24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (1318)

43. mál, opinber ákærandi

*Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Umræður um þetta mál eru orðnar langar og hafa þegar staðið í þrjá daga. Í þeim hefir komið margt fram af hálfu andstæðinga þess, sem ég eða aðrir höfum svarað og hrakið, en þó á ég enn nokkru ósvarað.

Ég vil þá fyrst víkja að mótbárum gegn frv. sjálfu. Því hefir verið haldið fram bæði af hæstv. forsrh. og jafnvel fleirum, að frv. bætti ekki neitt úr því ástandi, sem nú er í þessum efnum, þar sem ekkert væri því til fyrirstöðu samkv. stjskr., að sá maður er gegndi þessu embætti, gæti verið þingmaður og jafnvel flokksforingi. En nú er beint tekið fram í frv. sjálfu, að hann eigi að standa utan við stjórnmálabaráttuna. Ég veit að vísu, að til þess að útiloka hann frá þingmennsku þarf breytingu á stjskr. En því má fyllilega treysta, að sá maður, sem skipaður yrði í þetta embætti með vitund um það, að embættið eigi að vera algerlega ópólitískt, myndi ekki kasta sér út í stjórnmálabaráttuna á eftir, svo framarlega sem hann er heiðarlegur maður.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að engin trygging væri fyrir því, að hann skipaði ópólitískan mann í þessa stöðu. Upphaflega var svo ákveðið í frv., að ráðh. skyldi vera bundinn við till. hæstaréttar um val þessa embættismanns. En á fyrsta ári frv. komu fram mjög sterk mótmæli gegn þessu ákvæði frá hv. 1. landsk., og því felldi ég það úr frv., ef það gæti orðið til þess, að það kæmist fremur í gegnum þingið á eftir. Það er því harla undarlegt, að andstæðingar málsins skuli nú nota brottfellingu þessa ákvæðis gegn því.

Hv. þm. Barð. taldi það alveg ástæðulaust, að banna þessum embættismanni að hafa aukastörf á hendi. Ég get nú vel skilið slíkar raddir úr öðrum eins beina- og bitlingaflokki og hans flokkur er. Þá sagði sami hv. þm., að þetta frv. væri miðað við gamalt rettarfar, og þess vegna væri varasamt að samþ. það. En hér er ekki um neitt annað að ræða en að færa ákæruvald ráðh. yfir í hendur ópólitísks embættismanns. Þessi breyt. getur því fallið inn í hvaða réttarfar sem er, og eins og segir í umsögn lagadeildar, verður þetta starf ávallt sjálfu sér líkt, hverjar breyt., sem annars verða á réttarfarinu. Ég hefi einnig margsýnt fram á það áður, að andstæðingar málsins hafa tekið sérstaka þætti réttarfarsins út úr heildinni til meðferðar, og því má þá ekki eins taka þennan þátt út úr?

Annað meginatriði síðustu ræðu minnar var að sýna fram á misbeitingu ákæruvaldsins bæði í tíð núverandi dómsmrh. og Jónasar Jónssonar. Af þeim 8 liðum, sem ég færði máli mínu til sönnunar, hefir hæstv. dómsmrh. aðeins treyst sér til að minnast á tvo. Hann segir, að ég hafi skýrt rangt frá barsmíðamáli einu, er ég sagði, að ekki hefði verið tekið fyrir, því að í því hefði verið kveðinn upp dómur og hinir seku látnir greiða bætur. Ég hafði upplýsingar mínar um málið eftir manni, sem ég treysti til að vita skil á því. Vafalaust er það rétt hjá hæstv. ráðh., að dómur hafi verið kveðinn upp, en eitthvað er einkennilegt við það, að maður, sem dæmdar hafa verið skaðabætur, skuli ekki vita af því eftir hálft ár.

En þó að frásögnin um þetta eina mál kunni að hafa skolazt til, er hæstv. forsrh. svo sem ekki hvítþveginn fyrir því! Ég nefndi sem annað dæmi málshöfðunina gegn þjóðernissinnum vegna vasabókarmálsins. Það var öllum réttarfræðingum ljóst frá upphafi, að sú málshöfðun var þýðingarlaus, vegna þess að gildandi lög ná ekki yfir slíkt. Danir urðu að breyta sínum lögum til þess að þau næðu til slíkra tilfella. Auðvitað féll sýknudómur í málinu, og blöðin hafa öll talið hann lögfræðilega réttan, og nú ber hæstv. dómsmrh. sjálfur fram lög, er nái yfir slík tilfelli, eins og Danir urðu að gera. Þetta er ekkert annað en herfileg pólitísk misbeiting ákæruvaldsins. En þegar blað kommúnista birti í fyrra þýzka samninginn í óleyfi, sá hæstv. ráðh. ekki ástæðu til málshöfðunar né heldur út af hinum svívirðilegu skrifum Jónasar Jónssonar um Spánarsamninginn.

