30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (1799)

91. mál, hampspuni

*Páll Þorbjörnsson:

Hv. 2. þm. N.-M, og hv. 6. þm. Reykv., sem standa að þessu frv., hafa báðir tekið fram, hvað beri að telja sem ástæðu fyrir því, að rétt þykir að veita 10 ára einokunarleyfi. Ástæðurnar kemur þeim báðum saman um, að séu þær, að ef ráðizt sé í að koma upp þessu fyrirtæki, sé því hætta búin fjárhagslega, ef upp komi við hliðina á því annað samskonar fyrirtæki. Þeir hafa báðir tekið fram, að það muni ekki þörf fyrir meira af þessari vöru í landinu heldur en þessi verksmiðja getur framleitt, og henni sé hætta búin, ef annað innlent fyrirtæki færi að keppa við hana. Hv. 6. þm. Reykv. hefir aftur á móti veitzt að innflutnings- og gjaldeyrisn. og haldið því fram, að aðalhættan stafi af því, að hún leyfi ekki innflutning á línum nema að takmörkuðu leyti. Ef hf. Hampiðjunni stafar hætta af því, að fá annað fyrirtæki við hliðina á sér, — stafar henni þá ekki alveg eins hætta af því, að leyfður sé innflutningur á þessari vöru?

Innflutnings- og gjaldeyrisn. getur því litið á þetta frv. sem bendingu um að leyfa ekki innflutning á þessum vörum. Báðir aðstandendur þessa frv. hafa tekið fram, að frv. girði fyrir það, að önnur fyrirtæki en hf. Hampiðjan rísi upp til þess að keppa um framleiðslu þessara vara. Mér finnst þessi röksemdafærsla mjög einkennileg, ef þeir ætlast til, að eftir sem áður sé leyfður innflutningur á þessum vörum unnum.

Hv. 2. þm. N.-M. benti á, að það væri trygging fyrir því, að ekki yrði óhæfilega hátt verð á þessum vörum, að það væru útgerðarmenn sjálfir, sem stæðu að þessu.

Ég hygg, að það hafi verið hv. þm. Ísaf., sem tók það fram, að það væri lítil trygging fyrir, að þetta einkaleyfi væri ekki misnotað, þó að 2 eða 3 uppgjafaskipstjórar ættu það. Ég get ekki látið mér til hugar koma, þó að þeir einhverntíma hafi verið skipstjórar og borið umhyggju fyrir sjávarútveginum, að þeir telji sér skylt að láta sína hagsmuni í minni pokann gagnvart hagsmunum alls fjöldans. Mér þykir einkennilegt, að hv. 6. þm. Reykv., sem einhverntíma hefir skreytt sig með því nafni, að vera „talsmaður“ fiskframleiðenda í landinu, skuli tala máli fyrrv. fiskframleiðenda til þess að okra á nauðsynjum sjávarútvegsins, því að það er ómögulegt að líta öðruvísi á, en að þeim, sem er veitt einkaleyfi, verði sköpuð aðstaða til þess að slengja á iðnaðarokri á þessu landi. Ég er viss um, ef innflutnings- og gjaldeyrisn. hefir nokkurntíma verið gefin bending um það af Alþingi, að leyfa ekki innflutning á vissum vörutegundum, þá sé það með þessu frv., og ekki sízt fyrir það, að það er flutt af n., sem skipuð er mönnum úr öllum stjórnmálafl. Mér þykir ekki ósennilegt, að innflutnings- og gjaldeyrisn. væri það kærkomið, að geta hampað framan í þá menn, sem biðja um innflutningsleyfi fyrir þessari vöru, að á Alþingi hafi komið fram frv. til að veita einkaleyfi til 10 ára til þess að spinna þráð úr hampi.