16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

Sætaskipun í sameinuðu þingi

*Hannes Jónsson:

Mér finnst það eiginlega hálfhastarlegt gagnvart Nd.-mönnum, ef hér á Alþ. á að fara að leika upp gömlu almennu sveitarfundina, þar sem ráðstafað var þurfalingum hreppsins. Ég verð að segja það, að ég get fundið til með þessum hrakningamönnum, sem hingað koma á sameinað Alþingi og vita ekki, hvar þeir eiga höfði sínu að halla. — Ég hefi áður hér í þinginu, þó ekki hafi það verið að þessu sinni, hreyft nokkrum mótmælum gegn því, að þm. töluðu úr öðrum sætum en þeim bæri; og í það skipti var tekið tillit til þess af hæstv. forseta, svo að hlutaðeigandi ræðumaður talaði þá úr ræðustól.

Ef ekki er hægt að fá þetta í viðunandi horf, finnst mér ekki annað ráð vænna en að hæstv. forseti stilli svo til, að á þá menn, sem ekki rata í sæti sín, verði límdur miði, sem tala sætis þeirra stæði á. Það gæti þá verið fyrsta verk þingsveinanna að koma þessum óskilagemlingum á sinn rétta bás.