06.04.1936
Sameinað þing: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1937

Ólafur Thors:

Fyrir hönd Sjálfstfl., sem er stærsti stjórnmálaflokkur Íslendinga og við síðustu alþingiskosningar hlaut fram að því jafnmikið kjörfylgi eins og báðir stjórnarflokkarnir til saman, og áreiðanlega hefir nú að baki sér mikið meira fylgi en stjórnarliðið, leyfi ég mér að bera fram þá kröfu, að ríkisstj. rjúfi þing þegar í stað að afgreiddum fjárlögum og láti fram fara nýjar kosningar.

Kröfu þessa rökstyð ég eigi eingöngu með því, að vilji sjálfstæðiskjósenda í landinu hefir verið fullkomlega að vettugi virtur frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum, heldur og með hinu að ríkisstj. hefir brugðizt nær öllum þeim fyrirheitum, sem hún gaf sínum eigin stuðningsmönnum fyrir kosningarnar.

En einkum og sérstaklega berum við sjálfstæðismenn fram þau rök, að það er skoðun okkar, að þjóðin sé nú orðin svo aðþrengd, að engar vonir liggi til að forða henni frá fjárhagslegu hruni og frelsisskerðingu, nema að snögglega sé horfið af þeirri braut, er á hefir verið gengið. og það er trúa okkar, að þessar staðreyndir séu orðnar nægilega mörgum ljósar til þess, að með nýjum kosningum mætti lánast að stöðva feigðargönguna og beina stjórnmálunum inn á réttar brautir.

Ég skal nú leyfa mér að færa fram ýms málsatriði kröfu þessari til stuðnings, en þess er að sjálfsögðu enginn kostur að rekja þá sögu til neinnar hlítar, heldur verður að nægja að stikla á því stærsta.

Í þeim málefnasamningi, sem stjórnarflokkarnir gerðu með sér að unnum hinum hæpna kosningasigri og byggður var á kosningaloforðum sósíalista í hinni svokölluðu „4 ára áætlun“, er lögð aðaláherzlan á afurðasöluna innanlands, fjármálin og skattamálin og loks að tryggja atvinnu handa öllum, og það voru loforðin um úrlausn þessara mála, sem færðu stjórnarflokkunum þingmeirihluta.

Um kjötsölumálið læt ég nægja að staðhæfa, að mjög mikill fjöldi þeirra manna, sem gerðu sér hagnaðarvonir af þeirri lagasetningu, hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum, og eru þeir margir sáróánægðir með framkvæmd laganna.

Mjólkurlögin ná yfir miklu minna svæði, en hafa einnig valdið hinni megnustu óánægju, eins og öllum er löngu kunnugt. Austanfjalls eru margir óánægðir, og mættu raunar allir kvarta, þegar þess er gætt, að sæmileg framkvæmd laganna myndi hafa fært einnig þeim miklu meiri feng í búið en raun ber vitni um. Hér vestan heiðar hafa bændur allir sem einn risið upp með einróma mótmælum, samanber hinn víðfræga Brúarlandsfund, gegn gerræði því, sem þeir telja sig beitta, og sannað með óyggjandi rökum, að hagur þeirra hefir verið fyrir borð borinn og þeir féflettir í pólitísku hagsmunaskyni fyrir stjórnarflokkana. Þeir krefjast að fá alla stjórn mjólkursölunnar í sínar hendur og munu aldrei linna látum, fyrr en landbrh., sem nú daufheyrist við þessum kröfum, lætur undan þeim.

Nú alveg nýverið hefir aðalfundur Kaupfélags Borgfirðinga tekið mjög kröftuglega undir þessar kröfur og samþ. með 16 samhljóða atkv. svohljóðandi yfirlýsingu:

„Aðalfundur Kaupfélags Borgfirðinga skorar á landbrh. og Alþingi að leggja kapp á það, að þær breytingar á mjólkurlögunum nái fram að ganga á Alþingi því. er nú situr, að mjólkurbúin á verðjöfnunarsvæði Rvíkur og Hafnarfjarðar hafi óskoraðan rétt til að kjósa stjórn, er hafi á hendi alla stjórn mjólkursamsölunnar og skiptingu markaðs á mjólkurvörum í Rvík og Hafnarfirði.“

Þannig hefir yfirgnæfandi meiri hl. allra hlutaðeigandi framleiðenda lýst fullkomnu vantrausti á framkvæmd þessarar löggjafar, og hitt má óhikað fullyrða, að ef austanmenn athuga málið ofan í kjölinn. munu einnig þeir bætast í hópinn og ekki láta það villa sér sýn, að í bili hefir heldur meira verið níðzt á vestanmönnum heldur en þeim, því sannleikurinn er sá, að það hefir verið níðzt á báðum aðiljum.

Við þetta þarf ég ekki öðru að bæta en því að taka orðrétt upp úr málefnasamningnum þá grein, er um þetta fjallar. Hún er svohljóðandi:

Að skipuleggja nú þegar með bráðabirgðalögum sölu landbúnaðarafurða innanlands og tryggja bændum viðunandi verð fyrir afurðir sinar. Sé lögð áherzla á að draga úr milliliða- og dreifingarkostnaði.“

Það er kaldhæðni örlaganna, að í sjálfum samningnum skuli standa „sé lögð áherzla á að draga úr milliliða- og dreifingarkostnaði“. því nú orðið veit hver maður, að bölvun þessa máls er einmitt sú, að í pólitísku hagsmunaskyni fyrir Alþfl. hefir verið lögð áherzla á að auka milliliða- og dreifingarkostnaðinn, og hafa bændur verið mergsognir til hagsmuna fyrir sósíalista.

Ég kem þá að skattamálunum og síðan að fjármálunum. Í kosningabaráttunni höfðu stjórnarflokkarnir gefið fyrirheit um að létta sköttunum af þjóðinni. Í 15. gr. 4 ára áætlunar Alþfl. er loforðið þannig orðað: „Að tollum verði létt af nauðsynjum“, en í 2. gr. málefnasamningsins er orðalagið þannig:

„Að afla ríkissjóði tekna þannig, að byrðin hvíli fyrst og fremst á háum tekjum og miklum eignum skattþegnanna.“

Þetta fyrirheit hefir nú stjórnin efnt þannig, að strax á fyrsta þinginu, haustþinginu 1934, voru lagðir nýir skattar á þjóðina, milli 2–3 millj. kr., og á síðasta þingi var enn bætt á þessa skatta, nokkru minni upphæð að vísu, en þó þannig, að heildarhækkunin er orðin milli 4–5 millj. kr. og vex þó enn og kemst jafnvel á 7 millj. kr., þegar tekið er tillit til hækkunar á áfengstollinum og áfengiságóðanum, sem á varð við afnám bannlaganna.

Það ræður nú að líkum, að stj. hefir ekki með öllu treyst sér að neita því, að hún hefir svikið þetta loforð sitt, en til lengstra laga hefir hún þó freistað allra undanbragða, og svo langt gekk hv. fjmrh. á þinginu í fyrra við umr. um þessi mál að hann hélt því fram, að hinir nýju skattar væru hvorki lagðir á neyzluvöru almennings eða notaþarfir fólksins í landinu, og vakti með því enn meiri hlátur en honum tókst að gera á haustþinginu 1934 út úr barnalegu hjali sínu um innilokun kaupgetunnar.

