16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1937

*Jakob Möller:

Eins og hv. alþm. munu sjálfsagt hafa veitt athygli, hafa sjálfstæðismenn í fjvn. nokkra sérstöðu um afgreiðslu fjárl., og er það í samræmi við þá sérstöðu, sem sjálfstæðismenn hafa haft á undanförnum árum.

Sjálfstæðisflokkurinn telur ekki að þess sé nægilega gætt, að stilla í hóf álögum á atvinnurekstur landsmanna og að ekki sé samræmi í því og þeirri yfirlýsingu, sem gefin er af öllum flokkum, að þinginu beri að stuðla að því, að efla atvinnuvegi landsmanna, eins og það er orðað í 1. málsgr. nál.

Það vita allir hversu aðþrengdir atvinnuvegir landsmanna eru, og það hefir t. d. verið viðurkennt á þann hátt, að létt hefir verið af útflutningsgjöldum af landbúnaðarafurðum, og í samræmi við það er þá sjálfsagt að létt sé af sjávarútveginum samskonar gjöldum, og þess vegna hafa sjálfstæðismenn gert þá kröfu, að nú verði þessu gjaldi létt af.

Hinsvegar bendum við á það, að tekjur á fjárlagafrv. eru áætlaðar þannig, að full ástæða er til að ætla það, að tekjurnar á árinu 1937 verði til muna meiri en þar er gert ráð fyrir, og í raun og veru er það samþ. af meiri hl. fjvn., sem hefir tekið það fram, að óhætt sé að hækka tekjuliðina, en meiri hl. n. virðist ætla að láta sér nægja að lagfæra þetta þannig, að hækkun tekjuliðanna nægi til að vega á móti þeim auknu útgjöldum, sem n. er sammála um að verði samþ. En ég vil vekja athygli á því, að sá munur, sem á þessum liðum er orðinn á síðari árum, að þær tekjur, sem hér er gert ráð fyrir, eru samtals 1379 þús. kr., eða allt að 1900 þús. kr. lægri heldur en sambærilegar tekjur á árinu 1935, og skal ég nú gera grein fyrir því, í hverju þessi mismunur er fólginn.

Það er á tekju og eignaskatti .. 350 þús. kr.

Erfðafjárskatti ................ 29 — —

Áfengistolli .................... 250 — —

Tóbakstolli .................... 30 — -

Kaffi- og sykurtolli ............. l50 þús. kr.

Vörutolli .......... ............ 300 — —

Verðtolli .......... ............ 350 — —

Áfengisverzlun .... ............ 400 — —

Útvarpi ........... .......... . 20 — —

Þetta eru samtals 1879 þús. kr.

Nú er það að vísu svo, að það má gera ráð fyrir því, að tekjurnar verði ekki eins miklar á sumum liðum eins og þær voru 1935, þótt ekkert verði fullyrt um flesta liðina. Um einn liðinn, tekju- og eignarskatt, má segja að varasamt sé að ætla hann hærri en nú er gert. Um hina liðina er að vísu ekkert hægt að fullyrða en líkur eru til, að þeir geti gefið eins mikið nú, eins og á árinu 1935 og jafnvel meira.

Að svo stöddu getum við sjálfstæðismenn ekki fallizt á það, að þessi áætlun sé rétt og sjáum ástæðu til að veita ríkisstjórninni þennan tekjuafgang til að ráðstafa eftir eigin vild án þingsíhlutunar.

Hinsvegar hefir ekki farið fram athugun á þessu í n. öðruvísi en bera saman tölur í heild og þess vegna hefir ekki verið tekin föst afstaða um einstaka liði. En við sjálfstæðismenn töldum það skyldu okkar að taka við þessa umræðu ákveðinn fyrirvara um þetta, og ef við hefðum látið það óathugað mátti taka það svo, að við féllumst á þessa áætlun, sem er fjarri sanni.

Við teljum það tvímælalaust óhætt — vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið til að afla tekna með auknum skattaálögum, — að fella nú niður útflutningsgjaldið, sem nemur 650 þús. kr., og sem að vísu er einn af þeim fáu liðum, sem fremur má búast við, að reynist of hátt áætlaðir.

Við teljum ekki vafa á því, að þeir tekjustofnar, sem í frv. eru. muni jafna þann halla, sem yrði við það að fella útflutningsgjaldið niður.

