20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

18. mál, útsvör

*Pétur Ottesen:

Í nál. er talað um samhliða því, sem n. leggur til, að frv. verði samþ., að það sé nauðsynlegt, að fram fari gagngerð endurskoðun á útsvarslögunum, sem við nú búum við og hafa gilt síðan 1926. Ennfremur er þar talað um, að það myndi vera heppilegt, að n. sú, sem nú starfar að undirbúningi löggjafar um tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, tæki þetta mál til athugunar. En mér er ekki kunnugt um, að nein n. starfi núna að þessum málum. Á síðasta þingi var samþ. þál. um það að skora á ríkisstj. að láta undirbúa fyrir næsta Alþingi. nefnilega þetta þing, frv. til l. um tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. Það var skipuð n. til þess að undirbúa þetta frv., og þessi n. hafði alveg lokið sínum störfum, áður en þingið kom saman, og strax í byrjun þessa þings var þetta frv. n. lagt fram á Alþingi. Ég held því, að þessi n., sem skipuð var, hafi innt af hendi það, sem fólst í áskorun þeirri, sem samþ. var á síðasta þingi, um að undirbúa frv. til l. um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, en það er ekkert orð í þessari áskorun um það, að þessi n. ætti að taka til athugunar útsvarslögin út af fyrir sig. Þessi áskorun var sprottin af því, að með þeim útsvarsaðferðum, sem nú gilda, eða með því að leggja á eftir efnum og ástæðum, hagaði því svo til, að ýms sveitarfélög voru þannig á vegi stödd, að ekki var hægt að fullnægja þörfum þeirra með því móti. Þess vegna átti að reyna að finna nýja tekjustofna eða fara eftir öðrum leiðum til þess að ná tekjum í bæjar- og sveitarsjóði. Það er því alls ekki um neina starfandi n. að ræða, eða neinn þingvilja á bak við skipun nokkurrar n. til þess að taka útsvarslögin til athugunar. Ef það á að gera, þarf að koma fram þingvilji fyrir því. Þótt fjórir menn úr n., og þar af einn með fyrirvara, láti í ljós, að þeir telji heppilegt, sú slík endurskoðun fari fram, er það enginn þingvilji. Og þó sú breyt. á útsvarslögunum, sem hér er farið fram á að gera, verði samþ., gefur það enga bendingu um þingvilja fyrir endurskoðun á l. í heild, heldur hið gagnstæða, því að ef endurskoðun lægi svo nærri, værri minni ástæða til að gera nú þær breyt., sem felast í þessu frv., þó sjálfsagðar væru ella.

Ég vildi taka þetta fram, því að ég lít svo á, að gildandi útsvarslöggjöf hafi þó að einhverjir ágallar kunni á henni að vera, eins og yfirleitt allri löggjöf, reynzt heldur vel, eins og sjá má af því, að hún hefir staðið hér um bil óbreytt síðan 1926. Er það fátítt um löggjöf síðari þinga, að hún hafi staðið svo lengi. Þó frá einstökum stöðum hafi heyrzt raddir um breyt. á þessari löggjöf, sérstaklega frá Siglfirðingum, þá eru engar almennar óskir meðal landsmanna um gagngerðar breyt. á henni.

Ég vildi taka þetta fram að því, er nál. snertir, að það nær ekki nokkurri átt, nema það komi fram ákveðinn þingvilji fyrir því, að farið verði að skipa n., eða á nokkurn hátt undirbúa gagngerða endurskoðun á útsvarslögunum.