20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í C-deild Alþingistíðinda. (2097)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég er nú anzi hræddur um, að eins og afgreiðslan var á þessu máli í fyrra. ekki flóknara en það lá fyrir þá, að ekki verði auðveldara að afgreiða það nú eins og það er borið fram, þegar frv. er skipt í tvo parta, og ekki einu sinni svo vel, að báðir partarnir lifi og hrærist í sömu d. í einu. Ég hefi ekki haft tækifæri til annars en rétt að líta á það frv., sem borið hefir verið fram í Nd., og skal því ekkert um það segja, hvað þessir tveir partar bæta hvor annan upp. En ég býst við, að enginn geti orðið undrandi yfir því, þótt ég sem þm. Reykv. geti ekki litið með sérlegri ánægju á þetta frv., sem hér liggur fyrir, því að ég get ekki betur séð en að aðaltilgangur þess sé sá, að sækja peninga til Reykjavíkur til þess að létta undir með öðrum bæjar- og sveitarfélögum á landinu.

Tekjuöflunarleiðir þær, sem hér eru farnar, eru þrjár. Fyrir það fyrsta er hér farið fram á viðauka við nokkur aðflutningsgjöld, sem áætluð eru 450 þús. kr., og af því á að úthluta hlutum eftir mannfjölda milli sýslu- og bæjarfélaga landsins, og mér sýnist fljótt á litið, að þá sé þetta eiginlega eini parturinn, sem Reykjavík á að geta notið, þannig að nokkur vissa sé, af þeim 325 þús. kr., sem ætlazt er til, að aflað sé handa bæjar- og sveitarfélögum samkv. þessu frv. Það mun láta nærri, að það verði um 130 þús. kr., sem þannig koma í hlut Reykjavíkur, og er það náttúrlega tiltölulega mjög lítill hluti af þessu fé, og eins og reikningar Reykjavíkur nú eru orðnir, þá er þetta eins og dropi í hafinu, að fá 130 þús. kr. 1/3 hluti af þessu gjaldi á svo að renna í jöfnunarsjóð, sem talað er um í þriðja kafla þessa frv.

Önnur tekjuöflunarleið er svo gjald af verzlunarstofnunum ríkisins, sem er áætlað 100 þús. kr., og á þetta gjald allt að renna í þennan jöfnunarsjóð, en ekki í þá bæjasjóði, þar sem þessar stofnanir starfa. En 5% af nettóágóða skulu þessar stofnanir greiða í bæjar- og sveitarsjóði.