Það sannaðist auðvitað í umr. um þessi mál, að ráðh., neyddist til að játa, að mest af þessum sköttum væru einmitt lagðir á nauðsynjar, sem lofað hafði verið að létta sköttunum af, en þó var það eitt vígi, sem ráðh. fékkst aldrei til að yfirgefa, nefnilega sú staðhæfing, að hinn geysihái tekju- og eignarskattsauki, myndi eingöngu lenda á hinum efnameiri stéttum og snerti á engan hátt allan þurra manna, og frá þeirri staðhæfingu varð honum með engu móti þokað.

Sjálfstæðismenn sýndu þá skýrt og greinilega fram á, að afleiðing þess, að ríkissjóður hækkaði þannig bein gjöld á þeim, er meðal tekjur hefðu og þar umfram, hlyti að verða sú, að bæjar- og sveitarsjóðir yrðu að verulegu leyti sviptir þeim tekjum, sem þeir áður hefðu haft af útsvörum þessara sömu gjaldþegna, að af því leiddi óhjákvæmilega, að útvega yrði bæjar- og sveitarsjóðum nýja tekjustofna, en þá myndi ekki annars úrkosta en að leggja inn á þá braut að leggja vörugjald á nauðsynjar almennings og á framleiðsluvöruna, í því skyni að bæta upp tekjumissi bæjar- og sveitarsjóða af minnkandi útsvörum, eða m. ö. o. að einnig þessi skattur til ríkisins yfirfærðist allur á allan almenning.

Nú hafa örlögin hagað því svo, að aðili, sem ríkisstjórnin mun ekki komast undan að telja dómbæran, hefir nú staðfest öll þessi ummæli sjálfstæðismanna, því að strax að afloknu þingi skipaði ríkisstjórnin þriggja manna milliþinganefnd, til þess að gera uppástungur um nýja gjaldstofna bæjar- og sveitarfélaga. Í sjálfri þessari nefndarskipun og með hliðsjón af því verkefni, sem henni er falið, liggur nú náttúrlega óbein játning ríkisstjórnarinnar á staðhæfingum sjálfstæðismanna, en hitt er þó enn meinlegri dómur yfir fullyrðingum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, að þessi þriggja manna nefnd, sem að 2/3 hlutum er skipuð stjórnarliðum, ber nú öll fram tillögur um nýja tekjustofna handa bæjar- og sveitarsjóðum.

Þessir tekjustofnar byggjast að langsamlega mestu leyti á nýjum sköttum á neyzluvöru almennings og notaþarfir framleiðslunnar, þ. e. a. s. á þeim úrræðum, sem sjálfstæðismenn þegar í stað bentu á að óhjákvæmilegt yrði að grípa til sem beinnar afleiðingar af ásælni ríkisins á gjaldstofna þessara sjóða.

Með þessu frumv. er því fengin alveg ótvíræð játning stjórnarliða á því, að tekjuskatthækkunin, sem fjmrh. sagði, að ætti eingöngu að lenda á hinum efnameiri, er beint yfirfærð á almenning, og með því sönnuð öll ummæli sjálfstæðismanna og hrakið allt, sem ríkisstjórnin færði fram þeim til andmæla.

Það verður að vísu að viðurkenna, að ríkisstjórninni er nokkur vorkunn í þessum efnum. Svikin voru náttúrlega orðin nógu stórkostleg. jafnvel þótt það væri satt, að nokkur hluti þessara 4–5 millj. yrði innheimtur, án þess að seilzt væri í buddu fátæks almennings, sem býr við lélega afkomu og vaxandi örbyrgð og atvinnuleysi, svo ekki yrði skattlagður hver munnbiti þeirra, sem tæplega hafa í sig og á.

En eins og nú er komið, og eftir að stjórnin með skipun milliþinganefndarinnar og sjálf um till. n. er orðin ber að því, að þó hana að vísu skorti þrek til þess að hleypa fjárgræðgi sinni framan að févana almenningi, þá hefir hana þó ekki skort harðýðgi til þess að tína saman þessar 4–5 millj. eyri fyrir eyri úr buddu jafnt hinna fátæku sem bjargálnamannanna, — eftir að svo er komið, að allt þetta er orðið uppvíst, þá hefði ríkisstjórninni þó verið skömminni til skárra að ganga hreint til verks en bæta ekki blekkingum ofan á fjárránið.

Ég treysti mér ekki að neita því, að innanríkisstjórnarinnar og þingflokka hennar séu fleiri eða færri, sem trúa því, að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar sé rétt og hinar nýju skattaálögur þar af leiðandi réttmætar, en jafnvel þótt svo væri, verður ekki komizt hjá að viðurkenna, að skattaálögurnar eru svik við almenning, sem hefir fengið fyrirheit um það, að aflétt skyldi verða tollum af nauðsynjum.

Frá sjónarmiði þessara manna sem þannig eru haldnir fullkominni fjármálablindu, getur hugsazt, að nauðsynin helgi sjálf svikin, en það helgar þó engin nauðsyn þær blekkingar, sem ríkisstj. hefir beitt almenning.

Ríkisstjórnin hefir eigi að eins svikið, heldur hefir hún svikið með kossi, og fyrir það verður hún dæmd, og eigi að eins af þeim, sem svikin bitna þyngst á, þ. e. a. s. févana almenningi, heldur og af þeim stuðningsmönnum sínum á Alþingi, sem láta eigi flokksofstækið skyggja á dómgreindina og velsæmistilfinninguna.

Um gjaldeyrisástandið get ég verið fáorður og visað til þeirrar gagnrýni er ég bar fram við síðustu eldhúsdagsumræður. Allt, sem ég þá sagði, og fjmrh. reyndi að mæta fyrir, hefir nú sannazt orði til orðs. Breyting hefir þar engin á orðið önnur en sú, að útflutningur varð töluvert meiri og innflutningur minni tvo síðustu mánuði ársins 1935 heldur en sömu mánuði 1934, en afkoma þeirra mánaða var, eins og skýrt var tekið fram í ræðu minni, byggð á áætlunum, sem hagstofan hafði gefið upp.

En þrátt fyrir þennan óvænta og stórvægilega útflutning þessara mánaða, hefir afkoman orðið geigvænleg, þar eð telja má að skorti um 8–9 millj. upp á greiðslujöfnuð, og er þá upplýst orðið að á tveim valdaárum núverandi ríkisstjórnar hefir skuldaaukningin við útlönd orðið um 20 millj. kr., og það þrátt fyrir yfirlýsta stefnuskrá ríkisstj., að það sé „fyrsta boðorðið að jafna greiðsluhallann við útlönd“, og hreina og tvímælalausa heitstrenging núverandi fjmrh. að inna það skylduverk af hendi.

