04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

93. mál, Menningarsjóður

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þessi stofnun, sem hér ræðir um, er að því leyti frábrugðin öðrum stofnunum, að ær og kýr hennar eru lögbrotin. Ef lögbrotum fækkar, visnar hún, en fjölgi þeim, þenst hún og tútnar út, eins og púkinn í fjósinu við blótsyrðin. Ég kann illa við slíkar sveiflur á ekki óvirðulegri stofnun en menningarsjóður er, og enda þótt ekki finnist lyktin af peningunum, eins og Vespasíanus sagði við Títus son sinn, þá finnst mér það óviðfelldið, að þessi sjóður skuli beinlínis, eiga að lifa á lögbrotum og brennivíni. Ég get fallizt á það, sem hér hefir verið talað um af hv. 1. þm. Skagf., að láta ákveðna upphæð af almennum tekjum ríkissjóðs renna til þessarar stofnunar.

Hv. 1. þm. Eyf. taldi heppilegt, að n. væri kosin til að úthluta persónustyrkjum. Þetta getur verið og getur verið ekki, og það fer vitanlega eftir því, hverjir í þá n. veljast, og hér er ekkert smáræði, þar sem er hálft hundrað þúsunda á einu bretti.

Kaup á listaverkum getur þingið vitanlega falið sérstökum mönnum, og þá getur það tekið upp á fjárlög, hve miklu skuli verja til þess, ef því sýnist svo. En þótt þessar n. séu, þá hefir það verið svo og verður þannig eftirleiðis, að þingið sjálft veitir alltaf meiri eða minni persónustyrki, en úr því þessum stjórnum er ætlað svo mikið fé, þá vil ég, að þingið sé losað við að veita annan styrk til listamanna. Hv. 1. þm. Eyf. talaði um fjárhagsvandræði ríkissjóðs og taldi, að ríkissjóður værri að sligast undir gjöldunum. Hann beitti sér á móti því, að berklavarnagjaldinu væri létt af, vegna þess að ríkissjóður mætti ekki missa af þeim tekjum. Mér finnst, að það gæti verið heppileg leið að þingið hætti að veita persónulega styrki til listamanna, og láta þessa nefnd fá ákveðna upphæð til yfirráða í því skyni, en mér þykir þetta of mikið fé, en ef það væri um 40 þús. krónur, fyndist mér það nær sanni. En það er sennilega þýðingarlítið um slíkt að deila. Ég býst við, að þetta mál hafi verið þannig undirbúið, að hv. þdm. hafi komið hingað með ákveðnum huga um það, hvernig þeir greiddu atkv. í því.