20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (1423)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Ólafur Thors:

Það er skemmtileg tilhugsun fyrir þennan hv. þm., að hafa þannig fengið eilífðarheiðarleika- og dugnaðarvottorð, því að ég mun alltaf halda því fram, að hann sé óheiðarlegur og óduglegur. En lítill karlmennskubragur er á því, þegar hann er að reyna að snúa sig út úr því, hvers vegna hann hafi ekki viljað vera í ábyrgð fyrir skuldum útgerðarinnar á Ísafirði. Sú vörn hans var aumingjaleg, og ég veit, að hann ætlast naumast sjálfur til, að nokkur trúi því hér á þingi, að hann megi ekki borga ábyrgðirnar, nema félagar hans leyfi það.

Um verkamanninn, sem átti að hafa verið vísað á kosningaskrifstofu Sjálfstfl., þegar hann bað um vinnu í Kveldúlfi, skal ég taka það fram, að ég veit ekkert um þetta, en hitt veit ég, að það hefir aldei verið venja í Kveldúlfi, að spyrja um skoðanir. En það stappar nærri, að það veki hneyksli, þegar þessi maður, sem notar allt sitt vald sér og sínum flokksmönnum til pólitísks framdráttar, er að gera árásir á aðra menn fyrir slíkt athæfi.