Allar þessar staðreyndir liggja nú fyrir tölulega sannaðar, og sannast sagna á maður erfitt með að átta sig á því stjórnmálalega siðferði, að sjalfur fjmrh. skyldi, í stað þess að taka afleiðingunum af hinum gífurlega ósigri, sem hann hefir beðið í viðureigninni við þá örðugleika, sem hann tók að sér að leysa, þ. e. a. s. að segja af sér embættinu, að hann skyldi þá bókstaflega miklast um yfir árangrinum og tala um þennan raunalega ósigur hans sjálfs með ungæðislegu yfirlæti.

Og það var talandi tímanna tákn, að sömu dagana, sem fjmrh. í fjárlagaræðu sinni við fyrstu umr. þessa máls var að hælast um yfir afrekunum, dundu úr öllum áttum tilkynningarnar yfir Íslendinga, að vegna vanskila út gjaldeyrisskorti væri öllu lánstrausti lokið.

Og innan um allt þetta oflof og raup hljómar svo hin alvarlega sannleikans rödd, sem segir frá því, að það er búið að halda þannig á þessum málum, að nú þykir ekki einu sinni öruggt, að bankarnir taki á sig ábyrgðina á því, að greitt verði andvirði allra nauðsynlegustu notaþarfa framleiðslunnar við sjávarsiðuna, þeirrar framleiðslu, sem þó stendur undir nær allri gjaldeyrisöflun til greiðslu á öllum aðkeyptum vörum þjóðarinnar.

Augljós afleiðing þessa er svo auðvitað sú, að raunverulegt gildi íslenzku krónunnar liggur undir skráðu gengi.

Fjármálastefna ríkisstj. er að öðru leyti mörkuð af annari grein málefnasamnings með þessum urðum:

„Færðar séu niður ónauðsynlegar fjárgreiðslur ríkissjóðs, alls sparnaðar gætt í rekstri ríkis- og opinberra stofnana.“

Um þetta fyrirheit get ég einnig verið fáurður. Á haustþinginu 1934 buðu sjálfstæðismenn fram alla samvinnu til efnda á þessu loforði. Stj. hafnaði þessari samvinnu. Sjálfstæðismenn báru þá fram upp á eindæmi tillögur um niðurfærslu á útgjöldunum, er nam milli 6-700 þús. króna. Þær voru allar felldar, og við það sat á því þingi.

Á haustþinginu í fyrra buðu sjálfstæðismenn enn fram samvinnu í þessum efnum. Hún var þá að nokkru leyti þegin, og sat fjvn. lengi yfir niðurfærslu fjárl. sem nam um 1 millj. kr., en meðan sjálfstæðismenn voru að streitast við þann niðurskurð, sátu stjórnarbroddarnir á leynifundum og voru að jafna misklíðir sín á milli með nýjum milljónasköttum, og endirinn varð sá, að í stað þess að fjárlögin lækkuðu um milljón krónur, eins og sjálfstæðismenn höfðu ætlazt til, þá hækkuðu þau um milljón krónur í meðferð Alþingis.

Og enn á ný hefir sama sagan endurtekið sig. eins og ég mun bráðlega víkja að. Sjálfstæðismenn hafa margsannað með óyggjandi rökum, að út úr fjármálaöngþveitinu er engin leið önnur en niðurskurður á útgjöldum ríkissjóðs.

En stj. hefir látið þau rök sem vind um eyrun þjóta, og þá fyrst og fremst af því, að henni er ljóst, að með því neyðist hún einmitt til að standa við kosningafyrirheitið að færa niður „ónauðsynlegar fjárgreiðslur ríkissjóðs“ og að „gæta sparnaðar í rekstri ríkis og opinberra stofnana“, en í þessum opinberu stofnunum eru einmitt aðalstjórnargæðingarnir, og sparnaður á „ónauðsynlegum fjárgreiðslum“ gengur þess vegna eðlilega fyrst og fremst út yfir bitlingahjörðina.

Ég kem þá að rekstrarafkomu sjálfs ríkissjóðsins á síðastliðnu ári og viðhorfinu í atvinnu- og fjármálalifi þjóðarinnar, sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni, er hann flutti við fyrri hluta þessarar umr.

Hæstv. ráðh. var ekki litið drýgindalegur á svipinn, þegar hann steig í stólinn, og það var engu líkara en hann hefði einhvern sérstakan og stórvægilegan fagnaðarboðskap að færa þjóðinni. Það verður þá líka að viðurkenna, að áður en ráðh. lauk ræðu sinni, kom að því sem hann og hans flokksbræður munu hafa glaðzt mest yfir. þ. e. a. s. því, að ráðh. telur að á árinu hafi orðið rekstrarafgangur á ríkisbúskapnum, sem nemur allt að hálfri milljón kr.

Það var þessi fagnaðarboðskapur, sem ætlaður var sem lárviðarkrans hins mikla fjármálaspekings. Það var þessi tekjuafgangur, sem þjóðinni var ætlað að stara á og væntanlega þá líka að nærast af, svo hún mætti gleyma öllum sínum þrengingum.

Já, er að furða þó að stj. og lið hennar fagni? Á hálfu öðru ári hafa þessir menn lagt á þjóðina allt að í millj. kr. nýja skatta, og auk þess hefir áfengisflóðið fleytt í ríkissjóðinn hálfri annari milljón kr. meir en nokkur hafði gert ráð fyrir, og nú stendur ráðh. hreykinn frammi fyrir allri þjóðinni yfir því, að hann hafi nokkur hundruð þúsund afgangs af öllum þessum blóðpeningum. og skal þó raunar ósagt látið, hvort sá spádómur ráðh. stenzt þegar öll kurl koma til grafar.

Það er nú auðvitað óþarfi að vera að bollaleggja um horfurnar, ef stj. hefði staðið við gefin loforð, en þó má svona til fróðleiks minna á það, að þegar stj. settist að völdum, þá lofaði hún að létta sköttunum af þjóðinni. Við skulum nú hugsa okkur, að hún hefði að vísu svikið þetta loforð, þannig að hún hefði engum sköttum létt af þjóðinni, en hinsvegar ekki í svo ríkum mæli sem raun hefir á orðið, sem sé að leggja 5 milljón kr. nýja skatta á þjóðina. Hvernig hefði nú fjárhagur ríkissjóðs verið kominn, ef stjórnin hefði látið sér nægja einföld svik í stað þeirra margföldu, sem hún hefir beitt?

Þá mundi hafa skort margar milljónir upp á jöfnuð á rekstrarreikningi ríkissjóðs, en í því ljósi ber að skoða afrek ráðh., því völdin fékk hann ekki til þess að skila tekjuhallalausum ríkisbúskap með því að leggja á millj. kr. nýja skatta á þjóðina. heldur í því trausti, að honum tækist þetta með því að lækka skattana, eins og hann sjálfur hafði lofað.

En sleppum þessari hlið málsins og lítum á hina hliðina, lítum á viðhorfið eins og það er og drögum með fáum dráttum mynd hinnar líðandi stundar.

Bændur eru nýbúnir að fá 11 millj. kr. kreppuhjálp. Þessi lán voru veitt 24 hundruð bændum. Nú á fyrsta gjalddaga kreppulánanna hafa þúsund bændur neyðzt til að standa í vanskilum um greiðslu á vöxtum og afborgunum þessara lána. og að óbreyttri löggjöf á þessu þingi, verður að selja á nauðungaruppboði þessar þúsund jarðir, er standa í veði fyrir lánunum.

