18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í C-deild Alþingistíðinda. (2068)

53. mál, Háskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Hv. flm. hefir rétt til að tala einu sinni oftar en ég, og hefir hann nú notað þann rétt óspart. Samt gat hann nú, sem vænta mátti, ekki útskýrt, hvernig sú reynsla, sem rektor á að fá með því að kjósa hann til 3 ára, á að geta komið honum að haldi, þegar hann er að setja skólann í fyrsta sinn, þ. e. a. s. að vinna sitt fyrsta verk sem rektor. Ég vil nú spyrja hv. þm.: Heldur hann, að sá rektor, sem nú er, hefði hagað sér á einhvern hátt öðruvísi, ef hann hefði ekki verið kosinn til 3 ára en til eins árs. Ég vænti, að hann svari þessu.

Þá sagði hann, að ég hefði fengið hugmyndina um happdrættið frá svindlurum, og Hannes Hafstein hefði neitað að bera það fram fyrir konung. Ég bar frv. fram einmitt til þess að kveða niður þessa hugmynd. En það er bezt fyrir hv. þm. að snúa sér til flokksmanns síns. hæstv. forseta Nd., og spyrja hann um það frv., sem hann var 1. flm. að hvað eftir annað. En ég lét rannsaka í Danmörku, hvernig heppilegast væri að koma svona happdrætti fyrir. Frv. var ekki afgr. í fyrsta skipti, sem það kom fram, en vegna þess að það hafði verið rannsakað, var hægt að bera það fram síðar án frekari undirbúnings. Ég geymdi þetta, vegna þess að ég vildi heldur bíða að bera málið fram. þangað til það hefði fengið nauðsynlegan undirbúning og þingið yrði þannig skipað, að trygging væri fyrir, að málið næði fram að ganga. Ég var samt dálítið smeykur um afdrif þess, þegar því var hent inn í þingið, en það bjargaðist betur en ég hélt, vegna þess að á bak við það stóð duglegur agitator frá stofnuninni og duglegir þm. eins og hv. þm. S.-Þ.

Þá var hv. þm. að tala um þá dæmalausu fásinnu, að ætla að hola háskólanum niður uppi á Skólavörðuholti, og var að skopast að því, að ég hefði staðið þar sjálfur með skóflu í höndum. Hann má gjarnan kasta rýrð á mig fyrir það, að ég hafi haldið á skóflu. Ég teldi mér enga minnkun, þó að ég hefði alla æfi verið að vinna með því þarfa verkfæri. En hver var þá kennslumrh.? Það væri gaman að sjá Tímablöðin frá þeim tíma með öllum þeim lofgreinum, sem þá voru skrifaðar um hv. þm. fyrir hans miklu hlutdeild í að útvega þarna ókeypis lóð fyrir Stúdentagarðinn, og með því var vitanlega um leið ákveðið, að háskólinn stæði þarna líka. Annars held ég, að hv. þm. hafi verið sú náðarsól, sem skein þannig, að allir gluggar vissu undan. En svo kom Knud Zimsen og stakk upp á að færa skólann á heldur rýmri stað. og var svo horfið að því ráði.

Hv. þm. sagði sem dæmi upp á, hvað lítið vit ég hefði á þessu máli, að ég sæi ekki einusinni, að það þyrfti mikinn undirbúning. Ég veit ekki, á hverju hann byggir þetta. Þegar byrjað var að reisa stúdentagarðinn, leyfði ég mér að vera á móti, að byrjað yrði þá strax á að koma honum upp, en hélt því fram, að fyrst yrði að planleggja alla lóðina. Hann var nú samt settur þar, sem hann er, og held ég, að það hafi tekizt sæmilega, en þó held ég, að hann sé heldur neðarlega. Hann er of nærri þessari götu, „grútarveginum“, sem hv. þm. nefnir svo, og sýnir með því hugarfar sitt, að vilja kalla götuna þetta. En þarna verður þó a. m. k. að vera akbraut framhjá háskólalóðinni. Ég held því, að það hríni ekki á mér, að ég vilji hroða þessu af, því að ég vildi einmitt rannsaka allt og undirbúa, áður en hafizt yrði handa um framkvæmdir.

Mér skilst, að hv. þm. telji sig fyrsta manninn, sem sá, að byggja þurfti háskóla. Það var svo sem eins og þegar hann fann Íþöku, þó að það hús hefði staðið langalengi. Það væri gaman að vita, hvað mörg erindi frá háskólanum hafa legið fyrir þinginu, þar sem bent er á nauðsynina fyrir að byggja háskólann. Það hafa sem sagt alltaf verið að komu álit og áskoranir um, hve aðkallandi væri sjá þessari stofnun fyrir betra húsnæði.

Um skipulag bæjarins skal ég ekki segja margt. Það getur vel verið, að Gjerlöff hafi fyrstur haldið þessu fram hér. verið getur, að skaði sé að gera Tjarnargötuna að mikilli umferðagötu, en að einu leyti er það þó skynsamlegt. Það er sem sé miklu ódýrara að breikka Tjarnargötuna út í tjörnina heldur en ef þarf kannske að rífa niður heil hús til að breikka götu, og það er áreiðanlegt, að þótt gerð yrði svo sem 2 m. breið uppfylling út í tjörnina til að breikka götuna, þá mundi enginn geta fundið út nemi með vísindalegum mælingum, að tjörnin hefði minnkað. En þegar hv. þm. er að tala um, að eigi að rífa niður heil bæjarhverfi, þá væri rétt að minnast á þjóðleikhúsið. Hver réði því, að það var sett á stað, þar sem ómögulegt var að sjá það?

