05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2299)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég sé ekki ástæðu til að tala um þetta langt mál. Ég hefi á öðrum vettvangi talað allgreinilega um þessi mál um síðustu áramót, og ég hlýt þess vegna að lýsa ánægju minni yfir því, að þessi till. er komin fram og hvernig henni hefir verið tekið. En það, sem ég sé ástæðu til að taka fram við þessa umr., er það, að þar sem þessum tveimur sjónarmiðum ber nokkuð á milli, þar get ég í sjálfu sér fallizt á, þó að ég telji það ekki máli skipta, því að ég geri það ekki að neinu atriði, hvort orðalaginu er breytt á þann hátt, sem hv. þm. G.-K. tók fram, og ég vil undirstrika það, að þótt þáltill., sem fyrir liggur, verði samþ. þannig, þá ber ekki að skilja það á þann hátt, að horfið sé frá því, sem liggur í brtt., eins og hv. þm. G.-K. tók fram, og ef til vill mætti skilja, og það er vegna þess, að ég lít svo á, að að svo miklu leyti sem brtt. kann að ganga lengra en þáltill., þá hefir af hálfu Framsfl. verið gefin yfirlýsing um þessi efni árið 1928, sem stendur enn alveg óbreytt og við getum endurtekið, enda liggur ekkert fyrir frá þeim tíma, sem gefur ástæðu til að ætla, að sú aðstaða hafi á nokkurn hátt breytzt. Þetta sé ég ástæðu til að taka fram, vegna þess að það gæti ella valdið misskilningi, þegar tekið er tillit til þeirra orða, sem hv. þm. G.-K. lét falla.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. um orð, sem hefðu átt að falla hjá forustumönnum flokksins um sjálfstæðismálið erlendis, vildi ég mega segja það, jafnvel þótt því hafi ekki verið beint til mín, að þegar ég hefi verið spurður um þessi mál erlendis, þá hefi ég gefið það eina svar, að um þessi mál hefði verið einróma samþykki á þingi 1928. Það hefir verið mitt svar, þegar ég hefi verið spurður um sjálfstæðismálið, og ég get ekki séð, að hægt sé að gefa skýrara svar en það.

Það hefir verið í þessu sambandi minnzt á tvö atriði, sem að sjálfsögðu falla undir yfirlýsinguna frá 1928, en þessi þáltill., sem fjallar um utanríkismál, nær ekki yfir. Annað er jafnréttisákvæðið, sem mörgum er þyrnir í augum. Um það er ekki heldur neinn ágreiningur. Hitt er landhelgismálið, og um þau er í rauninni það sama að segja, því að eins og flestum hv. þdm. mun kunnugt, þá er það ástæðan fyrir landhelgisgæzlu Dana hér, rökstutt af grg. fyrir sambandslagasamningnum, að þeir hafa rétt til fiskiveiða hér við land, sem aðrar þjóðir hafa ekki, og gæzlan eigi að koma sem endurgjald fyrir það. Hver ánægja hefir ríkt um þetta ákvæði, sest ljóslega á því, að í sambandslaganefndinni, sem hefir haft með þetta mál að gera. hefir enginn ágreiningur orðið um það.

Að lokum vil ég svo segja það um þessi mál, að vitanlega er það alveg rétt, að menn séu sammála um yfirlýsingar og séu skeleggir í því. En ég held, að hitt skipti ekki minna máli, hversu skeleggir við verðum í að búa okkur undir að taka þessi mál í okkar hendur. Og ég vil óska, að við verðum ekki síður samtaka um undirbúninginn en við erum nú samtaka um að gefa yfirlýsingar.