10.03.1936
Efri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

50. mál, eftirlit með útlendingum

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Frá mínu sjónarmiði eru sumar af þessum brtt. leiðréttingar, eins og hv. 1. þm. Skagf. tók fram, t. d. brtt. við 6. og 7. gr. frv., sem setja „framfærslustyrk“ í stað „fátækrastyrks“ og „framfærslustyrksþurfi“ í stað „sveitarstyrksþurfi“; það er vitanlega sjálfsögð breyt.; sama er að segja um brtt. við 12. gr., að í stað orðsins „samkvæmt“ komi „á“. En að öðru leyti virðist mér því miður, að brtt. hv. n. séu í höfuðatriðum til hins verra. Þetta frv. er sniðið eftir lögum, sem gilda á Norðurlöndum í þessum efnum, og er þar fengin nokkur reynsla í eftirliti með útlendingum, og einmitt það atriði, sem hv. frsm. minntist á og er í 2. gr. þessa frv., er verulegt atriði í lögunum; brtt. hv. n. við þessa gr. hljóðar þannig, að útlendingum, sem koma hingað til lands, sé óheimilt að fara í land til dvalar nema þeir hafi skilríki, sem sýni á fullnægjandi hátt, hverjir þeir eru. Þessa breyt. tel ég alls ekki til bóta, heldur þvert á móti. Það er beinlínis til þess ætlazt með þessum lögum, að hér eftir verði heimtað af útlendingum, sem hingað koma, að þeir hafi einmitt vegabréf, því að önnur skilríki heldur en vegabréf geta mjög sjaldan fullnægt á sama hátt og vegabréfin. Vegabréf, sem útlendingar hafa með sér, eru ein fullkomin skilríki fyrir því, að hlutaðeigandi útlendingur sé ekki strokumaður eða önnur sú tegund af mönnum í sínu heimalandi, að honum sé yfirleitt ekki veitt vegabréf, og það er mjög stórt atriði. Við vitum það nú af þeim skýrslum, sem hér eru til um útlendinga, að það hefir komið nokkuð oft fyrir, að hingað hafa komið menn, sem hafa ekki fengið vegabréf í heimalandi sínu, og dvalið hér langdvölum, og eru sumir búsettir hér enn. Að sum ríki hafi hætt við að nota vegabréf, kann að styðjast við einhver rök, en ég verð að viðurkenna, að ég þekki þess ekki dæmi, nema ef vera kynni á Norðurlöndum, en þar er gerður sérstakur samningur, sem þessi lög mundu vitanlega ekki breyta á neinn hátt, um ferðir milli Norðurlanda, þannig að menn þurfa ekki önnur skilríki en svokölluð ferðaspjöld, sem eru látin nægja. Ég held, að við eigum með tilliti til þess, að þetta frv. er samið á sama grundvelli og nýjustu lög um þetta efni hjá Norðmönnum, að koma því hiklaust á hjá okkur, að heimtuð verði vegabréf af þeim útlendingum, sem hingað koma, því að það er eitt af því, sem menn eru hissa á, þegar þeir koma hingað til lands, að það skuli ekki vera heimtað af þeim vegabréf. Þótt maður sýni skírteini fyrir því, hver hann er, eins og tekið er fram í brtt., þá er það allt annað en það, sem ætlazt er til í þessu upphaflega frv., og ég segi fyrir mig, að ég vil eindregið mælast til þess við þessa hv. þd., að hún fallist á það, að ákvæðið um vegabréf í þessu frv., en ekki skilríki eins og skírnarvottorð eða bílskírteini, verði látið haldast. Það er aðaltilgangur þessa lagafrv.

Ég sé ekki, að 2. brtt. hv. n., við 3. gr. frv., skipti neinu verulegu máli, en svo kem ég að 3. brtt. Mér sýnist hún vera meinlaus, en hinsvegar er hún alveg þýðingarlaus af þeirri ástæðu, að samkv. ákvæðum 5. gr. getur útlendingur ekki flutzt milli lögsagnarumdæma öðruvísi en með því að tilkynna lögreglustjóra bæði, hvaðan hlutaðeigandi maður kemur og hvert hann fer. Þetta er í samræmi við þær reglur, sem gilda bæði í Noregi og annarsstaðar um þetta efni. Það verður að tilkynna lögreglustjóra, ef maðurinn ætlar úr landi eða á milli lögsagnarumdæma. Á þann hátt er hægt að fylgjast með manninum, enda er það tekið fram í 5. gr., hvernig fer um þann mann sem ætlar sér að setjast hér að. Í samræmi við þetta stendur í 12. gr., að brot gegn ákvæðum 2. gr. varði sektum eða fangelsi, ef miklar séu sakir, einkum ef menn skjóta sér undan lögmæltu eftirliti, þegar þeir stíga á land. Það er í samræmi við aðaluppistöðu frv., að refsivert sé að skjóta sér í land án þess að hafa vegabréf, og reyna á þann hátt að komast undan eftirliti, sem ætlazt er til, að haft verði með útlendingum samkv. þessu frv., og sem vantar enn í þessu landi. Þess vegna er það einkum álitið refsivert, ef menn brjóta gegn þessu meginatriði laganna. Þetta ákvæði tekur þó ekki til þess, ef menn stíga á land hérna á sama hátt og maður stígur t. d. á land í Englandi og dvelur þar aðeins stutta stund; menn fá að vísu ekki að stíga þar í land, nema þeir hafi þar til gerð skírteini frá tolleftirlitinu, sem afhenda þarf aftur, þegar farið er um borð. Hér er ekki átt við slíkt tilfelli, því að samkv. 5. gr. gildir þetta ákvæði aðeins um þá, sem ætla að hafa hér aðsetur, en það á ekki við þá, sem koma aðeins við hér á landi, eins og t. d. farþega, sem koma með skemmtiferðaskipunum hingað á sumrin. Ég vil því vekja athygli hv. þd. á því, að með þessari brtt. við 2. gr. er í raun og veru breytt þeim tilgangi, sem bak við frv. liggur; hv. d. þarf því að taka afstöðu til þess, hvort hún vill, að dregið verði verulega úr tilgangi þessarar löggjafar um eftirlit með útlendingum með því að heimta einhver skilríki í staðinn fyrir venjuleg vegabréf.