29.02.1936
Neðri deild: 12. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

49. mál, sala á prestsmötu

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi. Það var upphaflega borið fram í nokkuð annari mynd, en var í meðförum n. breytt í svipað horf eins og það nú er í. Okkur virðist sú breyting á verði prestsmötu, sem gerð er með því að kapitalisera hana með 8% í staðinn fyrir 5%, nokkuð svipuð því, sem við hugsuðum okkur upphaflega með frv. í fyrra, en með því þetta er einfaldara og minni röskun á eldri lagaákvæðum, varð samkomulag um að breyta frv. í það horf. Fyrir eitthvert óskiljanlegt athugunarleysi hjá okkur í n. dagaði málið upp í fyrra, en nú flytur n. það eins og hún hafði gengið frá því.

Einnig gerðum við því breyt. að láta verðlækkunina á prestsmötukvöðinni ná til þeirra, sem keypt hafa prestsmötu á síðustu árum og fengið gjaldfrest samkvæmt ákvæðum eldri laga, sem mun hafa verið 10 ára afborganir. Er ætlazt til, að sá hluti prestsmötunnar, sem er ógreiddur komi undir ákvæði þessara l. og lækki þannig um 3/5 hluta. Þetta verð á prestsmötunni, sem ákveðið er í frv., er miðað við það verð, sem nú er á kúgildunum, sem prestsmatan er reiknuð af, og þannig í fullu samræmi við verðlagið í landinu. Vænti ég, að hv. d. taki máli þessu vel og að það fái skjóta afgreiðslu.