04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

16. mál, útflutningsgjald

*Ólafur Thors:

Ég verð að lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum, sem þetta mál hefir fengið hjá hv. sjútvn.

Ég held, að ég hafi nokkuð góða aðstöðu til að skilja báða parta. Þegar þessi tollalækkun var fyrst til meðferðar hér á þingi, hafði ég tilhneigingu til að líta á málið eins og andstæðingar frv. gera nú. Ég áleit, að verð á þessari vöru ylti á því, að innlendu verksmiðjurnar yrðu reknar. Ég áleit, að ef Norðmenn gætu brotið hér niður þessa starfsemi, myndu þeir láta okkur endurgreiða sér margfalt það verð sem þeir urðu að greiða fyrir þessa vöru, meðan þeir voru að drepa hina innlendu starfsemi á þessu sviði.

Ég vil nú gefa þá viðurkenningu, að þessi kvíðbogi minn er ekki í burtu numinn. Ég verð að játa það, að ég hefi enga örugga vissu fyrir því, að framgangur þessa máls verði, þegar til lengdar lætur, sjómönnum og framleiðendum, sem við, er að frv. stöndum, berum fyrir brjósti, til hagsbóta. En hitt verð ég að segja, að eins og reynsla síðasta árs var, er ekki lengur hægt fyrir Alþingi að standa gegn kröfum hlutaðeigandi framleiðenda og sjómanna um það, að mega, eins og aðrir framleiðendur þessa lands, verða aðnjótandi þess hæsta verðs, sem fáanlegt er fyrir vöruna. Þetta mál snertir mjög hagsmuni þeirra manna, sem ég er umboðsmaður fyrir. Ég hefi varla hitt einn einasta mann í mínu kjördæmi, sem ekki er alveg ákveðinn í að standa að baki þeirri kröfu, sem í fyrra var borin fram af hv. þm. Borgf. og nú er borin fram af honum og hv. 3. landsk. og studd af allri sjútvn. Ég segi þess vegna það, að mín afstaða til málsins markast ekki af því, að ég sé kvíðalaus um afleiðingar þess, að rekstur hinna innlendu verksmiðja kynni að leggjast í rústir, en ég hefi ekki fundið frambærileg og sannfærandi rök gegn þeim mönnum, sem hér eiga hlut að málum. Með reynslu síðasta árs fyrir hugskotssjónum get ég ekki staðið gegn þessu frv. Ef ekki hefðu aðrir menn gerzt til þess að flytja þetta frv., hefði ég gert það sjálfur, en enganveginn af kaldranalegri hugsun til hinna innlendu manna, sem að þessu standa, þ. e. a. s. þeirra, sem eiga verksmiðjurnar, og þeirra, sem hafa atvinnu við þær, heldur af þeim ástæðum, sem ég hefi greint, að það er ekki hægt að standa gegn þessari kröfu.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en endurtaka ánægjuyfirlýsingu mína til sjútvn., og ekki sízt til þeirra manna í n., sem ekki vildu í fyrra aðhyllast þessa kröfu, en nú hafa látið að óskum þeirra sjávarútvegsmanna, sem sannast að segja standa svo höllum fæti, að full ástæða er fyrir þá að segja: „Við megum ekki við því í dag að borga iðgjöld framtíðarinnar. Við erum vissir um, að með því að afnema þennan hluta tollsins berum við hærra frá borði, hærra en ella mundi vera, og það verðum við að fá.“