Lánsupphæðin sýnir dálítið, hvernig komið er fjárhag bænda og vanskilin sýna betur en allar fullyrðingar, hvernig ástatt er um rekstrarafkomu bændastéttarinnar, sem sennilega er sú stétt þjóðfélagsins, sem allra mest verður að leggja á sig, allra minnst ber úr býtum og allra flest verður að neita sér um.

Þá er og nýtekinn til starfa kreppulánasjóður fyrir vélbátaútgerðina og kreppulánasjóður fyrir kaupstaði utan Reykjavíkur. Öllum er kunnugt um, að hin ríkasta nauðsyn er á kreppulánasjóði fyrir línuveiðar, og togara, og öllum mun veitast erfitt að benda þær stéttir þjóðfélagsins, sem reynast munu þess megnugar að taka á sig byrðar þeirra, sem nú eru sligaðir, og í viðbót bera þungann af framlagi til þessara stétta, sem áður hafa reynzt stoðir þjóðfélagsins.

Þegar svo er komið þegar framleiðslan til lands og sjávar almennt telst þurfa kreppuhjálpar og þegar nær allir kaupstaðir landsins hafa lent í vanskilum, og þegar þeir þjóðfélagsþegnar, sem eru aflögufærir, eru alger undantekning, þá virðist augljóst, að fyrr en varir skapast þörf fyrir nýja kreppulánasjóði, sem tækju að sér bankana í landinu og sjálfan ríkissjóðinn. Svona er ástandið, þegar hæstv. fjmrh. flytur ræðu sína og miklast af því, að hann hafi pínt út úr skattþegnunum 15769 þús. kr. í ríkissjóðinn og stillt sig um að eyða nema 15263 þús. kr.

Já, er að furða þó hann sé hreykinn?

En hvað halda menn, að hægt verði lengi að halda áfram á eyðslunnar braut. Hvað halda menn, að sú þjóð, sem fyrir 10 árum síðan tók til ríkisþarfa aðeins 9% af andvirði útfluttrar vöru, geti lengi þolað, að ríkissjóður taki 35 af öllu, sem inn kemur fyrir seldar framleiðsluvörur, og það í atvinnuárferði, sem er svo lélegt, að öll afkoma væri hæpin, enda þótt sköttum hefði verið aflétt í stað hinnar fáheyrðu og fávíslegu skattaplágu undanfarinna ára.

Og nú hefir ráðh. bætt nýju laufblaði í lárviðarkrans sinn, eins og skilst á fyrirvara sjálfstæðismanna við nál. fjvn.

Samkv. fjárlfrumv. eru tekjur ríkissjóðs á árinu 1937 áætlaðar 15,5 millj. kr., en útgjöld 200 þús. kr. hærri, eða alls 15,7 millj. Í meðferð fjvn. hækka útgjöldin um 193 þús., aðallega vegna aukinna verklegra framkvæmda, og er þá tekjuhalli um 400 þús. kr. En sé nú tekjuáætlunin leiðrétt eftir því, sem tekjur reyndust á árinu 1933, en þá var mjög lélegt atvinnuárferði og ríkistekjur þar af leiðandi hlutfallslega litlar, þá kemur í ljós, að tekjur verða 1,9 milljón hærri. Þessa 1,9 millj. vilja sjálfstæðismenn nota til að aflétta útflutningsgjaldinu af sjávarafurðum, sem er áætlað 650 þús., og viðskiptagjaldinu, sem samþ. var á síðasta Alþingi og áætlað var 750 þús., og loks að jafna tekjuhallann, sem nú er á fjárlögunum. Auk þess vilja sjálfstæðismenn ná samningum við stjórnarliðið um niðurskurð á útgjöldunum, svo auðið verði að aflétta fleiri sköttum, svo sem benzínskatti o. fl.

Ekkert af þessu vill ríkisstjórnin og lið hennar. Hún vill hafa þessar 15000 þús. til frjálsra afnota, svo hún geti haldið áfram að gefa á jötuna og þannig afstýrt harðindum og horfelli í bitlingahjörðinni.

Það má að vísu játa, að allt er í óvissu um ríkistekjur á næsta ári, en sé hugsað út frá því sjónarmiði, verður að taka þeim einu rökréttu afleiðingum, að fresta þingi og afgreiða ekki fjárlög fyrr en undir áramót.

Sé það ekki gert, þykir ástæðulaust að miða við verra atvinnuárferði heldur en var á síðastliðnu ári, m. a. af því, að ef sá voði á að verða á okkar vegi, hlyti gjaldþol skattþegnanna að verða þeim mun minna og nauðsyn skattléttis því ríkari. Batni hinsvegar afkoman, svo að gjaldþolið aukist, munn tekjur ríkissjóðs af gildandi skattstofnum stórvaxa, og það er ákaflega eftirtektarvert, að 16–17 millj. tekjur ríkissjóðs, miðast við hreint kreppuárferði, þegar um það eitt er barizt, að þjóðin hafi í sig og á með því að éta upp eigur sínar og það lánstraust, sem eftir er, en að hvenær sem árferði brytist, svo að þjóðarheildin í raun og veru vinni fyrir þörfum sínum, munu tekjur af gildandi skattstofnum verða nær 25 en 20 millj. eða jafnvel þar yfir.

Nei, stjórnin neitar enn sem fyrr allri samvinnu um sparnað og skattlétti.

Stjórnin veit þó, að ofan á allsherjar getuleysi framleiðenda til lands og sjávar, gjaldþröng kaupstaða og sveitarsjóða og þrengingar lánsstofnana í landinu, bætist nú aflaleysi um illan sjó, en hin voveiflegustu harðindi spenna hálft landið í heljargreipar. En ríkisstjórn Íslands lokar augunum, svo að sjáandi sjái hún eigi. Hún kæfir neyðaróp skattþegnanna í sínu eigin herópi:

Skatta — nýja skatta! Peninga — meiri peninga!

Hér skal ekkert um það fullyrt, hvort almenningur dæmir ennþá réttilega um þetta athæfi. Hitt er alveg áreiðanlega víst, að það kemur mjög fljótlega að því, að annaðhvort verður þjóðin að losa sig við slíka fjármálastjórn eða að fjármálastjórnin losar þjóðina við fjárforræði, og þá sennilega líka við stjórnmálafrelsi, því að svona athæfi, slík fjármálaafglöp, óhófseyðsla og skattaæði hlýtur að leiða út í alveg augljóst gjaldþrot einstaklinga, banka og ríkis.

Ég kem þá að sjálfri trúarjátningu „stjórnar hinna vinnandi stétta“. Hollustueiðurinn er tekinn upp í fyrsta boðorði 4 ára áætlunarinnar með þessum orðum:

„ að útrýma með öllu atvinnuleysi og afleiðingum kreppunnar.“

Um efndirnar spyr ég svo almenning í landinu og þó einkum og sérstaklega hinn stóra og sívaxandi hóp þeirra manna, sem „stjórn hinna vinnandi stétta“ hefir kastað út á kaldan klakann.

