20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í C-deild Alþingistíðinda. (2096)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Pétur Magnússon:

Það voru 2–3 atriði í ræðu hv. flm., sem ég vildi víkja aðeins að.

Ég benti á það í gær, þegar ég talaði, að mér sýndist, að eins mætti fara þá leið, að láta ríkissjóð búa einan að óbeinu sköttunum, en ef nauðsynlegt þætti að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaga, þá að lækka tekjuskattinn og gera þeim hægara fyrir að ná inn þeim tekjum, sem þeim væru nauðsynlegar. Hv. flm. gerði þá aths. við þetta, að sumsstaðar stæði þannig á, að gjaldendur sveita eða jafnvel bæja greiddu lítinn eða engan tekjuskatt, en samt sem áður væri nauðsynlegt að innheimta svo og svo miklar tekjur, til þess að hlutaðeigandi bæir eða sveitir gætu staðið undir sínum álögum, og sagði hann, að ekki væri þá óeðlilegt, að aðrir, sem betur væri stæðir, bættu á sig gjöldum fyrir þessi héruð, sem svo illa væru stæð. Þetta er allt saman rétt hjá hv. flm., svo langt sem það nær, en ég vil vekja athygli hans á því, að þetta gjald, sem um er að raða, verður nokkurskonar nefskattur. Þetta eru tollar, sem lagðir eru á almennar nauðsynjavörur fólks, eða a. m. k. almennt eru kallaðar nauðsynjavörur, eins og kaffi og sykur, að maður ekki tali um kornvörur og annað slíkt, og það er nú álitið, að einmitt þessar vörur séu ekki minna notaðar af því fólki, sem lægstar hafa tekjurnar og verstar fjárhagsástæður. Það er því augljóst mál, að þessi gjöld lenda einnig á þessum héruðum, sem eru svo illa stæð eins og hv. flm. var að lýsa hér í gær. Og ef það er fært að ná þessum gjöldum af fólkinu, sem ætlazt er til að ná með óbeinni álagningu, þá ætti í þessu tilfelli einnig að vera mögulegt að ná þeim með beinni álagningu. Mér finnst því, að þessi röksemdafærsla hans gegn því, að sömu tekjuöflunarleiðir séu farnar eins og verið hefir, sé heldur veigalítil, þegar af þessari ástæðu, að það er ætlazt til, að þetta sama fólk, sem útsvör nú eru lögð á, verði að borga þessa tolla, sem um ræðir í frv. En svo er annað, sem mér hefir náttúrlega aldrei dottið í hug að halda fram, að þar sem svo stendur á, að sveitir eða bæir geta ekki risið undir nauðsynlegum útgjöldum, t. d. fátækraframfæri, þá ætti að láta skeika að sköpuðu og láta fólkið deyja úr hungri. Vitanlega hefir mér aldrei komið til hugar að halda slíku fram, og sú leið hefir verið farin hingað til, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ríkið hefir hlaupið undir bagga, þar sem svona hefir borið að höndum. Kemur það þá ekki nokkuð í sama stað niður, hvort ríkið er látið halda þessum tollum, og hlaupi svo undir bagga með þessum héruðum, sem verst verða úti, eða tollarnir eru lagðir á beint til hagsmuna fyrir þessi héruð? Mér sýnist, að heildarútkoman á þessu muni verða sú sama, en það verður naumast véfengt, sem ég vakti athygli á í gær, að það er hentugra og umsvifaminna í framkvæmdinni að hafa hreina skiptingu á tekjuöflunarleiðunum. Hvaða skipting svo kann að vera sú heppilegasta, hefi ég ekki hugsað svo vel, að ég treysti mér til að taka neina ófrávíkjanlega afstöðu til þess. Hinsvegar hefi ég ekki komið auga á, að önnur aðferð væri heppilegri en að láta hreppsfélögin búa að beinu skottunum, svo sem verið hefir, en láta ríkið hafa óbeinu skattana.

Hv. flm. sagði, að vinningurinn við þessa breyt. væri sá, að innheimtan yrði frekar kleif, og hv. I. þm. Skagf. gat þess, að fjmrh. mundi ekki vilja lækka tekjuskatt til ríkisins til hagsbóta fyrir sveita- eða bæjarfélög. En ég vil vekja athygli á því, að vitanlega kæmi það í sama stað niður fyrir ríkissjóð, hvort tollar væru hækkaðir til hagsmuna fyrir hann eða tekjuskatturinn væri lækkaður um samsvarandi fjárhæð. Ég get ekki séð, að í raun og veru sé nokkur vinningur við þetta, hverjum augum sem á það er litið. Mér sýnist, að það hljóti alltaf að verða erfiðara í framkvæmdinni að koma á þessari tvískiptingu í tekjuöflunarleiðunum.

Út af því, sem hv. flm. sagði um skattinn, sem ráðgert er að leggja á einkasölurnar, vil ég aðeins segja, að það vakti aldrei fyrir mér, að skattleggja ætti einkasölurnar á sama hátt og einkafyrirtækin. Það er alveg augljóst, hver afleiðing mundi verða af því, að hún er sú, að svo að segja allar tekjur þessara fyrirtækja rynnu til bæjar- og sveitarfélaga, en eftir í ríkissjóð yrði ekki nema örlítið. En ég vil bara vekja afhyli á því, að það er langt bil á milli 10% og 100%, og maður gæti látið sér detta í hug að bera niður einhversstaðar á þessu langa svæði, sem þarna er á milli. Mér finnst, að það gæti ekki talizt óeðlilegt, sérstaklega þegar litið er á það, hvað mikill hluti af tekjum bæjarfélaganna hefir lent á verzlununum, að lagt væri á þessi fyrirtæki útsvar, sem næmi 20% af nettótekjunum. M. ö. o., að það mætti tvöfalda þennan skatt, sem stungið er upp á af hv. flm. Það má kannske segja, að þetta sé ekkert höfuðatriði fyrir bæjarfélögin, en ef haldið verður áfram á einkasölubrautinni eins og gert hefir verið á síðari árum, þá getur það orðið afarþýðingarmikið atriði, sérstaklega hér í Reykjavík. Og ég verð að segja það, án þess að mig langi til að leggja stein í götu Siglufjarðar í hans tekjuöflunarleiðum, að mér finnst það skjóta dálítið skökku við, hvernig hv. flm. hefir hugsað sér að skattleggja síldarverksmiðjur ríkisins. —

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða frekar um ræðu hv. flm. frá í gær. Það er margt í þessu máli, sem við erum alveg sammála um. Það, sem okkur greinir á um, er hvort ástæða sé til að fara inn á þessa skiptingu tekjuöflunarleiðanna, sem hér er gert, og hv. flm. hefir ekki getað sannfært mig um, að nokkur vinningur sé í raun og veru við þetta. Hitt er mér ljóst, að það er nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir til þess að gera bæjar- og sveitarfélögum það mögulegra heldur en verið hefir undanfarin ár, að afla þeirra tekna, sem þau þurfa, til þess að standa straum af sínum útgjöldum. Að því leyti erum við alveg sammála.