19.04.1937
Efri deild: 47. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

163. mál, kosningar til Alþingis

*Pétur Magnússon:

Því verður vitanlega ekki neitað, að það fer betur á því, og það er á ýmsan hátt heppilegra, að kosningar fari fram eftir nýjustu kjörskrá, sem samin hefir verið. Þess vegna er það í raun og veru eðlilegt, þar sem fyrirsjáanlegt er, að kosningar muni verða næsta vor, að lagt sé til, að gerð sé sú breyt., sem farið er fram á í þessu frv. Hinsvegar get ég ekki neitað því, að mér finnst það óviðfelldið frá laga-teknisku sjónarmiði að láta gildistöku kjörskrár fara eftir því, hvort kosningar fari fram eða ekki. Eins og frv. á þskj. 364 er orðað, er augljóst, að kosningar fara jafnan fram eftir hinni nýju kjörskrá, ef kosningar fara ekki fyrr fram á árinu en 15. júní. En ef maður á annað borð telur rétt að haga því þannig, sýnist mér eðlilegra að breyta gildistöku kjörskránna en að fara þessa leið, sem hér er lagt til, þannig að gildistakan færist fram um eina viku. Ég vildi því leyfa mér að flytja hér brtt. við 1. gr. frv. um, að hún verði orðuð þannig, að í stað orðanna „23. júní það ár til 22. júní næsta ár á eftir“ í 14. gr. laganna komi: 15. júní það ár til 14. júní næsta ár á eftir, — og því slegið föstu í eitt skipti fyrir öll, að gildistaka hinnar nýju kjörskrár verði 15. júní. — Ég skal ekki neita því, að það er ofurlítið ósamræmi í þessu við l. sjálf, sem gera ráð fyrir, að kosningar geti ekki farið fram fyrr en 23. júní, en þetta er ósamræmi, sem hefir ekki neina praktiska þýðingu. Ég vildi því afhenda hæstv. forseta þessa brtt. og skal geta þess, að hún er borin fram eftir viðtali við ráðh. og með samþykki þeirra.