16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

Sætaskipun í sameinuðu þingi

Einar Árnason:

Ég ætla ekkert að blanda mér inn í það, með hverjum hætti menn skipa sér í sæti á fundum Nd. Það er aðeins út af sætum í Sþ., sem ég er að ræða málið. Það þarf ekki að fara í grafgötur um, að þingsköp ætlast svo til, að menn dragi númer og hljóti sæti eftir því á deildafundum. Nú er það vitað, að í þessum sal eru engin sæti tölusett nema á ytri skeifunni, og því hefir ekki farið fram dráttur um önnur sæti en þau, sem eru í ytri skeifunni. Það er ekki þægilegt fyrir Ed.-menn, þegar þeir koma á fundi í Sþ., að vita ekki til þess, að þeir hafi leyfi til að setjast í nein númeruð sæti hér í d., af því að Nd.-menn einir eigi rétt á þeim sætum.

Ég vil aðeins taka það fram, að ég læt mig það engu skipta, hvernig menn skipa sér í sæti á fundum Nd., en ég krefst þess, að Ed.-menn geti óáreittir fengið sæti í innri skeifunni, þar sem þeir hafa óátalið haft sæti á undanförnum þingum.