06.04.1936
Neðri deild: 44. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

102. mál, alþýðutryggingar

*Hannes Jónsson:

Eftir því, sem fram hefir komið, m. a. hjá einum nm., eru einstaka menn búnir að ráðstafa þessu fé nú þegar, er þeir áttu von á að fá úr lífeyrissjóði, og kom fram frá honum ósk um, að þeir fengju það fé greitt. Nú getur vel verið, að fleiri séu búnir að ráðstafa þessu fé en þeir, sem þegar eru búnir að senda umsókn, og mér finnst, að það hljóti að vera sameiginleg krafa, að öllum þessum mönnum verði greitt sitt. Mér finnst satt að segja einkennilegt, að eina leiðin, sem ríkisstjórnin finnur til að bæta úr göllum, sem hefði mátt sjá fyrir fram, skuli vera þessi að koma með brtt. við 1. þegar á næsta þingi; mér finnst það vera dálítið hjákátlegt.

Má segja, að stjórnin sé varla búin að hneppa upp um sig, þegar aftur þarf að bregða brókunum, og má hún segja við þingið, eins og karlinn við kerlinguna, að koma nú og hirða klessuna.

Mér finnst ólykt af öllu þessu atferli.