19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (1624)

68. mál, fasteignamat

*Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þau l., sem nú gilda um fasteignamat, eru frá 1915, 1922 og 1931. Í þessum l. er ætlazt til þess, að fasteignamatsnefndir séu í hverri sýslu, sem með 10 ára millibili meti allar fasteignir með tilliti til skatts, sem af þeim sé greiddur. Ennfremur er í þeim ætlazt til þess, að yfir þessari n. starfi yfirmatsm. í hverju umdæmi, sem yfirfari mat undirfasteignamatsn., lagfæri það og samræmi. Síðan l. um þetta frá 1915 voru samþ., hafa farið fram tvö fasteignamöt. Það hefir sýnt sig við framkvæmd þeirra beggja, að það hefir verið mjög mikið ósamræmi í matinu, sérstaklega milli lögsagnarumdæma. Til þess að ráða bót á því, var horfið að því ráði, að setja nokkurskonar landsyfirmatsn. til þess að breyta mötunum og samræma þau. Þetta hefir að einhverju leyti tekizt. Þó er mér það ljóst af starfi mínu í landsyfirfasteignamatsnefndinni síðari, að þetta takmark hefir ekki náðst til fulls með landsyfirmatsn., enda þótt matið hafi í sumum matsumdæmunum verið lækkað um ? til samræmingar við önnur umdæmi.

Í l. þeim, sem nú gilda um fasteignamat, er ætlazt til, að á milli aðalmatanna, sem eiga að fara fram með 10 ára millibili, skuli fara fram millimöt, sumpart á nýbyggingum, og í öðru lagi geta þau farið fram, sé þess óskað af eiganda eða því opinbera, af því að fasteignir hafi breytzt vegna ytri skilyrða, sem taka verður til greina í mati. Þessi möt eiga nú að framkvæmast af úttektarmönnum og hreppstjórum eða, þar sem þeir eru ekki, af sérstökum til þess kjörnum mönnum. Svo mikið sem ósamræmið hefir nú verið í aðalmötunum, þá hefir þó ósamræmið í millimötunum verið miklu meira, því að þar munar stundum meira en helmingi, sem hús eru misjöfn í mati, þótt þau séu jafnvel byggð eftir sömu teikningu og séu að því er virðist eins eða ákaflega lík. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr., eru í fyrsta lagi færð saman l., sem til eru um fasteignamat, og í öðru lagi er með því reynt að ráða bót á þeim göllum, sem komið hafa fram í matinu, án þess þó að aukin séu útgjöld ríkissjóðs. Þvert á móti mun það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, spara ríkissjóði útgjöld. Það, sem horfið er að með þessu frv., er fyrst og fremst það, að leggja niður yfirmatsn. heima í sýslunum. Yfirmötin heima í sýslunum breyta yfirleitt lítið undirmötunum, og þegar þau breyta undirmötunum, þá eru þær breyt. sízt til bóta. Við síðasta fasteignamat var undirmötunum aðeins á þrem stöðum breytt verulega af yfirfasteignamatsnefndum í sýslunum. En þegar svo landsyfirfasteignamatsnefnd fór að lesa yfir plöggin, komst hún að þeirri niðurstöðu, að undirmatsnefndirnar, sem komið höfðu á hverja einstaka fasteign og skoðað hana, væru yfirleitt miklu nær því rétta í matinu heldur en sýslumatsnefndirnar, sem höfðu heima hjá sér breytt þessum mötum án sérstaks kunnugleika á málunum. En þessi sýsluyfirmöt hafa kostað milli 16000 og 17000 kr. í annað skiptið, er fasteignamat hefir verið framkvæmt, en um 20000 kr. í hitt skiptið. Þetta fé mun fyrst og fremst sparast með þeirri breyt., sem hér er farið fram á.