Ég viðurkenni að sjálfsögðu, að ekki ber að gefa stj. sök á öllu því atvinnuleysi, sem á er skollið og yfir mun dynja. Það er sjaldan ein báran stök, og hér bætist óáran ofan á óstjórn.

En þó að svo sé. er hitt víst, að meinið liggur dýpra, og rætur þess má rekja til kosningasigurs stjórnarflokkanna 1927 og óslitinnar misbeitingar valdsins nær alltaf síðan. Skulu nú sönnur færðar á þá staðhæfingu.

Frá því að Sjálfstfl. lét af völdum fyrir tæpum 9 árum, hafa framsóknarmenn og sósialistar lengst af borið ábyrgð á ríkisstj., en sósíalistar í raun og veru ráðið mestu um alla lagasetningu. Afleiðingarnar eru þær, að á sviði atvinnulífsins má heita, að athafnafrelsið sé afnumið. Af atvinnurekendum hefir verið tekinn allur umráðaréttur yfir sölu ýmsrar framleiðsluvöru, og andvirði útflutningsvörunnar hefir í mörg ár verið af þeim tekið með valdboði og við verðlag, sem að þeirra dómi liggur langt undir sannvirði. Þeir, sem lífsframfæri sitt hafa af verzlun og viðskiptum, eða af iðnaði, sem styðst við innflutning hráefna, eru einnig alveg ofurseldir boði og banni umboðsmanna ríkisvaldsins.

Það er rétt að viðurkenna, að margvíslegar þvingunarráðstafanir hafa þótt nauðsynlegar vegna hins nýja viðhorfs í viðskiptum við nágrannaþjóðirnar. En hins má heldur enginn ganga dulinn, að eins og þessu hefir verið hagað í framkvæmdinni, hlýtur það að leiða til þjóðarbölvunar.

Það kann aldrei góðri lukku að stýra, að þeir, sem langa reynslu hafa að baki sér í æfistarfi sínu, þurfi að lúta geðþótta og valdboði annara manna, sem valdir eru til forystu eftir pólitískum skoðunum þeirra og alveg án hliðsjónar af því, sem þó er fyrir mestu, þ. e. a. s. þekkingunni á viðfangsefninu.

Það liggur hverjum manni í augum uppi, að sérhver þjóðfélagsþegn, sem þarf að verja verulegum hluta af starfsdeginum til þess að glíma við vanþekkingu og jafnvel rangsleitnishneigð þeirra, sem valdhafarnir hafa falið yfirstjórn slíkra mála, sá þjóðfélagsþegn, hann skilar ekki þjóðfélaginu nema litlum hluta þeirrar orku, sem hann ella leggur af mörkum til úrlausnar hinna ýmsu verkefna, sem þjóðfélagsheildin þó öll á afkomu sína undir, að farsællega leysist.

Þessi orkumissir verður með hverjum deginum æ augljósari afleiðing allra þessara hafta og banna, sem nú ríkja á sviði viðskiptanna og atvinnulífsins, eins og líka afleiðingin kemur æ berar fram í versnandi afkomu heildarinnar.

Í þessa átt hefir þróunin öll gengið á undanförnum árum, og í rauninni hraðari skrefum heldur en allur þorrinn gerir sér ljóst, og það er nú svo komið hér á landi, að ríkisvaldið hefir meiri, og það svo miklu meiri völd yfir atvinnulífinu, heldur en í nokkru öðru ríki Evrópu, ef til vill að Rússlandi undanskildu.

Jafnframt þessari þróun, og henni alveg samhliða, hefir svo framtakshvöt einstaklingsins verið drepin niður með sívaxandi kröfum ríkisins á hendur einstaklingsins, enda er það kunnugra en frá þurfi að segja, að skattarnir eru nú orðnir svo þungir, að það ber að líta á þá sem eignarnám, sem getur komið að haldi, meðan einhver telst eiga eitthvað, en hitt er með öllu vonlaust, að hægt verði að standa undir þeim á venjulegan og eðlilegan hátt, þ. e. a. s. með afrakstri atvinnurekstrarins, og hefir núverandi ríkisstjórn gengið í þessum efnum svo langt fram úr öllu skynsamlegu viti, að óhætt mun að staðhæfa, að langsamlega flestum af stuðningsmönnum hennar, bæði utanþings og innan ofbjóði.

Slíkir skattar, lagðir á fátæka þjóð ofan á skattabyrði, sem þó var viðurkennt, að væri í rauninni ofvalin gjaldgetunni, eru einstakt skattmálabrjálæði.

Með hverjum mánuðinum, sem líður, með hverjum deginum sem líður, sligast fleiri og fleiri undan sköttunum, og samtímis vex og margfaldast hópur atvinnuleysingjanna, sem ríkisstjórnin hefir kastað á gaddinn með skattaæðinu, því það liggur í hlutarins eðli, að þegar ríkið heimtar of mikið af atvinnurekstrinum, þá verður líka of lítið eftir handa þeim, sem kaup taka af afrakstri atvinnurekstrarins.

Þannig er það skattaránsstefna ríkisstjórnarinnar, sem er stórvirkasti forgengill og brautryðjandi eymdarinnar, og þar er „ríkisstjórn hinna vinnandi stétta“, stjórnin, sem gaf fyrirheit um að tryggja vinnu handa öllum, sem er sjálf sýkill hinnar banvænu pestar, sem nú er að heltaka þjóðfélagið.

Atvinnuleysisbölinu verður aldrei bægt frá dyrum þjóðarinnar eða upprætt fyrr en þeir menn fara með völdin í landinu, sem í hugsun, orði og verki breyta gegn atvinnulífinu þveröfugt við stefnu núverandi valdhafa.

Íslenzka þjóðin á að líta um öxl og átta sig á, hvernig komið er og hvað veldur. Henni mun þá skiljast, að hér ríkir hið mesta ófremdarástand, sem að miklu leyti stafar af því, að öll stórvirkasta lagasetning síðari ára brýtur í raun og veru fullkomlega í bága við það þjóðskipulag sem stjórnarskrá ríkisins ráðgerir. Það er látið heita svo, að eignarrétturinn sé viðurkenndur og að borgararnir hafi athafnafrelsi á sviði atvinnulífsins. Í rauninni er eignarrétturinn ekkert nema hillingar, sem að löggjafarnir blása burtu, hvenær sem þeim þóknast, með skattafyrirmælum og margvíslegum kvöðum á þær eigur, sem eiga að vera friðhelgar, og athafnafrelsið til atvinnureksturs er einnig að mestu úr sögunni a. m. k. í nægilega ríkum mæli til þess að sérhver þjóðfélagsþegn veit, að hann verður að reikna með því, að atvinnurekstur hans verði á hverri stundu eyðilagður fyrir beinan tilverknað löggjafans.

Af þessu hlýtur að leiða og hefir leitt það tvennt, að gengið hafa til þurrðar efni þjóðarinnar og einstaklingarnir hafa misst framtakshvötina til sjálfstæðrar sjálfsbjargarviðleitni. Á þessari braut þýðir því ekki að ætla sér að ganga til lengdar.

