25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3142)

130. mál, símaleynd

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Það, sem gaf mér tilefni til þess að standa upp, voru ummæli hæstv. atvmrh. út af áskorun hv. 6. þm. Reykv. Hæstv. ráðh. telur, að úrskurðina megi ekki birta og jafnvel ekki sýna þá trúnaðarmönnum Alþ., — sem eiga að fara með nokkurskonar æðstu stjórn þessarar stofnunar —, nema með leyfi lögreglustjóra. Og í annan stað telur hann, að alls ekki komi til mála að birta þau númer, sem njósnirnar voru bundnar við. Út af þessu skal ég geta þess, að þessir úrskurðir eru ekki lengur — í þeirri merkingu, sem krafizt er að fá þá — í höndum lögreglustjóra. Þeir koma ekki lengur við þeim málsatriðum, sem lögreglustjóri hafði með að gera, þegar úrskurðirnir voru felldir. Þessir úrskurðir, sem símamálastjóri hefir fengið, eru því eins og hver önnur skjöl, sem liggja hjá umboðsvaldinu, og eru ekki lengur á lögreglunnar valdi. Það nær því ekki nokkurri átt að meina þeim mönnum, sem Alþ. hefir sett samkv. lögum til þess að hafa yfirstjórn þessarar stofnunar, að fá að sjá þessa úrskurði. Þessi skjöl eru nú aðeins orðin umboðsvaldsins skjöl og liggja fyrir hjá símamálastjóra, og það liggur því í augum uppi, að þessir ráðamenn eiga heimtingu á að fá að sjá þau, og í raun og veru allir, sem þetta mál kemur við. Samkv. lögum eiga þessir ráðamenn að hafa eftirlit með öllum þeim málum, sem varða hag og afkomu símans, og því er ekki hægt að neita, að þetta mál varðar vissulega hag og afkomu þessarar stofnunar, auk þess sem það snertir í fyrsta lagi heiður og tilverurétt hennar með þeim mönnum, sem við hana starfa. En nú geri ég ekki ráð fyrir, að þessi úrskurðarverk séu runnin frá neinum manni við símann eða símamálastjóra, og raunar ekki heldur frá þeim, sem nú fara með lögreglumálin, heldur geri ég ráð fyrir, að þau séu runnin frá ríkisstj. sem pólitískt mál. Og þá kem ég að hinu atriðinu, sem hæstv. ráðh. talaði um. að ekki mætti enn gefa mönnum upp — þó úrskurðirnir yrðu birtir — þau símanúmer, sem ráðizt var á í vetur. Það vita allir, að það hlýtur að hafa verið pólitískt mál, sem þá fór fram. En nú er þetta mál löngu umliðið, svo að það er engin ástæða til að leyna því lengur, hvaða númer samkv. úrskurði þá voru tekin fyrir og njósnuð. Sú eina ástæða, sem gæti verið til þess, er sú, að símanotendur sjálfir, sem hefðu grun um, að sín númer hefðu verið njósnuð, óskuðu eindregið eftir því, að þessu væri leynt. En ég fullyrði, að því fer fjarri. Ég fullyrði, að einstaklingar og stofnanir munu óska þess og krefjast þess, að þessi númer verði birt. Það gæti ekki að neinu leyti heft framkvæmdir lögreglunnar, þar sem þetta mál er löngu umliðið. Þess vegna verður krafan þessi: Úrskurðirnir verða — hvað sem lögreglustjóri og dómsmrh. segja — að birtast af símamálastjóra sem „trúnaðarmanni símanotenda“, eins og hann sjálfur hefir kallað sig. A. m. k. verða þeir að birtast þeim trúnaðarmönnum Alþ., sem settir eru samkv. lögum til þess að hafa eftirlit með þessari stofnun. — Hitt er svo annað mál, hvað svo verður gert. Það verður vafalaust rætt betur seinna, hvað gera skuli til þess að forðast árásir á einkahagi manna af hálfu hins pólitíska valds, því það er gefið, að a. m. k. hlustunin í bílstjóraverkfallinu var eingöngu runnin frá hinu pólitíska valdi. Og þar verður ríkisstj. að svara til sakar. En það raskar ekki hinu, að allt verður að birtast.

Mér þykir sem ríkisstj. hafi nú komizt í það ástand, að hún beint og óbeint hafi orðið að viðurkenna, að hún hafi gert það í vetur og að nokkru leyti nú, sem hún hefir ekki vald til, að svo miklu leyti sem hún stendur á bak við þetta njósnarfargan, sem ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, að hún gerir. Fyrir því verður það krafa allra símanotenda, að allt komi í ljós, sem gert hefir verið í þessu tilliti, því að það má búast við, eftir því að dæma, hvernig gengið hefir að því þessa játningu hjá hæstv. ríkisstj. og þær upplýsingar, sem fram hafa komið, að meira hafi verið gert heldur en enn er komið í ljós. Það má sem sagt búast við öllu. Og þess vegna ætti hæstv. ríkisstj. að vera það ljúft, ef hún þykist að öðru leyti hafa hreinna mjöl í pokanum heldur en enn er komið fram, að leyfa öllu að koma fram í dagsins ljós, svo að hún liggi ekki undir frekari grun.