18.02.1937
Neðri deild: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (1444)

17. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Þetta mál var afgr. á síðasta þingi með rökst, dagskrá, sem fól í sér, að breytingar þær, sem á því væru gerðar, virtust íþyngja í ýmsum greinum vátryggjendum, samanborið við þau skilyrði, er þeir byggju við nú, a. m. k. þeim, sem skipta við Sjóvátryggingarfél. Íslands. Voru mörg rök fram færð fyrir því, að þetta væri svo, og náðist því samkomulag um að fresta afgreiðslu málsins, en hinsvegar gengið út frá því, að málið yrði athugað á ný, áður en það yrði flutt inn í þingið aftur.

Nú skilst mér á grg., að frv. sé flutt óbreytt eins og skilið var við það á síðasta þingi. Þykir mér það miður farið, að svo skuli gengið á móti vilja hv. Nd. á síðasta þingi, að taka málið til athugunar að nýju, áður en það væri lagt hér fram, og reyna að finna annan og betri grundvöll að afgreiðslu þess, svo að kostur vátryggjenda yrði ekki gerður lakari en nú er hann. Vil ég því beina þeim tilmælum til n. þeirrar, sem fær málið til meðferðar og ég geri ráð fyrir, að verða muni sjútvn., að hún taki þetta til athugunar að nýju og kynni sér ástæður þær, sem til þess lágu, að málinu var vísað frá á síðasta þingi. Vænti ég þess, að hv. n. verði við þessum tilmælum, því að málið er mikils vert og þess, að frá því sé sem bezt og tryggilegast gengið, svo að ekki sé lengra gengið en þörf er á í því að íþyngja vátryggjendum, sem nú berjast í bökkum með sinn útgerðarrekstur.