Eins og nú stendur er sjávarútvegurinn rekinn með tapi og að taka þá af honum þennan beina skatt, er ósæmilegt og tæplega forsvaranlegt gagnvart lánardrottnum hans.

Við leggjum einnig til, að fellt sé niður það gjald, sem lagt var á á síðasta þingi og kallað viðskiptagjald og nemur frá 2 og allt upp í 25% á svo að segja allar þær vörur, sem til landsins flytjast. Það er enginn vafi á að þetta gjald kemur mjög illa á atvinnulífið í landinu, þar sem það er lagt á ýmsar þær nauðsynjavörur, sem alls ekki er hægt að komast af án við atvinnurekskur.

Það er að vísu svo með einstakar vörutegundir, sem þetta gjald er lagt á, að þær eru ekki nauðsynlegar fyrir atvinnureksturinn. En hinsvegar er það, að með þeim innflutningshöftum, sem eru á þeim vörutegundum, er ekki að vænta mikilla tekna naf því gjaldi, sem á þær leggst, og þess vegna verðu þær tekjur, sem ríkissjóður fær, að líkindum að langmestu leyti af brýnum nauðsynjavörum.

Þær tekjulindir ríkissjóðs, sem við leggjum til að verði stöðvaðar, munu nema um 1400 þús. kr., og þar sem nú, samkv. till. n., verða aukin útgjöld sem gera það að verkum, að á fjárlfrv. verður á 400 þús. kr. tekjuhalli, þá má gera ráð fyrir, að full óvarlega sé farið ef þessir tekjustofnar eru felldir niður, því þá er unninn upp að fullu sá mismunur, sem ég gerði grein fyrir að væri á áætluðum tekjum nú og á raunverulegum tekjum á árinu 1933. En þá erum við sjálfstæðismenn þess albúnir að taka til athugunar til 3. umr., að gera fjárlögin þannig úr garði að ekki komi til mála að á þeim verði tekjuhalli og að gera það þá með því að fella niður gjöld, sem við teljum að hægt sé að fella niður eða fresta, og skal ég t. d. benda á, að við teljum bæði að hægt sé að fresta framkvæmd tryggingarlöggjafarinnar og einnig að ekki sé hyggilegt að byrja á henni á þeim tímum, sem nú standa yfir, og augljóst er að almenningur í landinu má illa við því að nú séu lögð á hann þau gjöld, sem sú löggjöf hefir í för með sér. Þess vegna teljum við að hægt sé að tryggja það, að ekki verði tekjuhalli á þessu ári, þótt þessir tekjustofnar falli niður.

Í þessu sambandi skal ég lauslega minnast á afstöðu okkar til eins tekjuliðsins, sem búast hefði mátt við, að við gerðum till. um að fella niður vegna afstöðu flokksins til þess máls á síðasta þingi, en það er benzínskatturinn nýi, sem gert er ráð fyrir, að gefi 250 þús. kr. í tekjur. Það er kunnugt, að Sjálfstfl. lagði á sínum tíma eindregið á móti því, að þessi skattur yrði lögleiddur, vegna þess að hann taldi, að skatturinn yrði til þess að auka erfiðleika atvinnurekstrarins í landinu, en það hefir farið svo, raunar ekki fyrir tilstuðlan stjórnarvaldanna, að þessi tollhækkun á benzíni, sem útlit var fyrir að lenda mundi á kaupendum benzíns innanlands, er að flytjast yfir á seljendur, þar sem nú er að komast í framkvæmd verðlækkun á þessari vörutegund, sem svarar því sem næst þessari tollaukningu. Af þessari ástæðu höfum við, a. m. k. að svo stöddu, ekki séð ástæðu til þess að flytja till. um að fella þennan skatt niður, þó að við teljum að vísu, að það geti að sjálfsögðu komið til mála, að þessi tekjuliður yrði einnig felldur niður, ef það þætti fært vegna afkomu ríkissjóðs að öðru leyti.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt að þessu sinni, ég þykist hafa orðið þess var, að það þyki hlýða að hafa sem fæst orð um fjárlögin að þessu sinni. Það mun vart hafa komið fyrir áður í sögu þingsins, a. m. k. ekki síðustu ár, að aðalframsöguræða fjárlaganna við 2. umr. hafi ekki tekið nema tæpan klukkutíma eins og að þessu sinni, en það stafar að nokkru leyti af því, að n. hafði ekki fyllilega lokið störfum sínum í tæka tíð, svo að nokkur hlutinn bíður í rauninni til 3. umr.