16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorsteinn Briem:

Ég flyt nokkrar brtt. við fjárlagafrv., ýmist einn eða ásamt öðrum hv. þm., og skal ég gera lítilsháttar grein fyrir till. þessum. Skal ég þá fyrst víkja að þeim brtt., sem ég flyt einn við fjárlfrv., og kem ég þá fyrst að Suðurdalavegi, sem er eins og kunnugt er á aðalleiðinni norður í Strandasýslu og til Austur-Barðarstrandarsýslu, sem hefir á síðustu árum verið mjög fjölfarin.

En einmitt á þessum kafla í Suðurdölunum eru þær torfærur, sem teppa þessa leið bæði vor og haust. Mesta torfæran er þó Miðá, sem verður mikið vatnsfall í leysingum og rigningum jafnvel að sumrinu.

Svo hagar til, að brúarstæði á henni er alllangt frá þeirri leið eða þeim vöðum, sem nú eru notuð, og verður því að leggja alllanga vegarspotta báðumegin að brúarstæðinu, er sú vegalagning alllangt komin öðrumegin, en skemmra hinumegin, og er því engin leið að komast að þessu brúarstæði. Er því nauðsynlegt, til þess að þetta vatnsfall verði brúað, að hraða sem mest þessari vegarlagningu, því þeir vegarkaflar, sem þegar eru komnir, eru ekki að gagni fyrr en brúin er byggð, og því flyt ég till. þessa. Ég get að vísu tekið það fram, að upphæð sú, sem farið er fram á, er alltaf lág, en með tilliti til hins þrönga fjárhags, sem við búum nú við, hefi ég ekki gert till. um, að fjárhæð þessi verði hærri. Eins og ég hefi áður bent á, kemur vegabót sú, sem hér er um að ræða, ekki að eins Dalasýslu að gagni, heldur einnig Strandasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu.

Um hina till., fjárveitingu til Laxárdalsvegar, skal ég benda á, að nú er þjóðvegur um Laxárdal yfir Laxárdalsheiði til Hrútafjarðar; er sæmilegur vegur vestan dalsins neðst, en leiðin um miðjan dalinn og inn úr er ófær vegur og vegleysur, nema í mestu þurrkum um hásumarið. Nú er þetta landkostasveit og allþéttbýl, og gefur því auga leið, að það skiptir allmiklu máli, að vegasambandinu sé kippt í lag. Mundi að nokkru mega bæta úr verstu göllunum með upphæð þessari, þó hún sé lág. Samkvæmt venju, sem áður hefir gilt, mun mega vænta þess, að sýslan vilji leggja fram fé á móti, og jafnvel hreppurinn, svo að sem bezt mot verði að vegagerðinni. Ég get tekið það fram í þessu sambandi, að nokkur hugur mun vera í mönnum að koma á fót mjólkurbúi í Búðardal, en Laxárdalsbúar geta ekki haft not af því búi, nema vegargerðinni verði hraðað meir en gert hefir verið. Er það sízt forsvaranlegt, að ríkissjóður skuli ekki leggja fram fé til þessa þjóðvegar, eins og hefir verið á síðustu tveimur fjárl. Þá má og geta þess, að vegur þessi er leiðin til Borðeyrar, en þar er frystihús, en ekki í Dalasýslu, hafa menn því í nokkrum hluta dalsins haft viðskipti við Borðeyri um sláturfé sitt, og er vegurinn því nauðsynlegur meðfram af þeirri ástæðu. Ég vil vænta þess, að hv. Alþingi líti með sanngirni á þessa till., sem og hina, og veiti þeim vingjarnlega afgreiðslu.

Þá á ég þriðju till. einn á þskj. 329, XVII, um að veita Ingólfi Davíðssyni styrk til framhaldsnáms í plöntusjúkdómafræði. Þessi efnilegi maður hefir fengið styrk á þessa árs fjárl., og er nauðsynlegt, að hann fái að halda þeim styrk á næsta ári. Ég ætla, að hverjum manni sé það ljóst, hvað nauðsynlegt landbúnaðinum sé að eiga sérfróðan mann um plöntusjúkdóma. þar sem hér eru ýmsar nytjajurtir undirlagðar sjúkdómum, og mun mönnum sérstaklega vera minnistæð kartöflusýkin, og ýmsir aðrir sjúkdómar hafa háð jarðeplarækt vorri tilfinnanlega á undanförnum árum. Þessi sýki náði útbreiðslu um allt Suður- og Suðvesturland, og má ætla, að kartöfluframleiðslan geti verið í voða, hvenær sem gerir óþurrkasumar.