Það verður að gera annað tveggja, að stýra þjóðfélaginu á ný inn á hinar eldri brautir, þar sem megináherzlan er lögð á að örva framtak einstaklingsins, til þess á þann hátt að skapa almenningi atvinnuskilyrði og a. m. k. einhvern vísi til þjóðarauðs, eða með ráðnum hug og vitandi vits að stiga sporið til enda og koma hér á nýju þjóðskipulagi, sem byggist á ríkiseign og ríkisrekstri.

Og það er að minnsta kosti mín persónulega skoðun að Íslendingar fái ekki langan umhugsunarfrest til þess að átta sig á, hvora leiðina þeir vilja velja, einkarekstur eða ríkisrekstur. blátt áfram af því, að ef valdhafarnir halda áfram að búa að einkaframtakinu eins og þeir hafa gert á undanförnum árum, þá kemur fljótlega að því, að það gefst upp, og þá sennilega með þeim afleiðingum, að allur einstaklingseignarréttur í þessu landi verður afnuminn.

Sjálfstæðismönnum verður þetta val ekkert erfitt, og mér er nær að halda, að margir þeirra manna, sem til þessa hafa látið ginnast til fylgis við stjórnarliða, og þá ekki sízt bændurnir, muni, þegar á hólminn kemur og baráttan stendur um sjálft þjóðskipulagið, vilja skipa sér í okkar fylkingu.

En þeir sem það vilja, verða að gera sér ljóst, að í þeim efnum má ekki sitja við góðan vilja og ásetning, þar verða orð og athafnir að fylgja. og mætti þá svo fara, að enn gæti tekizt að bjarga þjóðskipulaginu.

Ég held fyrir mitt leyti, að fullkominn ríkisrekstur væri skárri heldur en það ófremdarástand sem nú ríkir, en ég er þó miklu sannfærðari um hitt, að sú tilraun stendur stutt, og endar í algerðum missi bæði fjármuna og stjórnmálalegs frelsis.

Að þessu get ég náttúrlega fært rök, sem frá mínu sjónarmiði eru sterk, en engar óyggjandi sannanir, og verður þar hver þjóðfélagsþegn að fara eftir því, sem honum þykir sennilegast, hvort meira verði dregið í þjóðarbúið, með því að einstaklingurinn berjist sinni baráttu og nokkurnveginn sjálfráður athafna sinna og eigi sjálfur afrakstur verka sinna, eða með hinu, .ð allur sá rekstur, sem til þessa hefir verið borinn uppi af einstaklingsframtakinn, verði nú í höndum ríkisskipaðra nefnda og ráða, völdum eftir pólitískum lit, fjár- og valdagræðgi stjórnargæðinganna, en án hliðsjónar af þekkingu á viðfangsefninu, lífsreynslu, dugnaði og hagsýni. Svona er þá viðhorfið í þjóðfélaginu.

Ég veit ekkert um, hvað af þessu stjórnin skilur. Víst er um það, að hún læzt ekkert af því skilja og hefst ekkert að til varnaðar voðanum. Hins vegar er stjórnarliðið nú tekið að herjast fyrir völdunum með alveg samskonar vopnum og beitt var 1927, þegar þessir flokkar náðu völdunum í landinu, og tel ég rétt að víkja nokkru nánar að því.

Það hefir nú öðlast almenna viðurkenningu, að fjármálastjórn Jóns Þorlákssonar var með afbrigðum ráðdeildarsöm og hagsýn. Hann færði niður ríkisskuldirnar um framt að helming eða ofan í 11 millj. kr.

Hann létti sköttum af þjóðinni þegar í stað og lokið var greiðslu hinna ósamningsbundnu skulda, og samtímis þessu, þá réðst ríkissjóður á stjórnarárum hans og Magnúsar Guðmundssonan í meiri verklegar framkvæmdir en nokkur dæmi voru til hér á landi fyrir þann tíma.

Í kosningabaráttunni 7927 var þessi fjármálastjórn dæmd niður fyrir allar hellur, þjóðinni talin trú um að stefnt væri í beinan voða, svo að framundan væri fullkomið hrun og ánauð, nema þegar væri kippt í taumana, og munu margir enn minnast þessara fullyrðinga, er blaðið Tíminn þá flutti:

„Hve lengi á að taka lán á lán ofan erlendis? Hvað verður um frelsi og fullveldi þeirrar þjóðar, sem erlendir lánardrottnar geta hneppt í varanlega fjárhagsfjötra?

Framsókn verst skuldum og veit, að skuldirnar við útlönd eru þrælsband á landið og þjóðina.“

Þjóðin trúði þessu, og hún fékk þeim völdin í hendur, sem blekkt höfðu hana og lofuðu gulli og grænum skógum. Nú veit þjóðin að öll þau loforð eru svikin.

Hinir nýju valdhafar áttu ársæld að fagna og meiri ríkistekjum en dæmi voru til, en í stað þess að halda áfra m að greiða skuldirnar, tóku þeir lán á lán ofan, eyddu öll í fullkomnu fyrirhyggjuleysi, og tókst að koma í lóg 76 millj. kr. á 4 árum. og með því að nær tvöfalda þá eyðslu, er þeir áður höfðu fordæmt hjá Jóni Þorlákssyni.

Nú er þess vegna ekki lengur hægt að vega með þessunt eiturvopnum, og nú eru því ný upp tekin.

Eins og öllum er kunnugt, steðja nú að íslenzku þjóðinni hinar mestu þrengingar vegna þess, að haftastefna sú, sem að Framsfl. hefir barizt fyrir hér á landi, hefir rutt sér til rúms erlendis með þeim afleiðingum, að markaður fyrir framleiðsluvörur Íslendinga þrengist æ meir og meir, og einkum þó í Suðurlöndum, en þar hefir aðalframleiðsluvaran, saltfiskurinn, verið seldur.

Það liggur nú í hlutarins eðli, að sérhverjum ábyrgum stjórnmálamanni ber að svara þessu nýja viðhorfi með einlægri viðleitni til nýrra úrræða, til þess á þann hátt að freista þess að afstýra voðanum.

En enn sem fyrri daginn lætur stjórnin og lið hennar niður falla baráttuna fyrir lífi og afkomu þjóðarinnar í því skyni að reyna að herja á andstæðingana, því að enn sem komið er a. m. k. virðist öll viðleitni hníga að því að sverta andstæðingana og fegra sjálfa sig með hverskonar skrumi.

Á fáum áratugum fjórfölduðu Íslendingar fiskframleiðsluna og ruddu henni jafnóðum braut á nýjum mörkuðum, og alltaf með því að setjast að þeim eldinum, sem bezt brann, þ. e. a. s. selja framleiðsluaukana á verðhæsta markaðinum.

Þegar þess nú er gætt, að um þessa markaði var barizt við margfalt ríkari og öflugri þjóðir, þá er það sannast sagna undravert, hve farsællega það vandaverk hefir tekizt.

