10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (1595)

63. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Jóhann Jósefsson:

Ég þakka hv. n. fyrir, að hún vill greiða fyrir þessu máli. En út af ræðu hv. 6. landsk. vil ég taka fram, að á undanförnum árum hefir Alþ. viðurkennt, að viðvíkjandi vörugjaldi hefðu Vestmannaeyjar séraðstöðu. Um þörf Vestmannaeyjakaupstaðar fyrir, að ekki rýrist tekjur hans, ætti ekki að þurfa að fjölyrða við mann úr Alþfl., því svo opinbert er, hvernig málgögn þess flokks hafa lagt sig í líma með að gera sem augljósast, hve Vestmannaeyjar væru fjárhagslega illa stæðar; en ég skal ekki vekja gamlar deilur um það mál. En mér finnst það raunalegur endir á starfi þeirra hv. þm., sem ríkisstj. skipaði í milliþingan. til að finna leið fyrir aukna tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, að þeir skuli ekki láta sér nægja að standa tvístraðir um sínar till., heldur leggist á móti því, að bæjarfélög fái að halda þeim tekjustofnum, sem þau hafa haft áður.

Vona ég svo, að d. leyfi frv. að halda áfram.