19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3098)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Ég þarf ekki að fara langt út í málið nú, af því að ég gerði allýtarlega grein fyrir því í framsöguræðu minni. Að vísu hefir einn hv. þm. andmælt till. minni. En það er ekkert óvenjulegt fyrir okkur, sem eigum sæti á Alþingi, að þessi hv. þm. rísi hér upp til þess að spinna lopann að tilefnislausu, aðeins til þess að svala mannskemmdafýsn sinni. Það fór eins fyrir þessum hv. þm. og þekkist í sveitum um varptímann, þegar einhver kemur í návist við hreiður kjóans; þá finnst honum, að eggin sín séu í hættu og fer þá að lúðra og lemja sig með vængjunum. Hv. þm. S.-Þ. hefir sennilega fundizt, að hér væru einhver egg í hættu. En það fer oftast svo, að þrátt fyrir lúður kjóans, þá er eggjunum hans rænt. Og ég býst ekki við, að hv. þm. þurfi að hugsa sér að sporna við því, að þessi þáltill. nái fram að ganga. — Hv. þm. skýrði rangt frá því, eins og honum er lagið, að þetta mál væri nú þegar útkljáð. Það er á allra vitorði, að enn er óútkljáð um ráðningu þess manns, er flytur þingfréttir í útvarpið, og að nú er svo komið, að samningar verða aftur upp teknir um það á milli útvarpsins og forseta Alþingis. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, þá var því, samkv. ósk útvarpsstjórans sjálfs, beint til forseta þingsins að ráða þennan fréttamann. Og nú hafa öll orð á milli þessara aðilja hnigið í þá átt, að forsetarnir muni verða við þeirri ósk útvarpsráðs.

Það var svo langt frá því, að ég beindi nokkrum árásum til útvarpsins í framsöguræðu minni, að ég gætti þess vandlega að fara ekki inn á neitt, er gæti vakið ágreining eða kurr út af því, sem flutt hefir verið í útvarpið. Hinsvegar er öllum frjálst að bera fram aðfinnslur og gagnrýni á því, sem flutt er í útvarpinu, og flytja till. um það, og veit ég ekki til, að útvarpsráðið eða útvarpsstjóri hafi fundið neitt að því. Hitt er svo annað mál, hvort útvarpið getur orðið við þeim óskum til breytinga, sem farið er fram á í þeim tillögum.

Hv. þm. S.-Þ. þóttist ekki vita, í hvaða tilgangi þessi till. væri borin fram, og taldi, að hún væri gersamlega þýðingarlaus. Þessi gamli maður, sem lifir nú orðið í gömlum endurminningum og veður hér elginn um gleymd og gömul mál, hann hrærir öllu saman, sem ekki kemur þessu máli við, einungis í þeim tilgangi að lasta andstæðinga sína. Hinsvegar ber hann oflof á alla þá, sem hann heldur, að séu í kringum sig, og þakkar sínum flokki stofnun ríkisútvarpsins. En að því máli var vitanlega unnið af öllum ráðandi stjórnmálaflokkum í landinu. Það er ekki hann einn, sem hefir reist þessa stofnun, en hinsvegar mun hann geta þakkað sér ráðningu á flestum starfsmönnum útvarpsins, sem vitanlega hefir hlotið mjög misjafna dóma og sætt miklum ágreiningi fyrr og síðar. Um það hefir oft verið rætt og ritað. Og ég leyfi mér að fullyrða, að ýmsir starfsmenn útvarpsins hafa ekki verið ráðnir þar til starfa án tillits til flokkadráttar eða pólitískrar afstöðu þeirra.

Hv. þm. S.-Þ. getur aftur staðið upp og sagt, að málið sé útkljáð, — það er eins mikil vitleysa fyrir því og á móti betri vitund. Það er sumt ekki alltaf viturlegt, sem hann fer með, og þess vegna verður kannske að skrifa það á þann reikning. Hann hefir vaðið hér elginn ósjálfrátt, en ef hann ætlar að taka hér til máls aftur og tala sjálfrátt, þá hefi ég bent honum á þetta.

Ég vil svo að síðustu aðeins geta þess, að vitanlega kom það ekkert þessu máli við, sem flutt var í vetur af mér og öðrum við eldhúsumr., og ég get sagt hv. þm. það, að ég hefi aldrei tekið neitt aftur af því, sem ég sagði þar, og sagði ég það þó bæði þar og í blöðunum. Og blað þessa hv. þm., Nýja dagbl., varð að taka upp aths. frá mér, og í henni stendur vitanlega, að ég haldi fast við það, sem ég hafi sagt, og engin aths. var gerð við það. En hinsvegar hefi ég sagt það, að það er ekki útrætt um þetta mál. — Hæstv. fjmrh. má hlæja. En raftækjamálið og stjórn þess er ekki útrætt, og allra sízt útrætt um það, hvað þar er fjölskipað mönnum. Nú mega þeir hugga sig við það, að það mál kemur aftur inn í þingið, og þá er að vita, hvort eftirleikurinn verður ánægjulegri fyrir þá heldur en forleikurinn.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði áður, að ég vænti þess, að hv. þm., hvað sem liður ónotum frá einum og einum manni, fallist á að láta till. ná fram að ganga, því að ég treysti því, að það verði komið því lagi á þetta mál, sem eðlilegt er, en ekki er nú, því að þótt vitanlega hafi stundum verið vel fluttar þingfréttir í útvarpið, þá hefir það ekki verið gert nú upp á síðkastið, eins og hv. 2. þm. Reykv. gat um.