19.02.1936
Sameinað þing: 3. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3088)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Forseti (JBald):

Ég viðurkenni, að hæstv. Alþ. sé virðulegri stofnun en margar aðrar stofnanir og að fréttir frá því beri sérstaklega að vanda. Enda heftir verið til þess hafður á hverjum tíma sérstakur maður. Hefir þessi fréttaflutningur oftast tekizt sæmilega. En viðvíkjandi því að vinna að þessu hér, hefi ég átt tal við skrifstofustjóra og starfsmenn aðra í skrifstofunni, og segjast þeir þurfa meira húsrúm nú en að jafnaði um þingtímann, vegna þess að nú stendur yfir prentun Alþt. frá síðasta þingi, og einn maður í skrifstofunni situr yfir því starfi hér í því húsrúmi, sem skrifstofa Alþ. hefir til umráða.

Einnig tel ég vandkvæðum bundið, að skrifari annist þessa hluti og verði jafnframt að gegna sínum skyldustörfum. Eins og kunnugt er, eru oft þingfundir á kvöldin, og ætti skrifari því oft örðugt með að hvarfla frá til þess að lesa upp fréttir í útvarpið. Flutningur frétta frá Alþ. í útvarpi er auk þess það mikið starf, að maður, sem það innir af hendi, þarf að gefa sig við því um þingtímann að miklu leyti.

Að gefnu tilefni af hálfu hv. þm. V.-Sk. og annara hv. þm. munum vér forsetar taka þetta mál enn til athugunar. Og ég held, að gott væri einnig, að þingflokkarnir tækju málið til athugunar. Að sjálfsögðu mundu forsetar fara eftir því, sem þingflokkarnir kæmu sér saman um í þessu efni, eða meiri hl. þingmanna, þrátt fyrir afstöðu þeirra (forsetanna) hingað til.