Við urðum fyrir því happi fyrir 3 árum, þegar kartöflusýkin geisaði, að njóta aðstoðar erlends plöntusjúkdómafræðings, en það gefur auga leið, að ólíkt hagkvæmara er að eiga sjálfir kunnáttumann í landinu jafnan til taks að gefa leiðbeiningar, þegar slíka sjúkdóma ber að höndum. Þess utan eru ýmsir sjúkdómar óþekktir, sem þarf að rannsaka, og sumpart vantar kunnáttumann til að gefa leiðbeiningar um þá sjúkdóma, sem þegar eru þekktir. Hæstv. Alþingi hefir á tveimur undanförnum þingum tekið till. í þessu efni vinsamlega og samþykkt hana og vænti ég að svo verði enn.

Þá hefi ég ásamt hv. þm. V.-Húnv. flutt ýmsar brtt. eru það sérstaklega 4 við 16. gr., en hv. þm. V.-Húnv. hefir þegar talað fyrir þeim, skal ég ekki fara fleiri orðum um þá liði, nema sérstakt tilefni gefist til, með því að hann hefir rakið þær ástæður, sem liggja til grundvallar fyrir þeim öllum.

Þá hefi ég ásamt sama hv. þm. flutt brtt. við 22. gr., 1. lið, sem gengur í þá átt að heimila ríkisstjórninni að greiða laun tveggja hæstaréttardómara, ef dómurum verði fjölgað í þeim rétti, sú heimild verði felld niður, en þess í stað sé ríkisstjórninni heimilað að verja 100 þús. kr. til að styrkja bændur á harðindasvæðinu á Norður- og Austurlandi vegna fóðurbætiskaupa, enda hafi Búnaðarfélag Íslands á hendi úthlutun fjárins í samráði við og eftir till. sveitastjórnanna. Hér í till. er ekki nákvæmlega tilgreint, hvaða héruð eiga hlut að máli, en það er öllum hv. þm. kunnugt, hvaða héruð hafa hlotið þyngstar búsifjar á yfirstandandi vetri, þ. e. nyrðri hluti Suður-Múlasýslu, Norður-Múlasýslu, Þingeyjarsýslur báðar, Eyjafjarðarsýsla mestöll, og jafnvel Skagafjörður og a. m. k. nokkur hluti Húnavatnsýslu. Hér í till. er ætlazt til þess, að styrkurinn sé veittur aðallega þeim, sem búa á mestu harðindasvæðunum og hafa orðið sérstaklega fyrir barðinu á óblíðri veðráttu þar sem óþurrkar voru sl. sumar afskaplegir, svo hey ónýttust auk þess, sem þau ónýttust í heystæðum vegna haustrigninga, og bændur höfðu því beðið tilfinnanlegt tjón áður en veturinn sjálfur gekk í garð, sem hefir verið svo fannamikill og jarðbanna, að með einsdæmum má heita, sérstaklega þar sem það kemur ofan á þá veðráttu, sem á undan var gengin.

Ég skal játa, að ég hefi ekki við höndina skýrslu um þau feikna miklu fóðurbætiskaup, sem bændur hafa ráðizt í, og stafar það af því, að ég hafði vænzt þess, að aðrir aðiljar, og þá ekki sízt stjórn kreppulánasjóðs fyndi hvöt hjá sér til að rannsaka þetta, og þá jafnvel bera fram till. í þessu máli. Eftir bráðabirgðauppgjöri munu fóðurbætiskaup bænda aðeins í Múla- og Þingeyjarsýslum hafa numið 3–4 þús. tonnum af fiski- og síldarmjöli og allt að því öðru eins af maís- og rúgmjöli, og heykaup hafa verið gerð fyrir um 40 þús. kr.

Er því lágt áætlað og mun sízt ofmælt, að bændur hafi orðið að ráðast í fóðurbætiskaup, er nemi allt að ¼ úr milljón í krónutali. Mun því mega gera ráð fyrir á stórum svæðum, að fóðurbætiskaupin nemi um 2–3 kr. á sauðkind. Það gefur því auga leið, að þó vorið reyndist gott, mundi arðurinn af búfénu hrökkva skammt fyrir slíkum aukakostnaði, enda má búast við meira eða minna afurðatapi næsta haust, því jafnvel þó veðráttan reyndist sem hagstæðust, þá er það nú svo, að sé féð dregið fram á kröppu fóðri, kemur það fram á haustkauptíðinni í rýrari afurðum. Það vill auk þess svo til, að þessi harðindi hafa lent að allmiklu leyti á þeim sýslum, sem sízt voru undir það búnar, hvað fjárhagslega afkomu snertir. Mun það vera reynsla lánstofnana, að fé hafi frosið fast í þessum sýslum, og þá kannske ekki hvað sízt í Norður-Múlasýslu. Hafa mörg sveitarfélög þar orðið að grípa til þess að fá bjargráðasjóðslán, og hygg ég, að mörg þeirra séu innifrosin. Þegar þessir möguleikar hafa þannig verið notaðir áður, þá gefur auga leið, að horfa muni til stórvandræða. Ef nú svo færi, að margir bændur yrðu gjaldþrota eða vegna fóðurbætiskaupa svo illa staddir, að þeir yrðu að flýja jarðir sínar, þá er mjög vanséð, hvort fengjust í bráð bændur aftur til að setjast á þær jarðir. Og ég ætla, að ástandið sé þannig í mörgum sveitum, að ef sú skriða byrjar, þá sé ekki auðvelt að segja fyrir um, hvar hún muni stöðvast.

