10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (2126)

71. mál, búfjársjúkdómar

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég gat þess við 2. umr., að ég myndi koma með brtt. við þetta frv. við 3. umr.

Ég verð að segja eins og er, að mér virðist að það hefði verið rétt að koma með jafnvel fleiri brtt., en ég vil láta þessar nægja.

1. brtt. miðar að því, að þeir dýralæknar, sem hafa lítil umdæmi, fái e. t. v. ekki jafnhátt kaup fyrir sínar ferðir eins og hinir, sem hafa stærri umdæmi, en þó er það takmarkað við víst hámark. Ég tel rétt, að þeir embættismenn, sem ferðist, sýni reikning yfir ferðakostnað sinn, og vona, að ekki verði deilur um þetta atriði. — Þá er 2. brtt., og hún er sú, að í staðinn fyrir eitthvert búnaðarrit, sem ekki er greint, hvert sé, þá sé ákveðið, að það sé það búnaðarritið, sem gera má ráð fyrir, að sé útbreiddast í landinu, nefnilega það, sem Búnaðarfélag Íslands gefur út, en það er nú búnaðarritið Freyr. Þetta er aðeins lagfæring. — Við 3. brtt. er það að athuga, að ef þeir, sem getið er um í 3. gr., verða að gera sér sérstaka snúninga við að safna skýrslunum, fái þeir einhverja greiðslu fyrir það, því að mér finnst réttmætt, að þessir menn fái einhverja þóknun fyrir þessa skýrslusöfnun, úr því að þeir mega búast við að verða sektaðir skv. 8. gr. fyrir vanrækslu við söfnun skýrslnanna. — 4. brtt. er um það, sem mér virðist hafa gleymzt að taka fram í frv. Er hvergi getið um það, hvert sektir skuli renna, sem ákveðnar eru skv. þessu frv., og er sjálfsagt að geta þess. Það hefir líka verið venja að geta þess í l., hvernig fara skuli með mál, sem rísa kunna út af brotum gegn l. — Ég skal geta þess, þó að ég hafi ekki flutt brtt. um það, að samkv. 4. og 5. gr. frv. skal tafarlaust tilkynna hlutaðeigandi dýralækni, en það er ekki getið um það, hvað eigi að tilkynna, og sektarákvæði 8. gr. virðast því eiga að ná til þess, sem maður virtist ekki vita, hvað er. Annars vænti ég, að tekið verði tillit til þessara till. og þær samþ., og skal ég ekki hafa fleiri orð um þær.