02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (1778)

89. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Flm. (Jónas Guðmundsson):

Þetta frv., sem ég flyt hér, var tekið til umr. í þessari deild í fyrra. Þá var, eins og öllum er kunnugt, skipuð 3 manna nefnd til þess að gera till. um tekjuöflun fyrir bæjar- og sveitarfélög. N. lagði fram vel undirbúið frv. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga. En þm. gátu þá ekki fallizt á þær till., og frv. var svo eyðilagt í Ed. Það þótti ekki við eiga að fara að halda áfram þeirri starfsemi, sem hafði verið á afgreiðslu þess í n., svo það dagaði uppi og varð því ekki að lögum í það sinn.

Sá kafli, sem mest var deilt um í fyrra, var kaflinn um vörugjöldin. Nú var þessi kafli felldur úr frv. í fyrra, og var því talið rétt að taka hann upp í þetta frv., en þó nokkuð breyttan frá því, sem gert var ráð fyrir í fyrra. — Eftir að frv. hafði fengið þessa útreið hjá Alþingi í fyrra, þá var það ráð tekið, að senda frv. eins og það lá þá fyrir þinginu til allra bæjar- og sveitarstjórna til umsagnar. og jafnframt var þess óskað, að þær gerðu till. um öflun tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög og hvar hentugast væri að leggja þá á. Nú hafa flestar bæjar- og sveitarstjórnir svarað þessu. Ég hefi þau svör og get látið þau í té þeirri n., sem fær frv. til meðferðar. Samt sem áður geri ég ekki ráð fyrir, að allshn. muni fara ýtarlega gegnum þessi skjöl, en það höfum við gert. Niðurstaðan af þessum svörum varð sú, að undantekningarlaust óskar hvert einasta kauptún og kaupstaður eftir að fá að innleiða vörugjöldin. Svo eru nokkrar bæjar- og sveitarstjórnir, sem ekki hafa svarað. En hinsvegar eru flest öll svör hreppstjórna í þá átt, að þau eru andvíg vörugjöldunum og telja það vera beinan neyzluskatt á sveitirnar. Hreppstjórnir hafa ekki enn komið með eina einustu till., þar sem bent hefir verið á nýjar leiðir í þessu máli, og engin þeirra hefir verið frambærileg til nýrrar löggjafar.

Það er sýnt, að þær till., sem mþn. bar fram í þessu máli í fyrra, eru það eina, sem hægt er að bera fram og að nokkru gagni kemur fyrir sveitarfélögin. Það er ekki hægt að taka svar sem eitt einstakt sveitarfélag sendir og sníða úr því lög, sem eiga að gilda fyrir öll sveitarfélög á landinu.

Ég skal lesa fyrir hv. þm. álit bæjarráðs Reykjavíkur um þetta frv. frá í fyrra. Það er rétt hjá bæjarráði Reykjavíkur, að þetta er eina gjaldið fyrir Reykjavík og alla aðra kaupstaði landsins. En þetta var fellt úr frv. í Ed. í fyrra. Bæjarráðið sá hinsvegar ekki neina aðra tekjuöflunarleið. Að vísu gera þeir till., um að Reykjavík fái meira af útsvörum ríkisverzlananna en ennþá er leyfilegt að taka af þeim, en það á aðeins við Reykjavík eina, og hvað snertir tóbaks- og áfengistollinn, þá gildir það aðeins um Reykjavík eina, svo að ekki kemur til mála, að gera það að löggjafaratriði. — Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta að lesa hér útdrátt úr svörum nokkurra kauptúna og kaupstaða viðvíkjandi þessu máli. Bæjarráð Reykjavíkur segir: „Í frv. er ekki um verulega tekjuauka að ræða fyrir Reykjavíkurbæ af öðru en vörugjaldinu skv. II. kafla. Þykir rétt að mæla með því, að þessi kafli nái fram að ganga þó ekki séu líkur fyrir því, að fært verði talið að ákveða, svo há vörugjöld, að bæjarsjóði Rvíkur muni verulega um þær tekjur“. — Hreppsnefnd Stykkishólms vill að vörugjald verði skv. III. kafla lagafrv., og renni 2/3 hlutar þess í sýslusjóð, og 1/3 hluti til viðkomandi hreppsfélags. — Ytri Akraneshreppur segir: „Nefndin telur það æskilegt, að með heimildarlögum yrðu leyfðar fleiri leiðir til tekjuöflunar handa hreppsfélögum, t. d. að heimilað væri að taka vörugjald af að- og útfluttum vörum í kauptúnum og e. t. v. fleira“. — Siglufjörður leggur til, að gjalda skuli í héraðssjóð 1% af verðmæti útfluttra sjávarafurða úr héraðinu.

