03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (1559)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Jóhann Jósefsson:

Ég hefði varla búizt við, að um þetta mál yrðu verulegar deilur við fyrstu umr. Það sýndist vera svo hóflega af stað farið í frv. um fjárframlög og annað af hálfu ríkis og bæja, að maður hefði ekki búizt við sérstökum ákúrum fra hæstv. fjmrh. um eitthvert ábyrgðarleysi út af því, að þetta frv. er fram borið. Ég finn það helzt að þessu frv., þó að ég sé einn meðflm. þess, að mér þykja vera heldur lítil fjárframlögin, sem þar eru ákveðin. Um það atriði var mikið rætt milli okkar flm. Það varð að samkomulagi, að flytja frv. eins og það er, en vitanlega hafa flm. óbundnar hendur um að koma fram með till. til eflingar þeim fésjóði, sem undir þessum framkvæmdum á að standa. Það er einkennilegt, þar sem það er vitað, að menn innan Sjálfstfl. eru einmitt sá hluti þjóðarinnar, sem að mestu leyti stendur fyrir atvinnu landsmanna, að svo miklu leyti sem hún er rekin fyrir reikning einstakra manna og félaga, að flm. þessa máls skuli fá sérstök skútyrði frá hæstv. ráðh. fyrir að koma fram með þessar mjög svo hóflegu till., á þeim erfiðu tímum, sem nú standa yfir, til þess að reyna að leysa vandamál unga fólksins í kaupstöðum landsins, sem nú veit ekki, hvað það á við tímann að gera. Það er einnig einkennilegt, að skútyrði skuli koma til okkar sjálfstæðismanna frá alþýðuflokksmönnum fyrir þetta frv., sem eiginlega aldrei sjá nein lifandi ráð í þessu efni, nema að lifa og deyja upp á kóngsins náð, og aldrei dýfa hendi sinni í kalt vatn til þess sjálfir að leggja fé sitt eða lánstraust í hættu til þess að halda uppi atvinnu á neinum stað. Ég álít að okkur sé eins heimilt og alþýðuflokksmönnum hér á Alþ. að koma fram með skynsamlegar till. til þess að leysa vandamál atvinnuleysis ungra manna, og það jafnvel þó að hv. 9. landsk. hafi hreyft eitthvað till. í þessu efni.

Annars geta þeir, sem sjálfir hafa staðið í sporum atvinnulausa unglingsins á sínum tíma, bezt fundið til með þeim hóp unglinga hér á landi, sem sér fram á heldur dapra framtíð út af atvinnuleysi. Þegar ég var unglingur, var það eitt mesta áhugamál mitt að komast í atvinnu einhversstaðar. En þó var það ólíkt þá, hvað fleiri vegir stóðu opnir fyrir mönnum utan lands og innan til þess að hjargast áfram, heldur en nú. Þess vegna er mjög nauðsynlegt, að reyna að gera eitthvað á fleiri en einu sviði til þess að leysa þetta vandamál.

Hæstv. fjmrh., sem var að tala um ábyrgðartilfinningu sjálfstæðismanna í þessu máli, bar helzt kvíðboga fyrir því, að málið væri þannig fram borið, að mér skildist, að framkvæmdum á lausn þess yrði þannig hagað, að draga mundi menn frá sjálfu atvinnulífinu, og varaði við því, að ganga of langt í þá átt. Þetta var svo skýrt af hv. 9. landsk. þannig, að ráðh. hefði viljað leggja aðaláherzluna á fræðsluhlið málsins. Það þýðir, að mér skildist, svona á leikmanns íslenzku það, að hafa þetta meira í skóla- og kennsluformi en minna í vinnu- og atvinnuformi. Um það kunna að vera deildar skoðanir, og sjálfsagt þarf hér hvorutveggja til að koma. En ekki get ég tekið undir það með hæstv. fjmrh., að hér sé nokkur hætta á því, að unglingar verði, með framkvæmdum ákvæða þessa frv., dregnir frá sjálfu atvinnulífinu. Ég get því miður ekki tekið undir þetta. Það er nú svo komið fyrir atvinnuvegum þessa lands, og það ekki hvað minnst fyrir atbeina manna eins og hæstv. fjmrh. og annara stjórnarvalda, að atvinna, bæði fyrir yngri og eldri, er sífellt í hnignun í landinu. Svo að það er sízt af öllu hætta á því, að þó að hundruð, og mér liggur við að segja þúsund, af ungum mönnum væru að einhverju leyti teknir upp á arma hins opinbera, annaðhvort samkvæmt þessu frv. eða því frv., sem lagt hefir verið fram af hv. 9. landsk., eða einhverjum lögum, að það geti nein hætta stafað af því, þó að ungum mönnum verði séð fyrir atvinnu á þann hátt, vegna þess, hve ömurlega er komið atvinnuástandinu í landinu.

Hér hefir verið talsvert um það metizt, hvort einhver byrjun frá hendi atvmrh. hafi upphaflega hrundið af stað undirbúningi og framkvæmdum til þess að sjá ungum mönnum fyrir atvinnu hér í Reykjavík, og ólíkir dómar á það lagðir. Ég hefi ekki fylgzt með þeim atburðum. Ég veit ekki, hvar þessi hugmynd hefir komið upp fyrst. En eitt er víst, að bæjarstj. Reykjavíkur hefir framkvæmt þetta mál. En hæstv. atvmrh. ætti að hafa það hugfast, að þó að það sé nauðsynlegt og gott að rétta við það ófremdarástand, sem atvinnubjargráð landsmanna eru komin í, þá ætti fyrsta boðorð landsstjórnarinnar að vera, að hjálpa atvinnuvegum landsmanna, því að með því verður bezta atvinnubótin framkvæmd, ekki eingöngu fyrir þá yngri menn í landinu, heldur einnig fyrir þá, sem ekki lengur geta talizt ungir.

Að svo mæltu vil ég vonast til þess, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, geti annaðhvort afgr. það með þeim umbótum, sem ég teldi að það þyrfti, eða þá, ef fleiri till. liggja hér fyrir og komið verður á framfæri við hv. d., að málið í heild fái þann byr hjá hæstv. Alþ., að ekki lendi við það eitt, að deila um, hverjir hafi fyrstir komið með þetta mál á dagskrá, eða um hitt, hvort sjálfstæðismenn yfir höfuð megi hreyfa svona máli eða ekki, heldur geti Alþ. orðið sammála um skynsamlega og viðunandi lausn á málinu.