19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í C-deild Alþingistíðinda. (2082)

66. mál, húsmæðrafræðsla

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hefi athugað þetta frv. nokkuð og get látið í ljós ánægju mína yfir I. kafla frv. Að vísu má vera, að eitthvað megi hér um bæta, en yfirleitt virðist mér vera margt til bóta í þessu frv.

Það var nú orðið þannig með suma skólana, að þeir áttu erfitt uppdráttar. Þannig var ástatt um þann skólann, sem næstur er mér og var sjálfseignastofnun, að hann gat ekki starfað lengur vegna fjárskorts, nema hann fengi styrk frá ríkisjóði.

Ef þetta frv. verður að lögum, þá hverfur sú togstreita, sem verið hefir á milli héraða um styrk til skólanna. Það hefir verið um „slumpa styrki“ að ræða hingað til, en samkv. frv. þessu á að fastákveða styrkinn miðað við nemendafjölda, og ég held, að það fari miklu betur á því.

Ég vil nú samt minnast á örfá atriði við þá n., sem þetta mál fær til athugunar. Í 7. gr. frv. virðist mér ekki lögð áherzla á, að matreiðslukennslan fari fram úr innlendum afurðum, en það er nauðsynlegt, að það verði fastákveðið; það getur náttúrlega verið reglugerðaratriði, en ég tel heppilegast, að það verði sett inn í frv. — Að því er snertir ákvæði 8. gr., þá tel ég heppilegast, að það væri fastákveðið, að annar af þeim mönnum, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði valdir í skólaráð af stofnendum hlutaðeigandi skóla. verði valinn af hlutaðeigandi sýslunefnd þeirrar sýslu, sem skólinn starfar í. Nú er það svo um tvo af þeim skólum, sem frv. gerir ráð fyrir, Hallormsstaðaskóla og Reykholtsskóla, að það eru tvö sýslufélög, sem standa að hvorum; í báðum þeim tilfellum mundu tvö sýslufélög þurfa að ráða mann í skólaráð, og mætti gera það með þeim hætti, að sá, sem fengi hæstu samanlagða atkvæðatölu beggja sýslunefndanna, yrði kosinn í skólaráð. — Í 2. lið 9. gr. stendur, að skólaráð skuli ákveða tölu kennara og ráða forstöðukonu. Ég bið hæstv. forseta að afsaka, að ég fer út í einstakar gr. frv., en ég vildi bara benda á það, að ég tel heppilegra, að skólaráð réði einnig kennarana.

Fleiri atriði ætla ég ekki að fara út í að þessu sinni, þó að þau séu að mínu áliti nokkur fleiri, sem athugunar þyrftu við.

Ég vil að endingu endurtaka það álit mitt, að ég hygg, að I. kafli þessa frv., ef að lögum verður, geti orðið mörgum þeim skólum, sem nú starfa og eiga erfitt með að halda áfram starfsemi sinni, til bóta og eflingar.