Þá talaði ég um málshöfðunina gegn Ólafi Þorvarðssyni, forstjóra sundhallarinnar. Það er gersamlega rangt hjá Nýja dagblaðinu, að ég hafi átalið það, að dómsmrh. lét höfða mál gegn þessum manni. En hitt átaldi ég harðlega, að á meðan málið stóð yfir, skyldi dómsmrh. leyfa sér að lána Nýja dagblaðinu málsskjölin til árása á hinn ákærða með allskonar rangfærslum og útúrsnúningum. Hæstv. ráðh. hefir sjálfur játað fyrir mér að hafa gert þetta. Þetta er svívirðileg misbeiting ákæruvaldsins.

Þá minntist ég einnig á það, að hæstv. ráðh. hefði stungið undir stól kæru áfengisvarnarnefndar á Guðbrand Magnússon forstjóra fyrir að selja áfengi á ólöglegum tíma, meðan bílstjóraverkfallið stóð yfir. Hæstv. ráðh. gat ekki hnekkt þessum ásökunum með einu orði. Ég endurtek því þá ásökun mína, að hann hafi oftsinnis og stórkostlega misbeitt ákæruvaldinu í ráðherratíð sinni.

Hæstv. ráðh. færði m. a. sér til málsbóta, að aldrei hefði verið ráðizt á sig á eldhúsdegi fyrir þetta. En það hefir ekki verið af neinu öðru en því, að af nógu öðru hefir verið að taka. Það gegnir líka furðu, að þessi ráðh. skuli gera kröfu til þess að vera talinn flekklaus og réttlátur, sem kveðið hefir upp dóm yfir pólitískum andstæðingi sem lögreglustjóri, sem mikill meiri hluti þjóðarinnar vissi, að var rangur.

Annars fór sem mig varði, að hæstv. forsrh. myndi grípa til sinna gömlu aðferðar, að ráðast á fyrirrennara sinn í dómsmálaráðherrasætinu, hv. 1. þm. Skagf., í stað þess að svara fyrir sig. En hv. 8. landsk. gerði þeim árásum hans svo góð skil, að ég þarf þar engu við að bæta.

Hv. þm. Ísaf. stóð hér upp með miklum þjósti út af því, að ég las hér upp 4 kærur frá fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði á meiri hl. bæjarstjórnar. Þetta voru alvarlegar ákærur, og mér finnst ástæðulaust af hv. þm. Ísaf. að stökkva upp á nef sér, þótt ég læsi þar upp hlutlaust. Um ákærurnar á bæjarstjórn Vestmannaeyja hefi ég engu við það að bæta, sem hv. þm. Vestm. hefir þegar sagt.

Orlög þessa máls virðast nú ráðin hér í d. samkv. yfirlýsingu hv. 1. landsk. Þetta er því undarlegra, þar sem þetta var kosningamál beggja stjórnarflokkannna 1934. Það var á 4 ára áætlun Alþfl. og það var stefnumál Framsfl. samkv. ræðu, er hæstv. forsrh. hélt. En þegar þessir flokkar ná völdum, vilja þeir fyrir engan mun sleppa ákæruvaldinu úr höndum sér og afhenda það ópólitískum embættismanni.

Ég vil segja það að lokum, að ég held, að þessar umræður sýni betur en nokkuð annað nauðsyn þessa máls. Við höfum flutt rökstuddar ádeilur fyrir misbeitingu ákæruvaldsins á núv. og fyrrv. dómsmrh. Framsfl., án þess að þeir hafi getað hrundið þeim. Andstæðingarnir deila á fyrrv. dómsmrh. Sjálfstfl. fyrir hið sama. Þetta sannar það eitt, að eina ráðið er að draga ákæruvaldið úr höndum pólitísks ráðh. og afhenda það opinberum ákæranda.