En nú, þegar innilokunarstefna stjórnarliðsins hefir sigrað í viðskiptalöndunum, og saltfiskmarkaðurinn af þeim ástæðum hrynur, þá er ráðizt á þá, sem höfðu barizt til sigurs í þessum löndum, fyrir fyrirhyggjuleysi og úrræðaleysi, að þeir skyldu ekki hafa opnað nýja markaði fyrir nýjar tegundir af framleiðsluvörum!!

Það má nú vafalaust treysta því, að þegar ljóðin fær tíma til að átta sig á þessum málum, þá skilst henni, að fátæk þjóð eins og Íslendingar verður auðvitað á hverjum tíma að haga framleiðslu sinni þannig, að afkoman verði sem arðvænlegust, og það er þess vegna ekkert vit í að hallmæla mönnum fyrir að hafa ekki lagt út á þá braut að verka t. d. harðfisk, meðan hægt var að selja allan fiskinn sem saltfisk, blátt áfram vegna þess að nær undantekningarlaust sannar reynslan, að meira verðmæti fæst fyrir framleiðsluvöruna með að verka fiskinn í saltfisk en harðfisk.

En látum þetta liggja milli hluta og athugum, hvernig aðstaðan að öðru leyti er til að ráðast á þá, sem stjórnað hafa fiskframleiðslunni og fisksölunni á undanförnum árum.

Í því sambandi verða menn að hafa hugfast, að ef breyta á um frá saltfiskframleiðslunni, er aðallega um tvær leiðir að ræða, aðra, sem liggur niður á við frá saltfiskinum, nefnilega harðfiskinn, og hina, sem liggur upp á við frá saltfiskinum, sem sé frysta fiskinn.

Báðar þessar aðferðir er nú byrjað að framkvæma hér á landi. og það er þessi vísir til framkvæmda, sem að raupgjarnir stjórnarliðar miklast af og nota til þess tvenns í senn, að svívirða sjálfstæðismenn, en hylla og lyfta til skýjanna þeim aðila, sem nú að lögum á að hafa forgöngu í þessum málum, þ. e. a. s. fiskimálanefnd, og eru öll þau skrif með þeim hætti, að ætla mætti, að engum manni hefði dottið nein úrræði í hug fyrr heldur en þessi alvitra nefnd settist á rökstólana og opnaði þjóðinni hlið himnaríkis svo að hún mætti koma í hina nýju paradís velsældar og velfarnaðar undir öruggri forystu Héðins Valdimarssonar.

Það eru nú liðin meira en 4 ár síðan ég skrifaði alllanga blaðagrein um þessi málefni, þar sem ég m. a. komst þannig að orði:

„Það er engum vafa undirorpið, að Íslendingum ber að fylgjast vel með og athuga gaumgæfilega sérhverja, nýjung á sviði hraðfrystingarinnar, og það er öldungis víst, að í hinum nýju hraðfrystiaðferðum liggja nýir möguleikar fyrir nýja blómaöld á sviði fiskiveiðanna. Það er fremur vissa en spá, að þessi aðferð mun reynast þess megnug að brúa fjarlægðina á milli hinna auðugustu fiskimiða heimsins hér við strendur landsins og allra þeirra milljóna í umheiminum, sem skortir fisk, en hafa mega kaupgetu til þess að veita sér þessa ágætu fæðutegund.“

Á undan mér höfðu aðrir hugsað um þetta mál og gert allvíðtækar tilraunir til framkvæmda, og síðan hafa þessi mál alltaf öðru hvoru verið rædd í blöðum sjálfstæðismanna. Á landsfundi sjálfstæðismanna, sem haldinn var í aprílmánuði 1934, voru fiskimálin einnig ýtarlega rædd og um þau gerðar margvíslegar samþykktir, bæði um hraðfrystingu og herðingu. og voru þær allar birtar í blöðum flokksins.

Í október þetta sama ár lögðu svo sjálfstæðismenn fram frumv. sitt um fiskiráð, en því fylgdi ýtarleg grg. um nauðsyn þess að taka upp hraðfrystiaðferðina og harðfiskinn ásamt öruggari sókn til nýrra markaðsleita í stað hinna brestandi beztu saltfiskmarkaða, jafnvel þó á lélegri markaði yrði að sækja.

Um sama leyti gaf Sölusamband ísl. fiskframleiðenda út ýtarlega skýrslu um fulltrúafund, sem haldinn var í félaginu, og var í þeirri skýrslu gerð nákvæm grein fyrir fisksölunni, ásamt ýmsum till. til að ráða bót á vandkvæðunum, og hnigu þær mjög í sömu átt og till. sjálfstæðismanna á þingi.

Út úr þessu öllu var svo sett löggjöf um fiskimálanefnd, og voru þar með teknar upp fornar og nýjar hugmyndir sjálfstæðismanna um breyttar og bættar aðferðir í framleiðslu og sölu sjávarafurða, hugmyndir, sem sumpart höfðu verið á döfinni í hálfan áratug, eins og hraðfrystingin, en sumpart voru neyðarúrræði, eins og herðingin.

Fiskimáianefnd hefir því haft það hlutskipti að framkvæma hugmyndir sjálfstæðismanna, og sú gagnrýni, sem n. sætir, er því að sjálfsögðu ekki sprottin af neinni andúð gegn sjálfu verkefninu, sem hún er að fást við, heldur eingöngu út af því, hve frábærilega léleg forustan hefir reynzt í þessu allra mesta nauðsynjamáli þjóðarinnar.

Það er eftirtektarvert, hvernig n. hefir hegðað sér. Hver skrumauglýsingin hefir rekið aðra, og stundum varla mátt á milli sjá, hvort stjórnarblaðanna hafði betur í þeirri starfsemi.

Nú átti þjóðin ekki að þurfa að kvíða neinu, nú voru menn hins nýja tíma seztir að völdum og nú blasti við ný voröld, ný viðreisn sjávarútvegsins undir öruggri forystu hinna ötulu og ráðdeildarsfimu fyrirhyggjumanna.

Sjálfur lét formaðurinn hafa eftir sér ýmsar fregnir, sem þó smátt og smátt vöktu athygli fyrir það, að þær voru sjaldnast um afrek, sem búið var að vinna, heldur afrek, sem hann hafði í hyggju að vinna.

Þannig hét hann því að láta herða á síðastliðnu ári 2000 smálestir af fiski og lét boðbera sína færa þjóðinni þær fregnir, að senda ætti 20000 smálestir af frystum fiski til Póllands.

Úr þessu varð nú ekki meir en 147 smálestir af harðfiski, og 200 í stað 20000 smálestir af frystum fiski, og fór salan á frysta fiskinum þannig úr hendi, að langfarsælast hefði verið, að fiskimálanefnd hefði borið gæfu til að láta losa skipið og henda fiskinum í sjóinn strax og það kom hér út fyrir hafnarmynnið.

Það mætti e. t. v. afsaka þessi axarsköft n., ei hún hefði margt annað sér til ágætis unnið, og þetta tvennt, harðfiskurinn og frysti fiskurinn, hefði verið aukaatriði í verkahring hennar. En því er ekki til að dreifa. Fiskimálanefnd hefir engin störf, sem heitið getur, haft með höndum.

