25.02.1936
Neðri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

27. mál, vinnumiðlun

*Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þetta litla frv. þarf ekki mikilla útskýringa við. Grg. frv., þó ekki sé löng, skýrir, hver er tilgangur þess, sem er sá, að vinnumiðlunarskrifstofurnar geti haft sem bezt gögn við höndina til þess að geta gefið upp sem ábyggilegastar upplýsingar um atvinnuháttu og atvinnuleysi verkamanna, sem þangað leita. Það hefir verið nokkur skortur á því, að nægileg gögn væru fyrir hendi, sérstaklega á vinnumiðlunarskrifstofunni hér í bænum, til þessara hluta. Og það er tilætlunin með þessu frv. að bæta úr því þar sem það er lagt til, að atvinnurekendur, sem hafa með höndum fastan atvinnurekstur með aðkeyptu vinnuafli verkamanna, láti vinnumiðlunarskrifstofunum í té afrit af kaupgjaldsskrám sínum vikulega. Með þessu móti mundu vinnumiðlunarskrifstofurnar geta fengið allgott yfirlit yfir vinnu verkamanna. Hinsvegar er það tiltölulega fyrirhafnarlítið og kostnaðarlítið fyrir atvinnurekendur að láta slík afrit af höndum, því víðast hvar hér í bænum mun það vera svo, að þessar kaupgjaldsskrár eru vélritaðar á þar til gerð eyðublöð, og er það þá lítil fyrirhöfn að bæta við einu afriti, sem síðar sendist vinnumiðlunarskrifstofunni. Mér er og kunnugt um það, að a. m. k. sumir atvinnurekendur hér í bæ, sem eru í vinnuveitendafélagi Íslands, munu senda skrifstofu þess slíkt afrit af kaupgjaldsskrám sínum, og ætti þá að vera lítil aukin fyrirhöfn, þó bætt sé við einu afriti til þess að senda vinnumiðlunarskrifstofunni til þess að vinna úr. Ég veit, að þetta mundi verða nokkur aukin vinna hjá vinnumiðlunarskrifstofunum, að vinna úr þessum skrám, en til þess eru þær stofnaðar, að þær geti gefið sem nánastar upplýsingar um þessi efni. Hér í Rvík er skráning atvinnulausra manna hagað þannig á vinnumiðlunarskrifstofunni, að menn eru skráðir þar eftir því, sem þeir gefa sig fram og gefa upplýsingar um. Skrifstofan hefir ekki annað á að byggja en upplýsingar verkamannanna sjálfra og getur ekki á annan hátt fengið fyllri upplýsingar. Ef verkamenn koma ekki aftur innan viku til þess að láta skrá sig atvinnulausa áfram, þá eru þeir strikaðir út af atvinnuleysisskrá. Það mundi því gera skráninguna auðveldari og réttari, ef þessar kaupgjaldsskrár eru við höndina til þess að vinna úr. Og ég ætla, að það mundi vera allmikill fengur fyrir bæjarstjórn Rvíkur, sem hefir með höndum þessi mál, hvað snertir atvinnubótavinnu, að eiga það nokkurn veginn víst af svo fullkomnum gögnum sem hægt er að fá, að skráning atvinnulausra manna væri rétt og ábyggileg. — Framkvæmdarstjóri vinnumiðlunarskrifstofunnar hér í bænum hefir eindregið óskað eftir því, að þetta væri gert.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en legg til, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn.