09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (1694)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég þarf ekki miklu að svara hv. 1. þm. Skagf., þar sem mér virðist hann vera mér sammála í aðalatriðum þótt hann vilji ekki láta málið bíða. Ég geri engan veginn upp á milli manna þeirra, sem hér er um að ræða. Ég veit, að enginn þeirra hefir brotið það af sér, að þeim beri að synja um ríkisborgararétt af þeim ástæðum.

Hv. 1. þm. Skagf. virðist vera að finna að því, að þetta væri ekki stjfrv., heldur hefði ég sent það til Alþingis. Þetta er rétt. Ég vildi ekki bera málið fram sjálfur, en ég skal játa, að ég hefði átt að fylgjast betur með því hér í þinginu.

Eins og ég sagði síðast, er þetta mál var rætt hér, álít ég, að við höfum undanfarið gengið of langt í veitingu ríkisborgararéttar, og þegar menn athuga málið, munu þeir sjá, að Alþingi hefir verið hér á rangri braut. Við Íslendingar þurfum ekki að láta okkur detta í hug, að við fáum ríkisborgararétt í Noregi eða Þýzkalandi eftir 5–10 ára dvöl þar. Það er engin ástæða til þess, að við höldum landi okkar opnara en aðrir sínum. Með því að veita þessum mönnum ríkisborgararéttindi, tökum við þá að okkur, meðan þeir lifa, svo að það er ekkert smáræði, sem um er að tefla. Ef hv. 1. þm. Skagf. er mér sammála um það, að eftirlitið eigi að vera strangt, verður hann að játa, að það er ekki strangt, að veita öllum ríkisborgararétt, sem hér hafa dvalið í 10 ár. Við getum leyft útlendingum að vinna hér í 10 ár, án þess að veita þeim ríkisborgararétt á eftir, en til þess verður að taka upp nýjar reglur. Þessu er ekki beint gegn neinum sérstökum manni, en þetta er í samræmi við það, að ég hefi beitt mér fyrir því hér á þinginu áður, ásamt mönnum úr öllum flokkum, að teknar yrðu upp strangari reglur, enda var í það skipti frestað að taka ákvörðun um 4–5 menn. Mér finnst, að þeir menn, sem nú er um að ræða, geti vel beðið til næsta þings, þegar búið er að framkvæma hér upptalningu á útlendingum samkv. lögum, sem samþ. voru fyrir 2 árum.