17.02.1937
Efri deild: 3. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (1464)

7. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefir borið nokkuð á því, að til þess að komast hjá að greiða skemmtanaskatt hafa verið stofnuð málamyndafélög, og þau félög síðan ákveðið, að til þess að menn gætu komizt á skemmtanir, sem félagið héldi, skyldu menn greiða svokölluð félagsgjöld. En oftast nær eru þessi „félagsgjöld“ aðeins hluti af þeim eðlilega aðgangseyri að skemmtununum, og er þannig verið að komast hjá að greiða skemmtanaskatt. Á þessu hefir nokkuð borið víðsvegar. Gjaldheimtumenn hafa vakið athygli ráðuneytisins á þessu, ekki sízt tollstjórinn í Rvík, og hefir hann búið undir málið.

Ég óska, að málinu verði að umr. lokinni vísað til fjhn.