29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

130. mál, símaleynd

*Ólafur Thors:

Ég hefi nú verið mér til ánægju að handfjalla þennan króga, sem hv. 6. þm. Reykv. var að lýsa og eftir nokkurt volk í heimi þessum var feðraður af hv. 1. landsk. Og ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að slíkt plagg er borið fram.

Það er í fyrsta lagi, að það er blandað saman hér alveg ólíkum málum. Í öðru lagi er beinlínis farið með vísvitandi ósannindi í sjálfri rökst. dagskránni. Þar stendur, að það sé upplýst, að síðan núv. ríkisstj. kom til valda hafi ekki verið rofin leynd símasamtala nema að undangengnum úrskurði. Ég neita, að þetta hafi verið upplýst. En þetta er það, sem við viljum fá upplýst. Hver trúir því, þó að ráherrar séu að margstagast á vísvitandi ósannindum í þessu máli? T. d. þegar hæstv. dómsmrh. þvertekur fyrir það, að símanjósnir hafi farið fram í sambandi við bílstjóraverkfallið í vetur. Ég lýsi yfir, að þar fór hann með vísvitandi lygi (Forseti hringir.), og stend við það. (Raddir: Heyr!). Ég endurtek, að þetta var vísvitandi lygi! (Forseti hringir). Og það er meira en meðal lítilmennska hjá forsrh. að vita sjálfan sig sekan um þetta og vita, að hverjum einasta þingbróður hans er sekt hans kunnug, að hafa þá skap til að skríða í skjól bak við lögreglustjórann, þegar ráðh. er að verða ljóst, hvílíkt skammarstrik hann hefir framið. (Forsrh.: Það er naumast orðbragð!).

Ég neita þess vegna því, að það sé upplýst, að síðan núv. ríkisstj. kom hafi ekki verið rofin leynd símtala nema að undangengnum dómsúrskurði. Það er eitt af því, sem við erum að biðja um að fá rannsakað, — í þágu símans, og í þágu símaöryggisins og í þágu þess trausts, sem síminn sjálfur þarf að njóta hjá símanotendum. — Ennfremur segir, að aldrei hafi verið rofin leynd símasamtala nema í því skyni einu að fá upplýst alvarleg lögbrot, sem rökstuddur grunur var um, að framin væru eða fremja ætti. Ég leyfi mér því, nú þegar þetta plagg er komið fram og stjórnin og lið hennar á að rétta upp putana til að sverja sannleiksgildi þessa plaggs, — ég leyfi mér í síðasta skiptið að beina þeirri áskorun til höfuðafbrotamanns þessa máls, hæstv. dómsmrh., enn einu sinni, að hann segi til um það, hvaða rökstuddur grunur lá fyrir um afbrot, sem búið var að fremja eða átti að fremja í sambandi við bílstjóraverkfallið í vetur, og ekki var hægt að upplýsa nema símasambandið væri rofið.

Ég ætla að endurtaka spurninguna, svo að ég sé viss um, að hún komist inn í hausinn á hæstv. ráðh. Ég vil spyrja hann í hundraðasta skipti, hvaða rökstuddur grunur legið hafi fyrir í sambandi við bílstjóraverkfallið um afbrot, sem búið væri að fremja eða átt hefði að fremja, þess eðlis, að ekki hefði verið hægt að upplýsa það nema með því að rjúfa símaleyndina.

Af báðum þessum ástæðum lít ég svo á, hæstv. forseti, að vísa beri frá dagskrártill. þessari. — Að öðru leyti er formið á till. meira en lítið kyndugt. Hún byrjar þannig: „Af því að upp hefir komizt við rannsókn á loftskeytum stórfelld njósnarstarfsemi“ o. s. frv. Af þessari ástæðu má ekki komast upp, að ríkisstj. hafi orðið sér til skammar. Af því, að komizt hefir upp um þessa njósnarstarfsemi, má ekki komast upp um þessa síðari sökudólga, enda þótt vafi geti leikið á því, hvor sökin er verri. Svona undarleg er röksemdafærslan í þessari rökst. dagskrá: Af því að nokkrir menn hafa orðið uppvísir að afbroti, þá má ekki komast upp, að stj. hafi framið afbrot, alveg eins og þeir eigi að fá að vera einir um glæpina. Hvort sem litið er á efni dagskrártill. eða form, þá er það ljóst, að henni ber að vísa frá. Og þó að ég hafi ekki mikla von um, að henni verði í raun og veru vísað frá, ber ég samt fram þessa ósk, eða réttara sagt: kröfu.