19.02.1936
Sameinað þing: 3. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

1. mál, fjárlög 1937

Hannes Jónsson:

Hæstv. fjmrh. hefir nú flutt sína fjármálaræðu, og var hún ekki annað en óslitin keðja af vörnum fyrir sjálfan hann og stj. Honum hefir fundizt, sem vonlegt er, að meiri þörf væri á vörn fyrir stj. en hlutlausum upplýsingum til þjóðarinnar. Hann virtist mjög ánægður yfir því, að rekstur þjóðarbúsins síðasta ár skyldi ekki fara meira en töluvert á þriðju milljón fram úr áætlun fjárl. Hann gerði nokkrar tilraunir til að skýra, í hverju þessar umframgreiðslur væru fólgnar, en að mestu leyti er það þó enn sem komið er óupplýst. Hæstv. ráðh. sagði, að nú, þegar spilin væru lögð á borðið, skyldum við andstæðingarnir koma og sýna fram á, hvað í ólagi væri. En hér eru engin spil eða skjöl á borðið lögð. Hér hefir ekkert fram komið annað en staðhæfingar hæstv. ráðh. Þær tölur, sem sýna eiga, í hvað þessar umframgreiðslur hafa farið og hann hefir ekki hirt, verða ekki séðar fyrr en á landsreikningnum. Hann nefndi ekki annað, að ég held, en 10 þús. kr. upphæð, sem á að hafa gengið til tryggingarmálan. En mig grunar, að þegar öll plögg eru fram komin, þá muni það sína sig, að margar l0 þús. kr. upphæðir, og ef til vill 100 þús. kr. upphæðir. hafi farið í ýmiskonar nefndakostnað.

Fjárl. ársins 1937 eru um 100 þús. kr. hærri en fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Nú veit hæstv. ráðh. það, að fjárlfrv. 1936 hækkaði í meðförum þingsins um 1½ millj. kr. Hæstv. ráðh. mun vafalaust staðhæfa, að frv. geti ekki hækkað eins mikið að þessu sinni, en hann ætti þó að geta sagt sér það sjálfur, að hækkunin hlýtur a. m. k. að skipta hundr. þúsunda króna.

Þá vil ég leyfa mér að víkja að nokkrum liðum fjárl. er snerta verklegar framkvæmdir á landinu. Á síðasta þingi hældi stj. sér mjög af því. hve réttlátlega hún hefði skipt vegafé milli héraða, með tilliti til þess, að atvinna yrði sköpuð fyrir menn, sem viðast um landið. Tillög til vega hafa þó verið lækkuð um 72 þús. kr. alls, og hefir þessi lækkun verið framkvæmd á mjög misjafnan hátt í ýmsum héruðum landsins. Í Dalasýslu hefir t. d. verið fellt niður framlag til Suðurdalavegar og eins Laxárdalsvegar. Aðeins 3000 kr. framlagi til Saurbæjarvegar hefir verið haldið. Í Húnavatnssýslu hefir framlagið til Hrútafjarðarvegar verið lækkað um helming niður í 3000 kr., og eini vegurinn, sem bætt var inn í fjárl. í fyrra, Vesturhópsvegur, hefir alveg verið strikaður út. Hinsvegar hefir Strandasýsla fengið að halda óbreyttum framlögunum til Steingrímsfjarðarvegar. Kollafjarðarvegar og Bitruvegar. Ég fullyrði, að öll nauðsyn er á því, að Strandamenn fái að halda þessum smáu upphæðum, sem þarna er um að ræða, en að því er snertir Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu, er þessi nauðsyn engu minni.

Ég skal svo ekki rökstyðja frekar þessi missmíði á fjárlfrv., sem ég vona, að Alþingi og fjvn. lagfæri, en ég vildi þó ekki láta hjá líða að gera þessar aths., því að um leið og lækkuð eru framlög til vegagerða. er sýnt áþreifanlegt misrétti um úthlutun vegafjár.

Þá eru framlög til hafnargerða, hafnarbóta. bryggjugerða og lendingarbóta lækkuð um 55 þús. kr. Á þessum tveim liðum verður þá samtals nær 130 þús. kr. lækkun. En þrátt fyrir þessa lækkun og frádrátt á ýmsum öðrum liðum er ekki glæsileg aðstaða stj., því að fjárl. hafa samt orðið 100 þús. kr. hærri frá hennar hendi en þingsins í fyrra. Ríkisstj. hefir ekki séð sér fært að lækka kostnaðinn á öðrum liðum en þeim, sem ég nefndi, og öðrum slíkum. Hún hefir ekki séð sér fært að draga úr mannhaldi við áfengisverzlunina, sem hefir í þjónustu sinni 38 menn með 137820 kr. árslaunum, eða tóbakseinkasölunnar, sem hefir 18 menn með 76060 kr., eða ríkisútvarpsins, sem hefir 42 menn með 143–500 kr. Svona mætti lengi telja dæmi, þar sem draga mætti mjög úr útgjöldum, án þess að valda framleiðslunni í landinu nokkrum hnekki. En það er einmitt atvinna landsmanna, sem verður fyrir barðinu á sparnaðarráðstöfnnum hæstv. stj. — Eitt dæmið enn er hin mikla hækkun á alþýðutryggingum frá síðasta þingi, sem nemur 560 þús. kr.

Þá get ég bent á það, til þess að sýna, hve nákvæmnin er mikil, sem notuð hefir verið við samningu frv., að í 17. gr. er tilfærð 13 þús. kr. upphæð til slysatrygginga samkv. 2. gr. l. nr. 73 frá 1928, með öðrum orðum samkv. l., sem búið er að nema úr gildi.

Það, að ekki hefir orðið meiri greiðsluhalli á síðastu ári en raun ber vitni um, er því að þakka, að tekjur ríkissjóðs hafa hækkað fyrir hóflausar álögur á almenning. Stj. virðist ekki hafa haft fyrir augum annað en það, að jafna með einhverju móti tekjur og gjöld ríkissjóðs. Þetta er út af fyrir sig gott og blessað, en það nær ekki tilgangi sínum, ef það kemur niður á atvinnuvegunum. Ef halli atvinnuveganna eykst frá ári til árs, þá hljóta þeir innan skamms að líða undir lok, og hvaðan ætlar ríkið þá að hafa sínar tekjur? Þessu hefir stj. ekki haft nægilega glöggt auga fyrir.

Hv. 10. landsk., samflokksmaður minn, mun nú taka til máls og nota þann tíma, sem ég á eftir. En ég vil aðeins taka það fram að lokum um skýrslu þá, sem hæstv. fjmrh. flutti hér, að hana verður að athuga mínar og færa til betra vegar, ef nokkuð á að vera hægt að hafa upp úr henni. Ef eitthvað er til í því, sem hann færði stj. til málsbóta, þá er sjálfsagt að viðurkenna það, en hinsvegar er jafnsjálfsagt að benda á það, sem miður fer.