Svona eru svörin frá kaupstaðar og sveitarstjórnum landsins, sem nú liggja fyrir. Og þótt menn haldi, að þungt verði að bera þessi gjöld, þá er eins og nú standa sakir ekki til önnur leið fyrir kaupstaði og kauptún til að fá fé í sveitar- og bæjarsjóði, sem hægt er að treysta, að þangað komi, og ekki kostar mikið að innheimta. Ég hefi tekið upp í þetta frv. I. kaflann, um fasteignaskatt, en þau ákvæði, sem þar eru tekin, veita ekki bæjar- og sveitarsjóðum auknar tekjur, svo að nokkru nemi. En sá kafli gerir annað; hann getur dreift útsvarsbyrðinni yfir á eignir bæjarfélaganna. Að vísu er heimilt að hækka gjaldið frá því, sem verið hefir áður, bæði hér í Reykjavík og annarsstaðar í kaupstöðum, en heimildin er svo rúm í frv., að fá bæjarfélög mundu nota sér það, nema því aðeins að þau væru að komast í greiðsluþrot. Þessi kafli frv. var samþ. í Nd. og Ed. í fyrra. og ég geri ráð fyrir, að fáir séu því andvígir, að sá kafli sé gerður að lögum. — Um vörugjaldið vil ég segja, í viðbót við það, sem ég hefi áður sagt um ráðstafanir fyrir því, að það er lagt á, að breyting, sem hér er gerð frá því í fyrra, er sú, eins og í þessari till. felst, að ætlazt er til, að það verði að fá leyfi ríkisstj. til að fá að leggja þessi gjöld á. Eftir frv. í fyrra var vörugjaldið þannig hugsað, að hver hreppsnefnd gat ákveðið, hvenær leggja skyldi þessi gjöld á. Þetta mætti nokkurri andstöðu í Ed. og var fellt í þeirri deild. En nú hefi ég látið frv. gera ráð fyrir því, að bæjarstjórnir uppfylli viss skilyrði til þess að tryggja það, að þetta gjald verði ekki lagt annarsstaðar á en þar, sem brýn nauðsyn er á. Frv. heimilar ríkisstj. að leyfa bæjarstjórnum og hreppsnefndum í kauptúnum, sem hafa yfir 500 íbúa, að leggja gjald á vörur, sem fluttar eru sjóleiðis að eða frá kauptúninu eða kaupstöðum. Þeir, sem stjórna jöfnunarsjóðum, verða að kynna sér vel fjárhagsástæður og afkomu bæjar- og sveitarfélaga landsins, og þau félög ganga fyrir sem að dómi sjóðsstjórnarinnar þurfa mestrar hjálpar við. — Frv. gerir ráð fyrir, að ef vörugjaldið er meira en nemur ¼ af þeim tekjum, sem bæjarstjórn eða hreppsnefnd áætlar, þá renni það í jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Ég veit, að sumir þm. hafa eitthvað við þennan kafla að athuga, en ég vildi, að þeir sömu þm. bentu á einhverjar aðrar leiðir til að rétta hag bæjar- og sveitarfélaga heldur en þessa leið, sem hér er bent á, því að allt tal manna um að taka tekjustofna ríkissjóðs og veita þeim til bæjar- og sveitarfélaganna, eins og nú er ástatt um hag ríkissjóðs, er svo fjarri öllu lagi, að það getur tæplega komið til greina. Þau gjöld mundu nema allt að 400 kr. fyrir öll bæjar- og sveitarfélög á landinu, og mestur hluti þess mundi lenda til Rvíkur, þar sem fasteignamat Rvíkur er mikill hluti af fasteignamati landsins, og með því yrði sáralítið gert til að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaga eins og þörf er á.

