20.04.1937
Efri deild: 49. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af orðum hv. 2. þm. Rang. um það, að ef til vill væri ástæða til að setja sérstök lög, sem bönnuðu útflutning á kjöti af sýktu fé, vil ég segja það, að ég get fallizt á það að efni til. Það er skylt að gera allar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja, að ótti, sem kynni að rísa upp vegna veikinnar, yrði til þess að spilla fyrir útflutningi á íslenzku kjöti. Ég hygg, að það mætti einhversstaðar finna gr. í frv., sem þetta gæti bætzt við, ef það yrði athugað milli umr., en það er rétt, sem hv. þm. segir, að þetta er atriði, sem er sjálfsagt að taka til athugunar.

Annars vil ég segja það um þetta frv. í heild sinni, að ég býst við, að ég muni ljá því stuðning hér í hv. d., en þó verð ég að segja það, að ég er í nokkrum vafa um, að eins og frv. er úr garði gert komi það að þeim notum, sem því er ætlað og æskilegt væri. Hinsvegar geri ég ekki ráð fyrir, að á þeim skamma tíma, sem þingið á eftir að sitja, sé möguleiki á að breyta því, svo að öruggt sé, fyrst og fremst vegna þess, að maður verður að viðurkenna það, að svo mikill sem þessi voði er, þá er hitt að miklu leyti á huldu, á hvern hátt heppilegast er að reyna að stemma stigu fyrir þessu. Það er ekki mikil fjárupphæð, sem hér er um að ræða, og það telur enginn eftir, sízt ég, ef það mætti verða til að afstýra þessu. En því miður verð ég að játa, að ég er ekki viss um, að þetta frv. nægi til þess. Ég hefði helzt kosið, að þetta frv. væri rýmra en það er, meira í heimildarformi fyrir stj. heldur en bein lögákveðin fyrirmæli um það, hvað gera skuli. Að því er snertir ákvæði 4. gr. um girðingar má t. d. benda á það, að ekki væri óhugsandi, að aðrar girðingar væru nauðsynlegar, en ef þetta er lögbundið, verður að sjálfsögðu að hlýða því. Ég hefði álitið betra að hafa ákvæði 4. gr. í heimildarformi fyrir stj. — Fleiri atriði svipaðs eðlis mætti nefna í frv., en ég skal ekki eyða tímanum með því.