18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (3229)

89. mál, eftirlit með skipum

Páll Þorbjörnsson:

Hv. frsm. var að gefa mér fræðilegar upplýsingar um þrjú ákvæði, sem væru um strandsiglingu. Ég held, að mér sé jafnkunnugt um það og honum, og þó kunnugra. Sökum þess hve ferðir Laxfoss væru stuttar og reglulegar, taldi hv. þm. óþarft að veita stýrimanni og vélstjórum þá sömu uppbót og veitt er á þeim skipum, sem annast strandferðir hér við land. Ég vil nú benda hv. frsm. á það, að samkv. þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, stendur til á þessu ári að fjölga ferðum þessa skips mjög frá því, sem verið hefir, og auk þess vil ég benda á það, að á þessu skipi er aðeins einn stýrimaður, en á strandferðaskipum ríkissjóðs eru þeir þrír, þessum manni hvílir mjög mikið starf, og þar sem skipið siglir stuttar og stöðugar ferðir milli hafna, gefst þessum manni mjög lítill tími til hvíldar, nema því aðeins, að skipstjórinn sé á vakt, svo að það er mun meiri ástæða til þess að veita þessum manni launauppbót heldur en hinum.

Ég vil svo, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp niðurlag á bréfi skipaskoðunarstjóra ríkisins til mín út af fyrirspurn til hans frá mér um áhrif þessarar þáltill. á öryggi skipanna. Það hljóðar svo:

„.... Með því að álíta verður, að farsviðið Reykjavík — Borgarnes sé hættumeira en Reykjavík — Akranes, þá tel ég varhugavert að gera breytingar, er miði að minna öryggi en nú er krafizt, enda er það alþjóða markmið að auka öryggið innan skynsamlegra takmarka, en ekki að draga úr því.“