16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (1708)

83. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Ég get ekki sagt neitt um þessa brtt. fyrir hönd n., þar sem hún hefir ekki verið undir hana borin. Ég get bara sagt það, að ég býst við, að umsókn þessa manns mundi ekki hafa verið tekin til greina, ef skjöl hans hefðu legið fyrir n., af þeirri einu ástæðu, að hann flutti ekki til landsins fyrr en í júlí 1928 og er þannig ekki búinn að vera búsettur hér í full 10 ár. Í l. um veitingu íslenzks ríkisborgararéttar stendur, að heimilt sé að veita þeim mönnum ríkisborgararétt, sem búsettir hafa verið hér á landi 10 ár eða meira samfleytt. Hitt er rétt bjá hv. 1. þm. Eyf., að þau l. hafa ekki grundvallarlagarétt, svo að Alþingi er heimilt að víkja frá þeim í nýjum l., en það hefir n. ekki lagt til, að gert yrði, hvorki í ár eða fyrra. Hitt skal ég viðurkenna, að það er leiðinlegt, að það skuli koma fyrir, að skjöl tapist svona, og væri e. t. v. rétt að bæta manninum það upp með því að veita honum nú þennan rétt. Þessi 10 ára tími er náttúrlega tiltekinn af handahófi og skiptir ekki miklu máli út af fyrir sig. Og þar sem upplýst er, sem ég ekki rengi, að þessi maður sé eiginlega orðinn Íslendingur, er giftur íslenzkri konu, talar rétt íslenzkt mál og hefir ekki í hyggju að fara af landi burt, þá get ég sagt fyrir mitt leyti, að ég mun ekki setja mig á móti því, að hann fái ríkisborgararétt.