07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (1922)

105. mál, Byggingarsjóður sveitanna

Páll Zóphóníasson:

Hv. 7. landsk. og hv. þm. Borgf. halda því fram, að þótt þessar eignir, sem þeir eru hér að búa til fyrir kapítalistana, séu undanþegnar tekju- og eignarskatti, þá taki ríkið samt alla aðra skatta af þessum verðbréfum. Hverjir eru þá þessir allir aðrir skattar, sem ríkið leggur á þessi verðbréf, sem sleppa við tekju- og eignarskatt? Ég man ekki eftir þeim. (PO: Fasteignaskatturinn. Fjmrh: Ríkið leggur ekki fasteignaskatt á verðbréf). Ég man ekki til, að ríkið leggi fasteignaskatt á verðbréf. Til þess að það væri hægt, þyrfti að breyta l. Sá eini skattur, sem hugsanlegt væri, að næði til þessara bréfa, er þá útsvar. En þegar þessar eignir eru undanþegnar tekjuskatti og eignarskatti og þarf þar af leiðandi ekki að telja þær fram með tilliti til þess, þá gæti ég hugsað mér, að a. m. k. á stærri stöðunum væri erfitt að segja um, hverjir ættu þessi bréf.

Það, sem fyrir þessum hv. þm. vakir, þó að þeir nú hlaupi í þetta skjól, er að búa til sérréttindi, til þess að kapítalistar geti komið sínu fé fyrir, án þess að þeir þurfi að greiða af því opinber gjöld. Þess vegna er ég ákveðið á móti frv. í þessari mynd.

Þá segir hv. þm. Borgf., að húsið sé að úthluta öllu fé úr byggingar- og landnámssjóði fyrir þetta ár og margir haft orðið á biðlista. Af þessu dró hann þá ályktun, að það, sem ég sagði, að ef frv. okkar hv. þm. Mýr. væri samþ., væri hægt að byggja 50 húsum fleira á þessu ári væri bara vitleysa. Hann veit ekki til, að nokkursstaðar sé hægt að fá lán nema úr byggingar- og landnámssjóði. Hann veit ekki, að það er líka hægt að fá lán úr ræktunarsjóði, ef þeir hafa þann byggingarstyrk, sem frv. gerir ráð fyrir. Það var því ekki ég, sem fór hér með blekkingar, það var hann sjálfur, sem gerði það, eins og augljóst er af þessu, sem ég hefi nú bent á.