18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Jónas Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði áðan. Hann álítur, að ég vilji opna sjóðinn á sama hátt og þeir flm.brtt. 99. Þetta er ekki rétt. Ég vil nota eftirstöðvarnar í sjóðnum til þess að fullnægja lánbeiðnum þeirra, sem löglega áttu rétt á að fá úr sjóðnum, en ekki var hægt að sinna, en ekki opna hann fyrr en þessar umsóknir hafa fengið fullnægjandi afgreiðslu. Það er mikill munur á þessu og því, sem þeir leggja til, að sjóðurinn verði opnaður fyrir öllum þeim 115 sveitarfélögum, sem ekki notuðu sér þessa heimild.

Það er grunur minn, að þetta fé muni ekki hrökkva til bæði handa þeim kaupstöðum, sem ekki fengu rétting sinna mála í fyrra, og handa þeim sveitarfélögum, sem búast mætti við, að sæktu um skuldaskil. En ég geri þó ráð fyrir, að nokkurt fé yrði eftir þegar búið væri að láta þessa kaupstaði fá fullnægjandi afgreiðslu, og mætti þá veita það þeim sveitarfélögum, sem árin 1936 eða '37 hafa orðið fyrir þungum búsifjum, og álít ég, að þingið ætti að trúa stj. fyrir því. En ég vil taka það fram, að ætti að opna sjóðinn, þá er þetta fé of lítið. Og það má gera ráð fyrir því, að kaupstaðirnir, sem hafa gefið eftir svo hundr. þús. skiptir til sveitarfélaganna, fái þá einnig heimild til þess að fá lán úr þessum sjóði.