14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

19. mál, eyðing svartbaks

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Það var talsvert rætt um þetta mál við 2. umr. Þá komu fram till. um að færa frv. í það horf, sem sæmilegt er að samþ. það í aðalatriðið í þeim till. var það að banna að eyða þessum fugli með eitri. Nú sýndi atkvgr. það, að meiri hl. hv. þdm. vildi ekki fallast á, að þetta ákvæði væri sett inn í l., þ. e. beint bann við þessari aðferð. En ýmsir hv. þm., sem í málinu töluðu, lýstu því beint yfir, að þeir skildu ekki tilgang frv. á þann veg, að það væri tilætlunin að eyða þessum fugli með eitri.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að hann teldi það ekki felst í frv. að sú aðferð yrði notuð, og taldi hinsvegar ónauðsynlegt að setja inn í l. ákvæði á móti því. Það er gert fyrið fyrir því í 2.–3. gr. frv., að sett sé reglugerð um eyðingu svartbaks innan ákveðins svæðis, ef 5 eða fleiri varpeigendur innan þess svæðis krefjist þess og þessi reglugerð sé síðan send ráðh. til staðfestingar, og að hann staðfesti reglugerðina, ef hún brýtur ekki í bága við gildandi lög. Nú hefir meiri hl. allshn. komið sér saman um að flytja brtt. við 3. gr. frv., að á eftir orðunum „gildandi lög eða reglugerðir“ komi: eða heimilar ómannúðlegar eyðingaraðferðir. — Það er sem sagt svo nú, eins og frv. er, að ef reglugerð kemur frá einhverju því svæði, sem samkv. því hefir leyfi til að setja reglugerð um eyðingu svartbaks, og það stendur í reglugerðinni, að heimilt skuli að eyða svartbak með eitri, þá má segja, að það brjóti ekki í bág við gildandi lög, og getur þá ráðh. ekki komizt hjá því að staðfesta slíka reglugerð en með því að setja þetta ákvæði inn í frv. væri fengin heimild fyrir ráðh. til þess að synja reglugerð staðfestingar, ef í henni væri gert ráð fyrir ómannúðlegum eyðingaraðferðum. Ég geri ráð fyrir, að hv. hv. Ak., sem tók það fram við 2. umr. þessa máls, að hann gæti ekki fallizt á, að leyft yrði að útrýma svartbaknum með eitri, geti fallizt á, að ráðh. eigi ekki að vera bundinn við að staðfesta reglugerð, ef hún brýtur ekki í bág við gildandi lög, þótt hún sjáanlega brjóti í bága við mannúðlegar aðferðir.

Mér hefir verið skýrt frá því að sumstaður hér á vesturlandi, þar sem menn eru í sífelldri herferð gegn þessum fugli, hafi verið tekin upp sú aðferð að klippa blikkplötur í litla ferstrenda eð, þrístrenda búta, og setja þessa búta svo í æti, og setjast þessir bútar svo í hálsinn á fuglinum og draga hann til dauða fyrr eða síðar. Ég get ekki hugsað mér, að nokkur hv. þm. vilji greiða atkv. með því, að fuglinn verði drepinn á þennan mjög svo ómannúðlega hátt, en þessi aðferð brýtur ekki í bága við lög, því það er hvergi tekið fram í lögunum, að ekki megi hafa hana, og ég þykist viss um, að þessu frv. óbreyttu, ef að lögum verður, að ef t. d. einhverjir 5 æðarvarpseigendur fengju samþykkta reglugerð, þar sem ákveðið væri, að fuglinn mætti drepa með þessari aðferð, þessum plötuslætti, að þá væri ráðh. skyldugur til að staðfesta þá reglugerð. Ef hinsvegar þessi smuga er höfð fyrir ráðh., þá getur hann synjað um staðfestingu á þeim reglugerðum, sem ákveða einhverjar þær eyðingaraðferðir, sem eru þannig, að enginn hvítur maður getur verið þekktur fyrir að nota þær. Ég veit, að þessi saga, sem ég sagði áðan er sönn, og sú eyðingaraðferð, sem ég lýsti þar, er svo ómannúðleg, svo dýrsleg, að ég er hissa á því, að hún skuli vera til. En samkv. löggjöfinni er heimilt að beita henni og sömuleiði, eitrun, og þess vegna leyfi ég mér, ásamt þeim hv. 2. þm. Reykv., hv. 1. landsk. þm. og hv. þm. Snæf., að bera fram þá brtt., að á eftir orðunum „gildandi lög eða reglugerðir“ komi: eða heimilar ómannúðlegar eyðingaraðferðir.