21.02.1936
Efri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

19. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Svipað frv. þessu, sem hér liggur fyrir, kom fram á síðasta þingi og fékk hér í hv. d. fljóta og góða afgreiðslu, var síðan sent til hv. Nd., en dvaldist þar nokkuð lengi í allshn., því að þaðan kom það aldrei, heldur sofnaði þar út af. Það var borið fyrir, að í þeirri n. væru svo mörg mál meira varðandi en þetta, hver svo sem orsökin kann að hafa verið fyrir því, að málið fékk þessa meðferð þar.

Raddir komu fram um það á síðasta þingi, að ekki væri rétt að lögbjóða eitrun til útrýmingar fugli þessum, þó illur væri. Hefi ég í þessu frv. horfið frá því ákvæði. Aftur á móti eru skotmannslaun ákveðin hærri í þessu frv. heldur en í frv. í fyrra, og eins sekt þeirra manna, sem uppvísir verða að því að sýna skeytingarleysi og vanrækslu í því að eyða eggjum svartbaks í þeirra landi. Einnig er hér ákveðið, að 2/3 hl. af slíku sektarfé verði greitt til uppljóstrarmanna, í staðinn fyrir að áður var ákveðinn helmingur af því til þeirra. Þetta eru meginbreyt., sem gerðar hafa verið á frv. því, sem hér var til umr. um þetta efni á fyrra þingi. Eftir þeim undirtektum, sem þetta mál fékk hér á síðasta þingi, vænti ég þess, að það fái mjög fljóta afgreiðslu og sæmilega hér í hv. d.

Það leikur ekki á tveim tungum, a. m. k. á Breiðafirði, að verði ekki tekið í taumana til þess að vinna gegn fjölgun þessa fugls, þá er ein af framleiðslugreinum okkar, dúnframleiðslan, í algerðum voða, og öll líkindi til, að hún hverfi að mestu eða öllu leyti. Það hefir einnig verið tekið fram, að fugl þessi hefir ill áhrif á veiði fiskjar í fersku vatni og spillir henni mjög. Auk þess, þegar átuleysi er við sjóinn, leitar hann mjög upp til sveifa og leggst á unglömbin í vorharðindum, voru nokkur brögð að því á síðasta vori.

Dúnframleiðslan og laxframleiðslan virðast vera meðal þeirra fáu framleiðslugreina okkar, sem ekki eru enn sem komið er háðar miklum söluörðugleikum. Þess vegna tel ég enn meiri nauðsyn á að vernda þessar atvinnugreinir og stuðla að vexti og viðgangi þeirra. Í því augnamiði er eitt af því fyrsta, sem þarf að gera, að vinna að útrýmingu þessa vargfugls, sem nú er þeim mjög til eyðileggingar.

Orðlengi ég þetta svo ekki frekar, ef ekki koma fram nein andmæli gegn frv., en vænti þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.