16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (2308)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Bergur Jónsson:

Það er orðið nokkuð langt síðan þetta mál var til umr., en ég ætla að segja nokkur orð til viðbótar við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Hv. þm. las upp í sambandi við þessa till. nokkuð úr umr., sem urðu um meðferð utanríkismála árið 1928, þegar Sigurður Eggerz gerði fyrirspurn um það hér á þingi, hvort menn vildu neyta uppsagnarákvæðis sambandslaganna. Hv. 2. þm. Reykv., sem þá var málsvari Alþfl., kvað þá reiðubúna, ef hinir þingflokkarnir vildu taka höndum saman við þá um að endurreisa frjálst lýðveldi á Íslandi, eins og hann orðaði það. Þegar hv. þm. las þetta upp, tók hann það réttilega fram, að ef slíta ætti konungssambandinu á annað borð, ætti að gera það alveg. Allir Íslendingar, sem hafa látið skoðun sína á þessu máli í ljós, eru á sama máli og hann. Í 1. gr. sambandslaganna er það tekið fram, að Ísland og Danmörk séu frjáls og fullvalda ríki, en þó er þar ólíku saman að jafna, því Danmörk var orðin sjálfstætt ríki löngu áður, hvað sem segja mætti um fullveldi Íslands, og kom því aldrei til mála, að hún sækti um frelsi sitt til Íslands. Aðalinnihald sambandslaganna er talið samningurinn um sameiginlegan konung. Þegar sambandslögin voru sett, vildu sumir, að gerðir yrðu tveir samningar við Dani, annar um konunginn og hinn um önnur mál. En Danir vildu ekki þá leið og sögðu, að Íslendingar fengju aldrei annan konung en danskan. Samningur um konungssambandið er að nokkru leyti í lögunum, í 3. gr., þar sem samið er um konungsskipti og ákveðið um skilyrði fyrir konungdómi, og í 4. gr. um það, hvernig banna megi, að hann sé konungur annarsstaðar, svo og um afleiðingar af því, ef sambandslögunum yrði sagt upp samkv. ákveðum þeirra, þótt konungsríki yrði áfram á Íslandi, en það fengi konung út af fyrir sig. Einnig ef tekið yrði upp lýðveldi í Danmörku, og þannig mætti benda á ýms dæmi. Sömuleiðis ef konungur afsalaði sér konungdómi.

Mér er ekki kunnugt um, hvort hv. 2. þm. Reykv. vildi beina sömu spurningu til þm. nú og hann gerði 1928. En mér finnst ekki rétt, að ekki sé rætt um þessi atriði í sambandi við þetta mál, þar sem allir flokkar virðast sammála um að slíta sambandinu, hvort sem það er kallað lögfræðilegt eða „pólitískt“ samband.

Af þeim till., sem hér liggja fyrir, er ekki hægt að neita því, að brtt. á þskj. 71 er nokkru víðtækari en frumtili. Hinsvegar vil ég benda á, að ég álít ekki, að upphafið megi vera eins og á brtt. Í till. til þál. er gengið beinlínis út frá, að Íslendingar segi upp sambandslögunum samkvæmt 80. gr., en ekki gengið lengra en í brtt., en orðalag hennar má bæta, ef meiningin er, að gera eigi samþykkt um afnám sambandslaganna. A. m. k. þarf vilji þingflokkanna að koma glöggt fram um það. Sömuleiðis get ég ekki fellt mig við ákvæði brtt. um það, að skipa skuli sérstaka nefnd, og virðist þar vera meiningin að útiloka afskipti utanríkismálanefndar, en hún hefir svipaðan rétt til að skipta sér af þessu máli, sem er eiginlega eingöngu utanríkismál, og sjálf stjórnin. Álít ég, að breyta eigi brtt. svo, að n. þessi starfi a. m. k. í samræmi við utanríkismálanefnd. Vil ég beina því til þeirra manna, sem að brtt. standa, að rétt væri að samræma till. áður en gengið er til síðari umr.

Einnig vil ég beina því til utanríkismálaráðh., að séð verði um, að þeir menn haldi rétti sínum, sem vegna ákvæða sambandslaganna hafa gagnkvæman þegnrétt í hvoru landinu sem er, því þeir menn skipta hundruðum, sem þegar hafa reist framtíð sína þar á. Er sjálfsagt að reyna að tryggja þeim þennan rétt afram. Þetta er mál, sem vafalaust heyrir undir utanríkismálanefnd.