Ég geri ráð fyrir, að menn hafi strax tekið eftir því, að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir, að sveitarfélög þau, sem ekki eru kauptún, fái neinar aðrar tekjur en sinn hluta af því tillagi, sem kemur úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga, sem ætlazt er til að verði myndaður eftir III. kafla frv. með útsvörum þeirra fyrirtækja, sem þar eru talin og ég síðar mun minnast á. Ástæðan fyrir því, að svo er ekki, er sú, að vegna aðgerða síðasta þings gagnvart sveitafélögunum í landinu, þá hafa þau með breyt. á framfærslulögunum og með uppgjörinu í Kreppulánasjóði bæjar- og sveitarfélaga yfirleitt fengið þann létti, að þeim er miklu betur borgið í framtíðinni heldur en kaupstöðunum. Með þessari löggjöf, sérstaklega framfærslul., hafa kvaðir, sem áður hvíldu á hreppsnefndum sveitanna, færzt yfir á kaupstaðina og kauptúnin. Hinsvegar hefir kaupstöðum og kauptúnum ekki verið séð fyrir neinum tekjum á móti til þess að standa undir þeirri framfærsluskyldu. Þess vegna er í frv. lögð megináherzla á, að kaupstaðir og kauptún fái auknar tekjur, þar sem í hinum tilfellunum hefir verið lögð aðaláherzlan á að létta af sveitarfélögunum framfærslukostnaðinum, og síðar með uppgjörinu í Kreppulánasjóði hefir verið grynnt á skuldaþunganum, sem á þeim hvíldi áður, og skuldirnar komnar á þann grundvöll, að þær hvíla tiltölulega mjög létt á sveitarfélögunum. Það er því mín skoðun, og einnig sumra annara í n., að það, sem hér beri að gera fyrir þingið, sé að tryggja kaupstöðunum og kauptúnunum auknar tekjur til þess að standa undir þeim auknu byrðum, sem á þau hafa verið lagðar með lagabreyt. frá síðari þingum, Það er sjálfsagt, eins og gert er ráð fyrir í III. kafla frv., að ætla nokkurt fé til þess að skipta milli sveitarfélaga landsins og veita þeim á þann hátt nokkra ívilnun eða greiðslu, sem kemur til þeirra án nokkurrar fyrirhafnar og tekin er af fyrirtækjum og þeirri starfsemi, sem rekin er af ríkinu. Verzlunarfyrirtæki ríkisins eiga eftir þessum till, að greiða sama gjald og verið hefir til þeirra staða, þar sem þau hafa aðalbú og útibú, en auk þess eiga þau að greiða jafnmikið og þau nú greiða til þessara staða, sem á að skiptast milli allra bæjar- og sveitarfélaga landsins. Þá er lagt til, að síldarverksmiðjur ríkisins greiði 1/4% af andvirði seldrar framleiðsluvöru verksmiðjanna. Þetta gjald á að renna í sama sjóð. Ég vil benda á, að þegar gert er ráð fyrir í frv., að lagt sé á vörugjald, þá nær það gjald vitanlega til síldarverksmiðjanna og framleiðslu þeirra og kaupa þeirra á erlendum vörum. Með því að leggja á vörugjald, þá er fenginn af verksmiðjunum skattur, sem í flestum tilfellum nemur því, að lagt sé á þær upp undir 1/2% af seldri vöru verksmiðjanna. Það er ekki gert ráð fyrir að síldarverksmiðjur greiði sérstakt gjald í bæjarsjóð, þar sem þær hafa aðalstöðvar eða útibú, heldur greiði þær vörugjald samkv. II. kafla frv. og ¼%, sem skiptist milli allra sveitarfélaga landsins, Þá er gert ráð fyrir, að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, sem nú er undanþegið útsvari, en rekur þó geysimikla verzlun með saltfisk og aðrar aðalútflutningsvörur landsmanna, greiði ¼% í sama sjóð og ríkisverksmiðjurnar, enda verður ekki með neinum rökum á móti því mælt, að slík fyrirtæki eiga að vera útsvarsskyld. Grundvellinum undan fjármálum allra sveitarfélaga í landinu er kippt burtu, ef gera á mikið af fyrirtækjum þannig úr garði, að þau séu leyst undan allri útsvarsgreiðslu, en hún komi yfir á þá, sem lítið hafa með höndum og lítið bera úr býtum. Algengast hefir verið og er ennþá hér á landi að leggja meginþungann af öllum byrðum sveitarfélaga og kaupstaða á þá, sem stunda atvinnuna, en ekki þá, sem græða á atvinnurekstrinum. Til þeirra næst í svo fáum tilfellum.