Þriðja tekjuöflunarleiðin er svo gjald af síldarverksmiðjum ríkisins, sem áætlað er 50 þús. kr., og á það gjald allt að renna til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, þar sem síldarverksmiðjur starfa, en ekki í þennan jöfnunarsjóð, — sennilega af því að engin þeirra er í Reykjavík! Mér sýnist því, að af þessum 823 þús. kr., sem afla á samkv. þessu frv., séu 130 þús., sem renna í bæjarsjóð Reykjavíkur. Hitt allt rennur ýmist í bæjarsjóði annara bæja eða í þennan jöfnunarsjóð. — Það er þá næst að athuga, hvaða möguleika Reykjavík hefir á því að fá úr þessum sjóði. Fyrirmælin um það eru mjög sanngjörn á yfirborðinu, því að það er talað um, að þau bæjar- og sveitarfélög, sem að dómi landsstj. þurfa mestrar hjálpar við, skuli styrkt úr þessum sjóði, og maður skyldi því ætla eftir útvarpsumr. og blaðaskrifum, að Reykjavík muni gleypa þetta að mestu leyti, því að eftir því, sem stjórnarflokkarnir segja, þá er Reykjavík á heljarþröminni. En það er bara svo einkennilegt, að alltaf, þegar afla á fjár, er farið til Reykjavíkur til að fá peninga, og ég býst við, að það muni verða sá endinn á dýrinu, sem mest verði að marka, þegar á að fara að úthluta úr þessum sjóði. Ég segi dýrinu út af sögunni um hundinn, sem dinglaði rófunni, en sýndi um leið tennurnar, svo að maðurinn vissi ekki, hverjum endanum hann átti að trúa. Hitt er annað mál, að það er ekki nema sjálfsagt, að athuga þær till., sem koma fram um að afla bæjar- og sveitarfélögum tekna en það má ekki taka það út þar, sem snertir vissa aðilja, en skilja hitt frá. Lauslega hefir mér reiknazt svo til, að af þeim 825 þús. kr. gjöldum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, myndi Reykjavík vera látin borga a. m. k. 500 þús. kr., en fá inn 130 þús. kr. og kannske einhverntíma þegar við, sem erum í þessari hv. d., erum orðnir gráhærðir, er röðin komin að Reykjavíkingum um að fá fjárveitingu úr jöfnunarsjóði. En ég ætla að vona það fyrir hönd bæjarins, að hann þurfi ekki að vera talinn hafa mesta þörf á að fá gjald úr jöfnunarsjóði, því að það á aðeins að úthluta þeim bæjar- og sveitarfélögum úr þessum sjóði, sem þurfa mestrar hjálpar við. Það er nú náttúrlega mikil huggun í því, að þessir nýju skattar, sem talað er um í þessu frv., eiga að verða til þess að lækka útsvörin, en það er bara útsvarsupphæðin á öllu landinu, sem kannske lækkar, en hinsvegar er mjög mismunandi, hve lækkunin yrði mikil á hinum einstöku stöðum. Frv. eins og þetta myndi ekki gera annað en stórhækka gjöldin á Reykvíkingum. Þeir yrðu að láta 3–4 kr. fyrir hverja eina, sem þeir fengju aftur.

Ég vil taka alvarlega undir það með hv. 2. þm. Rang. — eins og ég hefi oft látið í ljós hér áður — að það er ekkert vit í því, að fara ekki eins langt og mögulegt er eftir þeirri leið, að láta bæjar- og sveitarfélögin fá þá skattstofna, sem eru bundnir við viðkomandi pláss, svo sem skatt af tekjum og eignum og fasteignaskatt. Það er augljóst, að það á að bæta úr þörf bæjar- og sveitarfélaganna með þessum skattstofnum. Þegar það hrekkur ekki til, þá fyrst er hægt að láta sér detta það í hug, að láta einstök svæði fá tekjustofna, sem óhjákvæmilegt er að dreifa yfir víðara svaði. Mér finnst, að það mætti komast nokkuð langt með að bæta úr þessari þörf bæjar- og sveitarfélaganna með góðri samvinnu um að afla bæjar- og sveitarsjóðum aukinna tekna með tekju- og fasteignaskatti, með því að haga gjöldum þeim, sem lögð eru á bæjar- og sveitarfélögin, nokkuð eftir því, sem geta þeirra leyfði, og í þriðja lagi með því, að létta af þeim gjöldum, sem koma hlutfallslega þyngst niður á þeim, sem eiga erfiðast með að afla tekna á þennan hátt. Ég skal játa, að ef einhversstaðar er svo ástatt, að ómögulegt er að bæta úr þörfinni á þennan hátt, þarf að hlaupa undir bagga þar með sérstökum ráðstöfunum. Það getur vel verið, að það sé ekki fjarri sanni, að ríkið hafi einhvern jöfnunarsjóð, einhverskonar púlíu, sem hægt væri að úthluta úr í þessu skyni, en hitt er svo annað mál, að það verður auðvitað að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi, sem hann yrði fyrir, ef þessir skattar yrðu látnir renna í bæjar- og sveitarsjóð, að svo miklu leyti, sem ekki væri hægt að spara ríkisfé að sama skapi, sem náttúrlega væri æskilegt. En ég held, að varla sé hægt að hugsa sér, að allir hv. dm. sjái ekki sanngirnina í því, að fara jafnan í þennan eina sérstaka vasa eftir fé, jafnframt því sem byrðirnar eru þyngdar einmitt á þessum sama aðilja með framfærslulöggjöfinni.