16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1937

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði síðast, vil ég lýsa yfir því, að það eru ekki annað en getsakir, sem alltaf er hægt að halda fram. Ég vil spyrja hv. þm., hvort reynsla ársins 1935 hafi gefið tilefni til þvílíkra ummæla. hvort stj. hafi hagað sér þannig, að hún eyddi fjármunum í stórum stíl án heimildar frá Alþingi. Ef þetta er athugað, og tilgangur stj. miðaður við þá reynslu, sem þegar hefir fengizt, þá kemur í ljós, að þessi stj. hefir gengið skemmra en nokkur undanfarin stj. í því að nota fé, sem ekki er heimild fyrir. Reynsla gefur ekki tilefni til þessara getsaka. Að stj. áætli tekjur til þess að fá fé til að sólunda, byggist ekki á neinu. Ef hv. stjórnarandstæðingar ætla alltaf að afgreiða fjárl. með það í huga, að hverjum eyri, sem umfram kynni að verða, yrði sólundað, þá hlyti það að verða ákaflega ábyrgðarlaus afgreiðsla á fjárl.