Þá er lagt til, að Mjólkursamsalan greiði ¼% af samanlögðu andvirði seldrar mjólkur og mjólkurafurða, og gjaldið skiptist eins og áður er sagt. Þessi fyrirtæki voru í fyrra undanþegin því, að greiða útsvar og tekju- og eignarskatt. Því er haldið, að þau greiði ekki tekju- og eignarskatt. Það er því ekki lagt til, að þau l. verði numin úr gildi, heldur aðeins þau ákvæði, sem koma í bága við þetta frv. Það er gert ráð fyrir, að þetta renni í jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Það er ennfremur gert ráð fyrir, að árlega skuli úthluta úr jöfnunarsjóði 90% af árlegum tekjum sjóðsins til bæjar- og sveitarfélaga landsins, og það skuli gert á þann hátt, að ? hlutum sé skipt milli hreppa landsins og kaupstaða eftir íbúatölu og ? hluta skal varið til þess að greiða að fullu eða lækka lán hrepps- og bæjarfélaga og skiptast eftir till. sjóðsstjórnarinnar á sveitarfélögin eftir ástæðum á hverjum tíma. Þetta er sama og við höfðum í frv. í fyrra. Þó þannig að þá átti að skipta þessu öllu með tilliti til þarfa, en ekki eftir íbúatölu. Um tilhögunina á stjórn sjóðsins er það að segja, að hún er óbreytt, frá því sem áður var.

Ég þarf svo í rauninni ekki að fjölyrða um þetta frv. Ég hefi borið þetta frv. fram miklu meira til þess að það komi í ljós, hver afstaða Nd. er til vörugjaldsins, sem hún hefir ekki átt kost á að segja álit sitt um áður. Þessi deild fékk í fyrra ekki færi á að segja álit sitt um það, hvort hún vill heimila kaupstöðum og kauptúnum, sem þurfa og óska, að leggja á vörugjald. — Það eru líka tekin upp í þetta frv. atriði, sem ég fyrir mitt leyti tel nauðsynlegt og æskilegt að komist í framkvæmd að svo stöddu.

Einn nm. frá í fyrra, hv. 1. þm. Eyf., hefir flutt hinn partinn af frv. n. frá í fyrra í Ed., ef ég má svo að orði komast. Ég hefi ekki fylgzt með því, hvað langt það mál er komið þar. En ef það er þar enn og það er vilji þingsins, að reyna á einn eða annan hátt að tryggja sveitarfélögunum, sérstaklega kaupstöðum og kauptúnum, auknar tekjur, þá fyndist mér vel til fallið, ef þetta frv. fer í n., sem ég geri ráð fyrir, að verði allshn., að n. beggja d. héldu með sér fundi um þetta mál og athuguðu bæði frv., og svo væru búnar til úr þeim till., sem mætti gera ráð fyrir, að fengjust samþ.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. sæti nokkrum andmælum, en ég vil endurtaka það, sem ég sagði áður, að allir kaupstaðir landsins, sem svöruðn bréfum atvmrh., óska eftir vörugjaldinu. Á hverju þingi undanfarið hafa verið fluttar till. fyrir ýmsa kaupstaði og kauptún, um að fá að leggja eitthvert slíkt gjald á. Sérstaklega vil ég minna á, að bæjarstjórnin á Akureyri hefir einum rómi samþ. og skorað á þingið að samþ. l. um vörugjald. Ennfremur er það kunnugt, að flestir kaupstaðir landsins hafa á síðasta ári afgreitt fjárhagsáætlanir sínar með tekjuhalla í þeirri von, að Alþ. sæi þeim fyrir tekjustofnum á þessu ári.

Ég vænti því, að hv. allshn. taki þessar till. minar til velviljaðrar yfirvegunar, og ef hún hefir þar eitthvað betra fram að færa heldur en við, sem störfuðum í n. í fyrra, þá væri æskilegt, að hennar till. þar um kæmu fram.

Ég vil enda þessa ræðu mína á því sama sem ég byrjaði á og endurtaka, að ekkert sveitarfélag í landinu sem sendi till., og enginn þm. hefir komið fram með neitt annað, sem gæti leyst þetta mál, heldur en þær till., sem komu frá n. í fyrra.