07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (3068)

138. mál, Ítalíufiskur

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þessi till. er flutt af fjhn. eftir beiðni hæstv. fjmrh. Ég hefi ekki margt um hana að segja annað en það, að hér er lagt til, að tekin sé ábyrgð, sem er álíka ábyrgð og þær, sem teknar eru í öðrum löndum, þegar líkt stendur á. Venjan er sú, þegar tekin er ábyrgð á þessari innieign, að það sé ábyrgzt 75%–80% og þar um kring, en aldrei að fullu. Það hefir ekki verið venja með Rússlandsvíxlana, sem gengu hér áður og voru þá venjulega árlangir, að taka hærri ábyrgð en eitthvað þar um kring.

Það má náttúrlega segja, að þeim, sem eiga þennan gjaldeyri, sé ekki fullnægt, og vitanlega eru miklir erfiðleikar í því fólgnir að fá ekki gjaldeyrinn heim strax. En ég býst við, að landsmönnum verði ekki fullnægt í þessu efni fyrr en við fáum heim valutuna sjálfa, því allt það fé, sem greitt er út hér heima, og það, sem fer í umferð, verður að kröfum á erlendan gjaldeyri. og til þess að peningarnir, sem settir eru í umferð, innleysist og verði að því gagni, sem vera ber, þá þarf erlenda valutan að vera til ófrosin. Ég geri ráð fyrir, að ef ekki er hægt að fá erlendu valutuna frjálsa, þá muni það verða seinsótt fyrir ríkið að fullnægja þeirri eftirspurn, sem hinn innlendi gjaldeyrir skapar eftir hinum erlenda gjaldeyri.

Við getum náttúrlega allir talað um okkar erfiðleika núna og erfiðleika atvinnuveganna, en það er ekki hægt að tala um þá erfiðleika á þann veg, að þeir séu eingöngu hjá sjómönnum, verkamönnum, bændum og framleiðendum, en engir hjá ríkinu. Þegar erfiðleikar steðja að, þá er oft komið með þessar kröfur, að ríkið, sem sé í engum erfiðleikum, eigi að bæta úr öllum vandræðum. En sannleikurinn er sá, að erfiðleikar ríkisins eru þeir sömu og framleiðendanna. Það er eðlileg freisting, en aðalhjálpin, sem ríkið getur veitt nú, er kannske ekki það, að ábyrgjast hluta af greiðslunni, svo stóran hluta sem talið er frekast fært, heldur kannske hitt, að sjá svo um, að þessi erlenda valuta þiðni eins fljótt og unnt er. Það er vitanlega krafa, sem verður að gera til ríkisstj. og til gjaldeyris- og innflutningsnefndar, að þessi innieign okkar í Ítalíu verði svo stór, að hún verði sem allra fyrst að vöru, sem flutt sé inn til landsins og eftirspurn er ettir. Fyrir nokkru, eða áður en núgildandi samningar voru gerðir, var erfitt að neita um innflutning á vörum frá Ítalíu, og það var ekki unnt fyrir gjaldeyrisnefnd að greina sundur innflutningsbeiðnir, þarfar og óþarfar. En nú, þegar komnir eru á clering-samningar, þá horfir þetta allt öðruvísi við. Við þurfum að sortera úr þær ítölsku vörur, sem okkur eru nauðsynlegastar, og sjá um, að þær séu fluttar inn frá Ítalíu, en ekki annarsstaðar að. Hitt kemur ekki að gagni lengur, að leyfa innflutning á öllum óþörfum vörum frá Ítalíu. Það er rétt sama fyrir hag þjóðfélagsins, hvort þessari frosnu valutu er breytt í óþarfavarning eða látin standa inni erlendis. Ég vil því leggja höfuðáherzlu á það, að ríkisstj. og gjaldeyrisnefnd skipuleggi innflutninginn frá Ítalíu og Suður-Evrópu yfirleitt á þennan veg, sem breytt ástand heimtar, og þann veg sjái um, að greiðslur komi hið fyrsta. Sannleikurinn er sá, að það borgar sig ekki fyrir okkur að flytja til þessara þjóða meira af okkar framleiðslu heldur en þær geta greitt í vörum, sem okkur eru nauðsynlegar. Og þegar slíkt skipulag væri komið í kring, byggt á nákvæmri rannsókn á framleiðslu þessara þjóða og okkar þörfum, þá ætti millifærslan að geta gengið fljótar fyrir sig heldur en áður og ekki þurfa að líða langt frá því, að fiskurinn er fluttur út og þangað til erlenda varan er flutt inn í staðinn. — Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta að svo stöddu, en þessu máli er öðruvísi varið en svo, að hér sé um það að ræða, að ríkið hafi í þessu efni öll ráð og alla möguleika á að bæta úr vandræðunum með ábyrgð einni.