Hv. þm. var mikið hrósað fyrir að hafa fengið ókeypis lóð, en svo þurfti að kaupa hús og lóðir og gera eignarnám og kosta stórfé til að fá blett til að geta séð leikhúsið á þessari ókeypis lóð. Það er eins og í sögunni um Molbúana, sem ætluðu að láta smalann reka storkinn úr akrinum, en smalinn hafði stóra fætur, svo að þeir létu átta menn bera hann, svo að hann gæti rekið storkinn burt. Þarna var fengin ókeypis lóð, sem var á svo óheppilegum stað, að varð að gera eignarnám á húsum og lóðum og verja til þess stórfé, svo að rúmið yrði nægilega mikið.

Annars er það fjarstæða, sem ég hefi aldrei heyrt, að ætti að framkvæma, að byrja á götunni niður við höfn. En húsin, sem standa þar, sem gatan á að liggja, eru smá timburhús, og það á að nota hvert tækifæri, þegar eitthvert þeirra er aflagt, til að rýma til á þessari línu, unz hægt verður að leggja alla götuna. Ég skal samt engan dóm á það leggja, hvort leggja skuli þessa götu eða hvort nauðsynlegt sé fyrir háskólann að fá hana.

Þá þarf ég aðeins að minnast á þau orð hv. þm., að ég hefði komizt að háskólanum með rangindum. Ég skil vel, að hann áliti það, fyrst hann telur menn réttast komna að slíkum embættum með því að neita að keppa, en ég aftur á móti tók þátt í samkeppnimi og sigraði. En mér er sem ég heyri, hvað hann hefði sagt, ef ég hefði neitað að keppa og síðan fengið embættið. Hann hefði sagt sem svo: „Sjáið, þarna er maðurinn, sem neitaði að taka þátt í samkeppnisprófinu, en fékk stöðuna samt og hefir þannig komizt ranglega að þessari stofnun“. Hv. þm. segir, að af því að ég keppti, hafi ég fengið stöðuna með rangindum, en sá, sem neitar að keppa, sé rétt að henni kominn, og þá væri sá líklega allra réttkjörnastur, sem keppti og felli svo í keppninni. Það væri sjálfsagt það alfullkomnasta eftir hans skilningi.

Þá var hv. þm. enn að sýna ást sína á háskólanum með því að sýna fram á, hvað hann væri lítilfjörlegur. Það þyrfti ekki annað en að líta á ritgerðirnar, sem fylgt hafa árbókinni til að sannfærast um það. Ég hefði gaman af, ef hv. þm. ætti kost á að lesa erlenda dóma um fjölda af þessum ritgerðum. Þær hafa margar verið lesnar úti um heim og vakið mikla athygli, og sumar verið lagðar til grundvallar í sinni grein, en sumar eru vitanlega léttari eða yfirlitsritgerðir. Ég vil t. d. benda á ritgerð, sem einn af prófessorum háskólans hefir skrifað í stórt útlent vísindarit, þar sem skrifað var um fólksfjölda í ýmsum löndum. Þessi prófessor skrifaði ritgerð um Ísland. Ég hefi séð marga dóma um þessar ritgerðir, og allir telja íslenzku ritgerðina bezta, en sumir telja þó, að danska ritgerðin komist til jafns við hana. Hv. þm. ætti að gleðjast yfir, að ekki skuli allt vera lítilfjörlegt hjá okkur, og að til skuli vera fræðimenn hjá okkur, sem geta skrifað slíkar ritgerðir. Ég vil aðeins nefna fá nöfn, t. d. Guðmund Magnússon. var hann kannske ekki vísindamaður? Eða Sæmundur Bjarnhéðinsson: Hann hafði heimsnafn. Eða Björn Ólsen eða Sigurður Nordal? Það er óþarfi að draga af okkur það, sem við eigum. Eða Helgi Tómasson, sem hv. þm. þekkir vel? Eða menn eins og Niels Dungal? Rockefellersstofnunin kann að meta hann betur en hv. þm. Háskólinn okkar á við svo slæm skilyrði að búa, að slíkt þekkist ekki við nokkurn annan háskóla, hvar sem leitað væri. En hann hefir átt marga vísindamenn, menn sem hafa haft heimsnafn og verið stofnuninni og þjóð sinni til hins mesta sóma, og það er ekki rétt af okkur að draga úr því á nokkurn hátt og gera minna úr okkur en þörf er á.

Þá fór hv. þm. að tala um stjórnina á skólanum og benti þar á sem einhverja fyrirmynd, að Wilson hefði verið kosinn kanslari fyrir einhvern stóran háskóla. En ég vil segja: Okkar litla háskóla hæfir sú einfalda stjórn. Hún hefir ekki komið háskólanum að baga.

Ég þakka svo hæstv. forseta fyrir þolinmæðina, þar sem þetta er aðeins stutt aths.