sem hvíla á hlutaðeigandi bæjarfélagi. Það er lítill vandi fyrir kaupstaðina, ef þeir vilja ná í þetta fé, að stofna til erfiðra skulda hjá sér, sem svo á að endurgreiða af þessum jöfnunarsjóði. Mér skilst, að þessi jöfnunarsjóður eigi að inna af hendi svipað hlutverk og jöfnunargjaldið í framfærslulögunum á að hafa gagnvart framfærslukostnaðinum. En þarna er þó um tvennt ólíkt að ræða, því að framfærslukostnaðurinn er gjald, sem hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélagi er alveg ósjálfrátt í flestum tilfellum, þó að þau hafi vitanlega aðstöðu til þess að takmarka nokkuð þá upphæð með skynsamlegri meðferð þeirra mála. Ég álít, að hér sé um svo óskyld atriði að ræða að ekki geti komið til greina að framkvæma þessa úthlutun úr jöfnunarsjóði á þann hátt, sem mér sýnist, að til sé ætlazt með þessu frv. Ef III. kafli verður felldur niður úr þessu frv., þá er þetta mál eingöngu orðið mál kaupstaðanna, sem okkur hinum kemur ekki við og þeir geta karpað um sín á milli. Ég get ekki séð, hvaða ástæðu Alþingi hefir til að útiloka sveitarfélögin algerlega frá möguleikum til nýrra tekjustofna, því að það er gert með þessu. Því að þótt þetta séu tekjustofnar, þá eru þeir ekki nýir. Þetta eru tekjustofnar, sem hafa verið notaðir og munu verða notaðir án tillits til, hvort þessi löggjöf kemur eða ekki.