Ég gat þess áðan, að ég hefði búizt við því eða vænzt þess, að stjórn kreppulánasjóðs hefðist handa og gerði ráðstafanir til þess að tryggja fé sitt eða þau skuldabréf, sem búféð stendur að veði fyrir. Það liggja fyrir skýrslur um, hvað það fé er mikið, og því verður ekki bjargað með öðru móti en að gera mönnum kleift að standa í skilum. En eins og ástandið er nú, verður ekki séð að mönnum sé það fært, nema þeim komi til þess hjálp. Ég get tekið það fram, að við nánari athugun, eftir að gengið var frá till. þessari, sem við hv. þm. V.-Húnv. flytjum, þá hefi ég sannfærzt enn betur um, að þessi upphæð, sem hér er farið fram á, er ekki of há, heldur mikils til of lág og vænti ég þess, að þeir þm., sem leggja sig inn í að rannsaka þetta mál og þær upplýsingar, sem þegar eru fyrir hendi, muni sannfærast um, að svo sé.

En ég skal jafnframt taka það fram, að mér er vel ljóst, þó ég álíti, að ekki verði komizt hjá að flytja till. sem þessa, að hér eru tvær hliðar á þessu máli, og það má með réttu segja, að það sé varasamt að rétta fram hönd þess opinbera vegna þess, að það geti orðið til þess, að menn treysti á, að það verði gert æ ofan í æ. Þetta skal ég fúslega viðurkenna. En jafnvel þó að svo sé, þá verður ekki fram hjá því komizt í slíku tilfelli sem þessu að rétta fram hjálparhönd. Og ég vil leggja ríku áherzlu á, að jafnframt því, sem þessi hjálp sé veitt, þá sé gerð ráðstöfun til að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í, svo að þetta komi ekki fyrir aftur. Þar á ég ekki aðeins við lögin um fóðurtryggingarsjóði, heldur og endurbætur á búfjárræktarlögunnm, og þá alveg sérstaklega á þeim kafla, er fjallar um fóðurbirgðafélög. Vil ég gera breyt. eða endurbót í þá átt, að nú verði a. m. k. stuðlað betur að því en er, að fóðurbirgðafélög verði í hverri sveit. Ég skal ekki bera á móti því, að vel gæfi komið til mála, að um leið og hv. Alþingi yrði ljóst, að ekki verður hjá því komizt að rétta hjálparhönd þá geri það kröfu til að fóðurbirgðafélög yrðu í hverri sveit á landinu, eða stofnuð allsstaðar, þar sem landbúnaður er rekinn. Það kann að virðast hörð krafa að leiða það beint í l. En slíkt mætti koma til athugunar. Ég þykist þá hafa sýnt að það vakir ekki fyrir okkur tillögumönnum að skapa hér fordæmi, sem yrði sífellt endurtekið, heldur að um leið og þessi hjálp væri veitt, yrðu gerðar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þættu til þess að fyrirbyggja það, að á slíkri hjálp þyrfti að halda framvegis, að svo miklu leyti, sem það væri unnt með l. Ég vil mega vænta þess, að allir hv. þm. liti með sanngirni á þessa till. og vilji taka hana til athugunar og viðurkenna það a. m. k., að hér sé nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir annaðhvort í þessari mynd eða á annan hátt.

Það má að vísu segja, að heimild slík sem þessi kemur fyrst til framkvæmda á fjárl. næsta árs, og má því segja, að það líði nokkuð þangað til. En ef slík till. sem þessi eða önnur í sömu átt næði samþykki hæstv. Alþingis, þá mætti þó þegar í stað gera ýmsar ráðstafanir, sem kæmu að notum, þannig að ekki yrði að ganga strax að bændum, og koma í veg fyrir á þann hátt, að bændur flosnuðu upp, þeir sem annars sæju veg til þess að haldast við bú. Það mætti gera ráðstafanir til þess að kyrrsetja innheimtu, og það mætti svo nota tímann til þess að láta fram fara nánari rannsókn og uppgerð á ástandinu í hverri sveit í þessum héröðum. Skal ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en ég vænti þess, að sú hugsun, sem liggur bak við þessa till., verði tekin til athugunar af hæstv. Alþingi því, er nú situr.