20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (1428)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Jóhann Jósefsson:

Hv. 2. þm. Reykv. hreytti úr sér til sjálfstæðismanna hér í d., hvernig á því stæði, að við létum formann Sjálfstfl. standa hér sjálfan fyrir sínu máli. Hv. þm. ætti að vita, að þetta mál hefir verið rekið af honum og hv. þm. Ísaf. af svo óvanalegri persónulegri fólsku í garð formanns Sjálfstfl., hv. þm. G.-K. og bræðra hans, að það er eðlilegt, að þeir hafi orðið að snúast þar til varnar, af því að þeir hafa orðið fyrir svo hatramlegum árásum af hálfu þessara hv. þm. En hv. 2. þm. Reykv. þarf ekki að ímynda sér, að við séum hræddir við að ganga í berhögg við hann og hans skoðanir í þessu máli.

Hv. þm. hefir nú — ég veit ekki, hvort það hefir verið vísvitandi eða óafvitandi — í árás sinni á hæstv. fjmrh. flett ofan af tilgangi sínum og annara alþýðuflokksmanna með þessu frv. Hann sagði, að það hefði átt að vera upphaf að því, að gera upp allan togaraflotann, upphaf að gjaldþroti allra manna, sem að togaraútgerð standa. Tíminn er vel valinn. Það er hyggilegt hjá þessum herrum að ráðast á atvinnurekendurna á þessum erfiðustu tímum, benda á þá sem glæpamenn, óhófsmenn, vanskilamenn o. s. frv., eins og komið hefir fram við þessar umr., og hrópa: „Niður með þá. Og svo byggjum við ríkisútgerð á rústunum.“ Það er hægt, þegar svona stendur á, að koma glæpamannsnafni á svo að segja hvern einasta mann, sem við sjávarútveg fæst hér á landi, og enginn býst við, að riðið verði á garðinn, þar sem hann er lægstur. Þessir ofsafengnu menn, sem aldrei hafa lagt nokkurn eyri í togaraútgerð, geta auðvitað komið á erfiðleikatímum eins og þessum og bent á töp hjá þessum atvinnuvegi. Ég man ekki, hvaða óskapaorð það voru, sem þessi hálfbrjálaði þm. Ísaf. lét hér falla í gær. Hv. þdm. muna, hvernig sósíalistar hafa talað í þessu máli. Það hefir verið eins og þeir ætluðu alveg að sleppa sér, alveg eins og engin vitglóra væri í hausnum á þeim og þeir sæju ekkert nema eldrautt. Og þegar þeir sjá, að þeir geta ekki ráðið niðurlögum Kveldúlfs og Péturs og Páls, þá ætla þeir bókstaflega að sleppa sér. En ég skal segja ykkur, mínir herrar, að þótt þið talið hátt hér, þá trúir þjóðin ykkur ekki betur fyrir þessum málum en þeim, sem hafa hingað til við þau fengizt. Umr. þær, sem fram hafa farið hér, eru góð spegilmynd af því, hvernig fer, ef jafnaðarmenn fengju sínum vilja framgengt. Þá yrði það svo þing eftir þing, að þetta fyrirtæki yrði tekið í dag og annað á morgun til þess að koma þeim á kné. Þeir hafa lagt fram í frv.formi till. um að taka fram fyrir hendurnar á bönkunum og láta Alþingi grípa inn í, þegar því sýnist. En allir finna, a. m. k. allir þeir, sem reyna að líta eitthvað ofurlítið óhlutdrægt á málið, að hér er stefnt út á óheillabraut. En á það hefir verið bent af þeim, sem eru aðalsökudólgar sósíalista í þessu máli, bæði hæstv. fjmrh. og fleiri, að ef bankarnir gæta ekki skyldu sinnar í þessum efnum, þá hefir Alþingi beina leið til að skipta um stj. í bönkunum. Það getur skipt um bankaráð, ef því líkar ekki, hvernig þeir menn standa þar í stöðu sinni, og sett aðra, sem það treystir betur.

Ég skal svo ekki lengja umr., sízt eftir að hæstv. forseti hefir gefið mér bendingu um að láta máli mínu lokið. En ég vildi ekki láta því alveg ósvarað, er hv. 2. þm. Reykv. stendur hér upp með frýjunarorð í garð okkar, sem að mestu leyti höfum setið hjá fram til þessa.