12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (1899)

102. mál, félagsdómur

*Hannes Jónsson:

Hæstv. forsrh, talaði um það í ræðu sinni, að ég hefði aðallega rælt um Blinaðarfélag Íslands, en ég nefndi það að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. Reykv., þar sem hann var að tala um, að sósíalistarnir hefðu hvergi ráðizt inn á hagsmunasvið bændastéttarinnar.

Hæstv. ráðh. sagði, að í búnaðarfélagsdeilunni hefði skoðun framsóknarmanna sigrað. Það er dálítið skrítinn sigur, a. m. k. er það hálfgerð kaldhæðni örlaganna, að hann skuli sjálfur verða til þess á þessu þingi að bera fram frv. sem nemur úr I. kafla jarðræktarlaganna öll ágreiningsatriði, sem voru í sambandi við frv., þegar það var til meðferðar hér á þinginu í fyrra. Þessi sigur er þannig frá sjónarmiði hæstv. forsrh., að framsóknarmenn hafa tekið aftur það, sem þeir börðust mest fyrir í fyrra. Félagið verður nú sjálfstæð stofnun, sem hefir fullkominn rétt yfir sínum málum án íhlutunar ríkisvaldsins; það er meira að segja búið að nema ákvæðið um skipun búnaðarmálastjóra úr jarðræktarlögunum, eins og það var. Hæstv. ráðh. fór líka skakkt með tilvitnun viðvíkjandi sáttum þeim, sem urðu á búnaðarþinginu og skrifað var um í blaði Bændafl.; ég hefi það ekki við höndina, en þeir, sem hafa það með höndum, geta flett upp í 14. tbl. og þar er greinin, sem hæstv. ráðh. vitnaði í.

Hv. 1. landsk. staðfesti þá skýringu, sem ég hafði gefið á framkomu þessa frv. Það er nefnilega hin svokallaða kvöldúlfsveiki, sem hefir gripið stjórnarflokkana og valdið því, að Framsóknarfl. bar fram frumv. Það er á sama hátt borið fram af Framsfl. eins og Kvöldúlfsmálið af sósíalistum, til þess að sýnast fyrir kjósendum, þegar séð er, að þeir fá ekki lengur haldið völdunum í landinu, a. m. k. ekki fyrr en þeir hafa séð, hvaða dóm þjóðin leggur á verk þeirra við næstu kosningar. — Þá sagði hv. 1. landsk., að verkamenn nágrannalandanna væru misjafnlega ánægðir með verkamálalöggjöf sína. Ég get vel trúað því, og ég býst við, að í þessum lögum hafi forráðamenn verklýðssamtakanna, sem bera ábyrgð á stjórnarfarinu í þessum löndum, orðið að ganga nokkuð lengra í þessa átt en verkalýðurinn hefir viljað, en það sannar aðeins það, hversu rík nauðsyn er á fullkominni löggjöf um þetta efni. Hv. þm. benti á það, að í þessum frv. væri t. d. ekkert ákvæði um það, hvenær vinnudeilur væru lögmætar og hvenær ekki. Hv. 1. landsk. taldi það höfuðókost við þetta frv., að í því fælist ákvæði, sem hindraði verkamenn í mörgum tilfellum í því, að gera verkfall, þegar svo stæði á, að það þyrfti að vinna viðkomandi verk á stundinni. Þetta atriði sýnir einmitt, hversu nauðsynlegt það er að hafa löggjöf um þetta efni, því að verklýðssamtökin hafa oft reynt að setja á verkfall, þegar svo hefir verið ástatt fyrir atvinnurekendum, að þeim hefir verið nauðugur einn kostur að ganga að öllum kröfum, sem fram hafa verið bornar, hversu ranglátar sem þær hafa verið, aðeins til þess að koma í veg fyrir stórkostlegt tjón.

Þessar umræður eru nú að enda. Öllum landslýð mun vera það ljóst, að útvarpsumræður um þetta mál hafa ekki farið fram vegna þess, að flokkarnir telji svo nauðsynlegt, að mál þetta fái afgreiðslu á þessu þingi, heldur er málið aðeins borið fram sem pólitískt mál, kosningamál, eingöngu til að auka traust flokkanna meðal kjósenda.

Í þessu ljósi verður að skoða þetta mál, bæði frá hendi hv. flm. og aðstoðarmannanna, sósíalistanna, en þessi framkoma verður dæmd og léttvæg fundin af landsmönnum við komandi kosningar. — Góða nótt.