Ég geri nú ráð fyrir, að eitt af því fáa, sem færa má fram því til gildis, að hafa þessi yfirmöt heima í sýslum, sé það, að hægra sé fyrir menn, sem óánægðir eru með undirmötin, að skjóta málum sínum til þeirra heldur en til yfirfasteignamatsn. þeirrar fyrir allt landið, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, að vinni að því, að samræma mötin um leið og þau verða framkvæmd þannig, að hún hafi hönd í bagga með, á meðan undirmatsn. starfa, til þess að fá mötin sem bezt samræmd. En eins og nú er komið staðháttum og samgöngum hér á landi er ekki hægt að segja annað en að kvörtunum yfir ósamræmi á milli mata á jörðum sé vel hægt að skjóta til slíkrar n., þannig að þess vegna sé ekki þörf á yfirmatsn. heima í sýslunum. Auk þess, sem þessari yfirfasteignamatsn. fyrir allt landið er ætlað að vera í verki með um undirbúning undirmatanna og samræming þeirra, á meðan verið er að framkvæma þau, er henni líka ætlað að samræma undirmötin, því að eins og tekið hefir verið fram, er í frv. till. um að leggja niður sýsluyfirmatsnefndirnar. Þar að auki er formanni yfirfasteignamatsn., sem gert er ráð fyrir, að verði fastur maður, falið að vera yfirmaður þeirrar n., sem framkvæmir millimöt hér í Reykjavík. En þau möt hafa kostað ríkissjóð 4000 til 7000 kr. á ári hverju. Sá kostnaðarliður mun því sparazt, verði frv. þetta að lögum. Það sparazt því á hverjum 10 árum 20000 til yfirmatsnefnda og 40000 til 70000 til millimata í Reykjavík. Í staðinn koma aftur útgjöld við landsyfirfasteignamatsnefndina.

Auk þess, sem aðaltilgangur frv. þessa er sá, að fá meira samræmi í mötin og minnka kostnað við framkvæmd þeirra, þá er líka hugsað, að með breyt. frv. á skipun þessara mála fáist betri grundvöllur en nú er til undir framtal manna til eignaskatts. Nú er það svo um fjöldamargar jarðir hér á landi, að í matinu kemur ekki fram nema hús og land, og út í dálkinn „alls“ samanlagt verð þess og meira ekki. En oft eru húsin eign jarðareiganda að nokkru leyti, en ábúanda að öðru, og er ætlazt til, að það verði nú sundurliðað. Þar að auki er oft mikið álag, sem hvílir á jörðum. Mesta álag, sem hvílir á jörð hér á landi, mun vera mikið á þriðja þús. kr. En þessar eignir koma hvergi fram í matinu nú. Þessar eignir, álag á jörðum, er gert ráð fyrir með þessu frv., að séu teknar til greina við fasteignamatið, til þess að bæði yfirskattan. og aðrir geti haft þær til hliðsjónar við störf sín.

Ætla ég svo ekki að hafa fleiri orð um frv. að sinni. Ég geri ráð fyrir, að ýms atriði þess skýrist betur við 2. umr. — Þótt þetta mál sé að nokkru leyti landbúnaðarmál, þá snertir það einnig marga aðra en þá, sem við landbúnað fást. Þess vegna finnst mér málið eiga helzt heima hjá fjhn., og geri ég það að till. minni, að frv. verði að umr. lokinni vísað til þeirrar n.

Að síðustu vil ég svo benda hv. þdm. á það, að nú nálgast óðum sá tími, er næsta fasteignamat á fram að fara, eigi því að verða lokið fyrir árið 1940, eins og lög mæla fyrir. Þess vegna má ekki dragast, að lög verði sett um fasteignamatið, sem tryggi betur en núgildandi lög, að meira samræmi komi fram í fasteignamötum, bæði landsmötum og millimötum; en í hinum síðarnefndu á sér stað hið mesta ósamræmi, eins og nú standa sakir. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. líti eins á það mál og ég, að þetta beri að reyna að tryggja.