06.04.1936
Efri deild: 44. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

102. mál, alþýðutryggingar

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. lét sem ég hefði gert of mikið úr því ranglæti, sem ætti að beita þær tvær stéttir, sem um er að ræða, því að ekki ætti að taka réttindi af þeim, sem lagt hefðu fé í sjóðinn og vildu vera í honum áfram. Það er rétt. En þegar að því kæmi, að allir, sem nú eru yfir 40 ára, væru búnir að fá styrk samkvæmt þessum l., yrði áreiðanlega eftir mikið fé í sjóðnum, en þetta fé tapaðist alveg með því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir. Eftir 2–3 ár væri sjóðurinn orðinn um 2 millj. kr., og vextir af því fé nema um 100 þús. kr. á ári, en það er nóg til að borga h. u. b. 20 embættismönnum árlegan styrk, en í fyrirsjáanlegri framtíð verða þeir ekki fleiri, sem styrksins þarfnast, svo að sjóðurinn gæti haldið áfram að vaxa. Ég álít iðgjöld þau, sem sett voru 1920, of há. En þau voru sett svona há í byrjun til þess að tryggja sjóðnum nægilegar tekjur. Ef þessum háu iðgjaldagreiðslum yrði haldið, yrði sjóðurinn á nokkrum árum margar milljónir, sem rynnu svo til almennra ellitrygginga í landinu. Væri það ósanngjarnt að vera búinn að taka svona mikið af þessum stéttum og láta þær síðan sitja eftir við verri kjör en þær hafa búið sér.

Ég get auðvitað ekki bannað hæstv. ráðh. að spyrja þessa menn um álit þeirra, en ég er ekki í neinum vafa um svar þeirra. Að vísu eru til menn, sem eru þannig skapi farnir, að þeir vilja ná í peninga, þótt þeir með því afsali sér ellitryggingu, en þeir eru ekki margir.

Um menn frá 60–67 ára er það að segja, að ég er viss um, að með réttum skilningi á ellitryggingarlögunum eru þeir útilokaðir frá styrk, nema þeir séu örkumlamenn, en það eru, sem betur fer, fæstir þeirra. En víða í sveitum hefir þessu fólki verið haldið frá sveit með nokkrum styrk úr ellistyrktarsjóði.

Þetta kemur að vísu ekki við því litla frv., sem hér liggur fyrir, en mér finnst skrítið, að haft skuli vera á móti því, að þetta sé smíðagalli á lögunum. Og hæstv. ráðh. veit vel um þennan smíðagalla sjálfur, því að mér er sagt, að hann hafi þegar sent út fyrirskipun um það, að menn frá 60–67 ára skuli fá ellistyrk. Þetta út af fyrir sig sannar, að hæstv. ráðh. hefir orðið þess var, að ýmsir, svo að ekki sé fastar að orði komizt, hafa skilið lögin svo, að menn á þessum aldri séu samkv. þeim útilokaðir frá ellistyrk.