Fiskimálanefnd hefir þess vegna misþyrmt hugmynd sjálfstæðismanna, ýmist með skorti á framtaki eða hneykslanlegum mistökum, sem auðvitað stafa af þekkingarleysi, eins og framangreind dæmi sýna.

En af öllum syndum þessarar n. er þó sú ótalin, sem er langstórvægilegust og örlagaríkust, en það er hin hneykslanlega og vítaverða framkoma n. í sambandi við nýja markaðsmöguleika fyrir frystan fisk, sem fisksölusambandið var búið að opna í Norður-Ameríku, og sölu og afhendingu þeirra 200 tonna af frystum fiski, sem vélskipið „Steady“ nýlega hefir losað í New York.

Er sú saga öll svo ótrúleg og svo fullkomið hneykslunarefni, að þó fiskimálanefnd hefði allt annað vel gert, þá hefði hún samt með slíkri framkomu unnið sér til óhelgis.

Verður að svo stöddu eigi um sagt, hvað af hlýzt, en það er ekki ofmælt, þó sagt sé, að sterkar líkur benda til, að fyrir hroka og ofmetnað eins manns, Héðins Valdimarssonar, og kraftlaust dáðleysi annars manns, Haralds Guðmundssonar, hafi nú allmikið dregið úr réttmætum vonum manna um skjótan ávöxt af sölu hraðfrysts fisks í Norður-Ameríku.

Ég hefi nú sannað, að þeir menn, sem áður höfðu forystuna um framleiðsluauka við sjávarsíðuna og sölu sjávarafurðanna, hafa leyst hið vandasama hlutverk sitt mjög vel af hendi. Árásirnar á þá eru því ómaklegar.

Ég hefi sannað, að fiskimálanefndinni var ekkert hlutverk ætlað annað en að framkvæma þær till., sem þessir menn höfðu gert og sumpart byrjað sjálfir að framkvæma, og ég hafi sannað að fiskimálanefndinni hefir farizt það svo herfilega úr hendi, að hún hefir jafnvel brugðizt trausti þeirra manna, sem nær engar vonir gerðu sér um afrek hennar. —

Lofið um fiskimálanefnd er því ekkert annað en skrumgyllingar, óviðfelldið af því það er óverðskuldað, en vítavert vegna þess, að á bak við það liggur tilgangur sem þjóðinni stafar voði af.

Af alveg sama toga er spunnið það frumvarp, sem jafnaðarmenn flytja um nýbyggingar og ríkisútgerð margra togara í því skyni að bæta úr aðsteðjandi atvinnuleysi.

Flm. vita þó, að Íslendingar, sem til skamms tíma seldu 35 þús. smálestir fiskjar á Spáni, eru nú búnir að missa þann markað að öllu eða langsamlega mestu leyti. Ítalíumarkaðurinn hefir færzt úr 23 þús. smálestum niður í 8 þús. og Portúgalsmarkaðurinn er í yfirvofandi voða, þar sem m. a. er upplýst, að norskir fiskútflytjendur njóta nú beins styrks úr ríkisjóði til að keppa um verðlag á þeim markaði við Íslendinga.

Það er því engin von til, að hægt verði að selja meira en sem svarar rúmum helming af meðal ársframleiðslu þess skipastóls, sem nú er gerður hér út á veiðar, og þess vegna alveg augljós fásinna að ætla að bæta úr atvinnuleysinu með aukinni útgerð.

Vil ég hér með skora á þann mann, sem mest hefir um þetta talað og mestar gyllingar í frammi haft, formann Sjómannafélags Reykjavíkur, Sigurjón Á. Ólafsson alþm., að standa fyrir máli sínu við þessar umr. í allra áheyrn.

Verði hann ekki við þeim tilmælum, mun verða litið svo á að hann telji málstaðinn hæpinn.

Ég hefi þá rakið feril ríkisstjórnarinnar og brugðið upp mynd af högum þjóðarinnar eftir nær 9 ára óslitinn valdaferil stjórnarflokkanna, og jafnframt varpað ljósi yfir vopnaburðinn.

Ég hefi sannað, að stj. hefir gersamlega brugðizt fyrirheitum sínum og með því og öðru fært vá að dyrum þjóðarinnar, og ég hefi fært rök að því að blekkingarnar, sem nú er beitt, eru fyrir það skaðlegri en hinar fyrri, er í frammi voru hafðar 1927 að í þetta skipti eru það afkomuskilyrði þjóðarinnar, sem barizt er um á hinum mestu neyðarinnar tímum.

Ég veit, að þess verður að vísu ekki langt að bíða, að staðreyndirnar tali sínu máli og opni augu fólksins fyrir því, að árásirnar á forystu sjálfstæðismanna í atvinnulífinu eru jafn ósannar og níðið um fjármálastjórn Jóns Þorlákssonar. og að skrumið um menn hins nýja tíma, afrek þeirra og fyrirheit í þessum efnum eru sömu blekkingarnar og sparnaðarloforðin, sem gefin voru 1927.

En ég treysti því, að þjóðin varist nú vítin og krefjist ekki að þessu sinni að fá að þreifa á naglaförunum, að öðlast vizkuna fyrir aðgerðir eymdarinnar. Ég treysti þessu og vona þetta vegna framtíðar íslenzku þjóðarinnar, og í því trausti og með því að ég tel alveg ótvírætt, að sú þjóð, sem í voða er stödd og hefir verið vonsvikin at valdhöfunum, eigi rétt á því að fá með nýjum dómi að kveða á um, hverri forystu hún vill hlíta á örlagastundinni, vil ég, hr. forseti, endurtaka þá kröfu, er ég bar fram í upphafi máis míns.

Fyrir hönd Sjálfstfl., sem er stærsti stjórnmálaflokkur Íslendinga og við síðustu Alþingiskosningar hlaut framt að því jafnmikið kjörfylgi eins og báðir stjórnarflokkarnir til samans og áreiðanlega hefir nú að baki sér mikið meira fylgi en stjórnarliðið. leyfi ég mér að bera fram þá kröfu, að ríkisstjórnin rjúfi þing þegar í stað að afgreiddum fjárlögum og láti fram fara nýjar kosningar.

Kröfu þessa rökstyð ég eigi eingöngu með því, að vilji sjálfstæðiskjósenda í landinu hefir verið fullkomlega að vettugi virtur frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum, heldur og með hinu, að ríkisstjórnin hefir brugðizt nær öllum þeim fyrirheitum, sem hún gaf sínum eigin stuðningsmönnum fyrir kosningarnar. En einkum og sérstaklega berum við sjálfstæðismenn fram þau rök, að það er skoðun okkar, að þjóðin sé nú orðin svo aðþrengd, að engar vonir liggi til að forða henni frá fjárhagslegu hruni og frelsisskerðingu, nema snögglega sé horfið af þeirri braut, er á hefir verið gengið, og það er trú okkar, að þessar staðreyndir sé orðnar nægilega mörgum ljósar til þess, að með nýjum kosningum mætti lánast að stöðva feigðargönguna og snúa stjórnmálunum inn á réttar brautir.